Sex Pistols

Þarsem að Sex Pistols voru að tilkynna um endurkomu sína fannst mér vel við hæfi að skrifa eins og eina grein um hljómsveitina sem er af mörgum talinn ein áhrifamesta pönk hljómsveit allra tíma þrátt fyrir stuttan feril og aðeins eina breiðskífu. Sveitin er ekki síður fræg fyrir ímyndina heldur en tónlistina. Það er svo bara vonandi að hún sjái sér fært að koma til Íslands í þessum endurkomu túr sínum.

Meðlimir:
Johnny Rotten – Söngur
Steve Jones – Gítar
Paul Cook – Trommur
Sid Vicious – Bassi
Glen Matlock – Bassi (1975-1977)

Byrjun sveitarinnar má rekja til ársins 1972 þegar að hljómsveitin The Strand var stofnuð en þar var Steve Jones söngvari og Paul Cook spilaði á trommur. The Strand gekk í gegnum nokkrar nafna og mannabreytingar næstu 3 árin og flestir þeir sem komu nálægt hljómsveitinni áttu það sameiginlegt að hanga í fatabúðinni SEX en eigandi hennar var Malcolm McLaren sem varð umboðsmaður sveitarinnar. Árið 1975 ákvað sveitin að fá Glen Matlock sem bassaleikara en á þeim tíma vantaði þeim einnig söngvara. Þeir spurðu því McLaren hvort að hann gæti bent þeim á einhvern og hann sagði þeim að tala við strák að nafni John Lydon (Johnny Rotten) sem væri oft í búðinni.
John Lydon var ekkert sérstaklega þrifalegur og fljótlega festist nafnið Johnny Rotten við hann en það var Steve Jones sem fyrst kallaði hann því nafni.
Þegar þessi mannaskipan var kominn á hreint ákvað hljómsveitin að skipta um nafn og þann 6.nóv 1975 spilaði sveitin í fyrsta skipti undir nafninu Sex Pistols en á þeim tónleikum var þeim hent af sviðinu áður en þeir náðu að klára fyrsta lagið.

McLaren var þó duglegur að tala um sveitina við pönkaðdáendur sem héngu í búðinni hans alla daga og fljótlega var sveitin orðinn umtöluð í breska pönkheiminum sem fór ört vaxandi á þessum tíma. Það ásamt öflugu tónleikahaldi varð til þess að sveitin fór að vekja áhuga útgáfufyrirtækja og það var svo útgáfurisinn EMI sem landaði samning við sveitina í september árið 1976 og tveimur mánuðum síðar kom svo fyrsta smáskífa Sex Pistols út en það var lagið Anarchy In The U.K.

Þann 1.des 1976 var sveitin boðuð í sjónvarpsviðtal í beinni útsendingu og baksviðs voru meðliminir duglegir að nýta sér það fría áfengi sem var í boði og voru því langt frá því að vera edrú þegar að viðtalið byrjaði og blótuðu þeir ítrekað í viðtalinu sem vakti gríðarlega reiði hina íhaldsömu Breta.
Þetta viðtal er þó dæmi um snilldar publicity stunt þó svo að þetta væri nú trúlega ekki skipulagt en öll dagblöð í Bretlandi voru uppfull af fréttum um þetta viðtal við Sex Pistols daginn eftir og kom í rauninni pönkinu inní meginstraum bresks tónlistarlífs sem samanstóð að mestu af poppi og fjöldaframleiddri rólegri rokktónlist á þessum tíma.

Viðtalið fræga var á sama tíma og hljómsveitin var að legga af stað í túr sem nefndist The Anarchy Tour og voru gríðarleg mótmæli á mörgum stöðum þarsem að þeir áttu að spila og mörgum tónleikum var aflýst. Breski þingmaðurinn Bernard Brook Patridge gekk harðast fram í gagnrýni á Sex Pistols en hann sagði að það besta sem gæti komið fyrir hljómsveitina væri skyndilegur dauði allra í sveitinni, einngi vildi hann sjá einhvern taka sig til og grafa risaholu til að geta grafið hljómsveitina í.

Eftir þennan U.K. túr sveitarinnar var röðin komin að Evrópu og hafði EMI skipulegt stutta ferð í janúar 1977 en þegar sveitin var að bíða eftir flugi til Amsterdam á Heathrow flugvellinum í London hegðuðu meðlimir sveitarinnar sér vægast sagt undarlega og tíður orðrómur hefur verið um það að þeir hafi stöðugt verið að hrækja hvor á annan sem hafi endað með því að Steve Jones hafði kastað upp yfir gamla konu sem sat í sakleysi sínu að bíða eftir flugi.
Þegar að fréttir af þessari hegðun þeirra barst til yfirmanna EMI sögðu þeir upp samningnum við Sex Pistols.

Í febrúar árið 1977 sagði svo Glen Matlock skilið við sveitina og mismunandi kenningar eru um það brotthvarf, margir vilja meina að hann hafi verið rekinn vegna þess að hann fílaði Bítlanna. Johnny Rotten sagði að ástæðan hafi einfaldlega verið sú að hann hafi ekki passað við hina meðlimi sveitarinnar en sjálfur sagði Matlock að hann hafi neyðst til þess að fara vegna þess hversu illa honum og Johnny Rotten kom saman.
Sid Vicious, vinur Rotten og einn mesti aðdáandi sveitarinnar, tók við af Matlock sem bassaleikari en eina ástæða þess að hann var ráðinn í starfið var útlit hans og framkoma þarsem hann kunni nákvæmlega ekki neitt á bassa. Hann var það lélegur að oftast var lækkað eða jafnvel slökkt á magnaranum hans á tónleikum sveitarinnar.
Koma Sid Vicious í Sex Pistols breytti bæði honum og hljómsveitinni, margir segja að við þetta hafi tónlistin hafi hætt að skipta máli og allt snérist núna um ímyndina. Vicious breyttist einnig gríðarlega við þetta og leit á þetta sem tækifæri til þess að verða frægur. Stuttu seinna kynntist hann svo fíklinum og vændiskonunni Nancy Spungen en þau urðu eitt umtalaðasta par tónlistarsögunnar.

Í mars 1977 samdi sveitin við útgáfufyrirtækið A&M og í partý sem var haldið af því tilefni rústaði Vicious skrifstofu forstjóra fyrirtækisins og kastaði upp yfir skrifborðið hans og það varð til þess að aðeins sex dögum eftir að skrifað var undir samninginn sagði A&M hljómsveitinni upp.
Þeir þurftu þó ekki að bíða lengi eftir næsta samningi en í maí sama ár sömdu þeir við Virgin fyrirtækið.

Önnur smáskífa þeirra, God Save The Queen, kom svo út í sama mánuði og vakti gríðarlegt umtal og var af mörgum talin bein árás á drottninguna sem hljómsveitin neitaði reyndar alltaf. Það þótti einnig mjög vandræðarlegt að lagið var gefið út í vikunni sem Bretar fögnuðu því að drottningin hafði verið við völd í 25 ár. BBC setti lagið á bannlista og margar stórar plötubúðir neituðu að selja smáskífuna en það kom þó ekki í veg fyrir að hún fór í annað sætið á breskum vinsældarlistum, margir eru á því að lagið hafi í raun farið í efsta sætið en enginn vildi taka áhættuna á því að setja lagið í efsta sæti vinsældarlista.
Til að fagna árangri sínum ákvað sveitin að taka bát á leigu og sigla Thames ánna í London á meðan þeir spiluðu lagið God Save The Queen. Þrátt fyrir að hafa fengið leyfi borgaryfirvalda eltu lögreglubátar þá alla leiðina og þegar bátur Sex Pistols kom að landi voru allið meðlimir sveitarinnar handteknir ásamt umboðsmanninum McLaren.

Fyrsta og jafnframt eina breiðskífa Sex Pistols kom svo út í lok október árið 1977 og fékk platan nafni Never Mind The Bollocks, Here’s The Sex Pistols.
Það var í raun Glen Matlock sem sá að mestu um að spila á bassa á plötunni vegna þess hversu lélegur Sid Vicious var á bassa og hljómsveitin reyndi eins og hún gat að halda Vicious frá stúdíóinu á meðan að upptökur fóru fram.
Platan fékk svo blendnar viðtökur gagnrýnenda fyrst þegar að hún kom út en á seinni tímum hefur platan almennt verið viðurkennt sem ein áhrifamesta rokkplata sögunnar.
Nafn plötunnar kom sveitinni einnig í vandræði en margar búðir neituðu að selja svona óþverra á prenti og þær búðir sem seldu plötuna sáu fram á kærur. Allt snerist þetta um orðið “bollocks” sem ofast þýðir eistu, talsmönnum sveitarinnar tókst þó að sýna fram á það að bollocks var mjög gamalt orð yfir prest og því var fallið frá öllum ákærum. Í tilviki plötunnar stendur orðið þó fyrir vitleysu (nonsense).

Í byrjun ársins 1978 fór hljómsveitin í fyrsta skipti til BNA og spiluðu aðallega í suðuríkjunum inná börum sem voru fullir af sveitalubbum sem þekktu ekkert til sveitarinnar og tónleikarnir snérust oft upp í algjör vitleysu og þar var Sid Vicious fremstur í flokki en á þessum tíma var hann orðinn gríðarlega háður heróíni. Í eitt skipti í ferðinni fór hann útaf hótelinu í leit að fíkniefnum og fannst stuttu seinna á spítala þarsem hann hafði skorið “Gimme A Fix” (gefið mér skammt) í bringuna á sér með rakvélarblaði. Á tónleikum stundaði hann það svo að móðga og hrækja á áhorfendur.

Johnny Rotten var meira og minna veikur alla ferðina og var farinn að fá algjört ógeð á Vicious ásamt því að hann var stöðugt að fjarlægjast Cook og Jones og var því að mestu leyti einn meðan að á túrnum stóð. Eftir tónleika í San Francisco 14.janúar tilkynnti hann að hann væri hættur í Sex Pistols.
Hinir meðlimir sveitarinn urðu mjög ósáttir við þessa uppsögn Rotten og stungu af til Rio De Janeiro í Brasilíu, nema Sid Vicious sem fór til New York til að hitta Nancy. Rotten var því einn og yfirgefinn í BNA með engan pening né flugmiða á sér. Hann náði þó á endanum að hafa samband við yfirmenn hjá Virgin sem borguðu fyrir hann flugmiða heim til Englands.
Þetta voru nánast endalok sveitarinnar, þeir reyndu að halda áfram í einhvern tíma án Rotten en komu þó aldrei fram á tónleikum eftir brotthvarf hans.

Johnny Rotten ákvað að breyta nafni sínu aftur í John Lydon og gekk til liðs við hljómsveitna Public Image Ldt en í henni var einnig Keith Levene, fyrrum meðlimur The Clash. Sveitin átti nokkrum vinsældum að fagna í Bretlandi. Rotten stóð einnig í málaferlum við McLaren um ógreidd höfundarréttarlög, notkun á Rotten nafninu auk þess sem hann vildi fá skaðabætur fyrir alla þá ólöglega hluti sem hann sagði McLaren hafa fengið sig útí á Sex Pistols tímabilinu.

Eftir endalok Sex Pistols fór Sid Vicious til New York þarsem hann gerði Nancy Spungen að umboðsmanni sínum. Nancy fannst síðan látin 12.okt 1978 en banameinið var stungusár. Vicious var handtekinn fyrir morðið á Nancy og var sleppt gegn tryggingu þann 2.febrúar 1979 og til að fagna því hélt hann partý þarsem að hann lést af völdum of stórs heróín skammts. Sid var aðeins 21 árs gamall þegar að hann lést.

Upprunalegu meðlimir sveitarinnar komu svo saman árið 1996 og fóru í 6 mánaðar tónleikarferð um heiminn sem nefndist Filthy Lucre Tour.
Árið 2005 voru þeir svo teknir inn í Rock And Roll Hall of Fame, meðlimir sveitarinnar sáu þó sér ekki fært að mæta í veislu þeim til heiðurs af þessu tilefni þarsem þeir sögðu að þessi frægðarhöll væri “filthy piss” og að það væru ekki aðdánedur sem réðu því hverjir væru teknir inn.

Fyrir stuttu tilkynnti sveitin svo áform um að spila á tónleikum í Brixton Academy í London þann 8.nóvember 2007, miðarnir seldust upp á innan við mínútur og því var strax aukatónleikum bætt við 9.nóv og þeir miðar seldust einnig upp á innan við mínútu og því var þriðju tónleikunum bætt við 10.nóv og á innan við 5mín seldist upp á þá tónleika.
Hljómleikaferð um Evrópu er svo áætluð og það er spurning hvort að það væri ekki sniðugt að reyna að fá þá til Íslands í þeirri ferð og hvaða staðir ætli að myndu henta fyrir þá?

Er Laugardalshöll of stór? Endilega segið ykkar skoðun.

Heimildir:
www.wikipedia.org
www.allmusic.com