Ég vissi alltaf af þessari sveit, mig langaði alltaf í diskinn. Plötucoverið togaði alltaf í mig þegar ég sá það, aftur og aftur. Brosandi glöðu playmo kallarnir sem prýða hulstrið virðast hafa það svo gott og það er svo gaman hjá þeim að mig hefur alltaf langað til að vera með í fjörinu.
En það var ekki fyrr en fyrst í janúar síðast liðinn sem ég fékk diskinn í hendurnar, og hvað var ég að hugsa að vera ekki löngu búinn að rífa hann í mig. Í tilefni þess að ég hef eignast þessa sælu langar mig að fjalla nánar um diskinn.
Í Apparat Organ Quartet eru fjórir orgel leikarar þeir Úlfur Eldjárn, Hörður Bragason, Sighvatur Ómar Kristinsson og Jóhann Jáhannsson. Ásamt þeim leikur Arnar Geir Ómarsson á trommur. Platan, sem heitir Apparat Organ Quartet var tekin upp á árunum 1999 til 2002 í Thule studios og var síðan gefin út árið 2003 af TMT – Entertainment.

01. Romantika
Gleðileg hljóð taka á móti manni í fyrsta laginu, leikandi létt. Trommurnar koma sterkar inn ásamt bassa, sem er náttúrulega spilaður á orgel eða einhverskonar synth. Flott laglína tekur svo við. En þar næst kemur uppáhaldskaflinn minn í laginu, ný laglína tekur við og sándið er svo flott þá, svona einhverskonar vínil hljóð, minnir á rafmagnstrommusándið í Starálfur með köllunum í Sigurrós. Einnig er flottur kafli í laginu sem byrjar á 3:07 mínútu í laginu. Söngurinn er mjög elektrónískur, eins og reyndar í öllum lögunum. Þar kemur einhverskonar vocoder við sögu væntanlega. En já í heildina, mjög flott lag.

02. Stereo Rock & Roll
Ég held örugglega að þetta sé þekktasta lag þeirra karla, heyrðist allavega mikið í útvarpi á sínum tíma. Byrjar á orðunum “Stereo” og “Rock n’ roll” og loks “Give me rock n’ roll in stereo”. Mjög skondið. Við tekur leikandi orgel lína sem allavega límir sig alltaf á heilann á mér, ásamt annari orgel línu sem byrjar á 1:31 mín. Margt í þessu lagi eins og í svo mörgum öðrum lögum á disknum minna mig svo á gamla tíma þegar maður hékk í Nintendo eða Gameboy öllum stundum. Læðist oft svona Nintendo fílingur yfir mig þegar ég heyri í Apprat. Þetta lag er ekki í miklu uppáhaldi hjá mér eftir að ég fékk diskinn, en ég neita því ekki að þetta lag kveikti upprunalega áhuga minn á Apparat Organ Quartet.

03. The Anguish Of Space-time
Dularfullt lag, með svona stúlknarödd sem syngur “lalala”. Held samt að þetta sé vocoder. Lagið tekur sinn tíma að byrja, þar til trommurnar koma inn og orgel rödd tekur við laglínunni af stúlknaröddinni. Lagið heldur áfram að stigmagnast að smá lægð í laginu en fljótt tekur algjör heví kafli við í endann, mér dettur alltaf Ham í hug, en þess má geta að trommari sveitarinnar var í Ham. Ágætt lag, hefur þó aldrei náð minni fyllstu athygli.

O4. Cruise Control
Hérna erum við komin í smá röff dót.Hehe, óendanlega töff lag. Byrjar með krafti, með svona, já, röff orgel sándi. Inní kemur elektrónísk rödd, sem segir “Cruise control” og “Motor techno” að mér heyrist ásamt fleiri setningum. Töff. Af röddinni tekur orgel við. Kemur með svona flóttalegan kafla í lagið, eins og í bíómynd þegar spennan er í hámarki. Hátindur hörkunar kemur svo óneitanlega í kafla þar sem trommurnar taka frekar þungarokkslegan sprett ásamt reyndar allri sveitinni. Í endan ætlar allt að fara til fjandans og þyngslin stigmagnast með hverju slaginu. Brjálað lag, má með sanni segja og eitt af mínum uppáhalds.

05. Ondula Nova
Í hvert sinn sem ég hlusta á þetta lag kemst ég í kúl fíling. Mér líður eins og ég sé staddur í könnunargeimfari á sporbraut um einhverja reikistjörnuna, og sé að uppgötva einhvað mjög sláandi í vísindum mínum. Reyndar slær dálítið af space-inu þegar trommurnar koma inn, en þá líður mér eins og ég hafi byrst í listaklúbbi í New York eða einhvað álíka. En sá kafli er líka mitt uppáhald í laginu. Flott þyngsli taka svo við og enda lagið ásamt Star Wars geisla hljóðum. Hehe.

06. Global Capital
Já já já. Mjög skemmtileg byrjun. Flott sánd í bassa orgelinu, svona tölvu-error-djúpt-sánd. Þung tölvurödd kemur svo með og ég hef ekki hugmynd um hvað hann segir. En svo koma trommurnar inn, hressandi trommur. Littlu síðar kemur svo þessi snilldar melódía. Mmmmm…hún er mjög sæt. Blóm og fiðrildi er það sem ég sé. Lagið lyftist svo enn meira upp þegar englalegar raddir virðast vera að syngja um einhvað mjög fallegt. Á köflum í þessu lagi líður mér mjög eins og í gamla daga í Nintendo. Sérstaklega þegar líður á lagið og trommurnar fara að taka nokkrum breytingum. Frábært lag, grípur mig, algjörlega.

07. Seremonia
Vekur upp svipaðar tilfiningar og Ondula Nova. Mikil þyngsli á köflum. Á milli læðast þó inn gleðilegar melódíur. Ég þurfti að gefa laginu stórann séns áður en ég fílaði það af einhverju ráði. Mér leist semsagt ekkert á það í fyrstu, en það vann virkilega á. Spiladósalega röddin sem læðist þarna inn á milli yfir þungt bassa orgelið gefur laginu mikið. Ég er líka mjög hrifinn af sándunum sem fylgja í laginu. Svona mors-code sánd spiluð á double-speed eða einhvað, ásamt forvitnilegum hljóðum.

08. Charlie Tango #2
Dularfullt en flott. Stundum. Ég er allavega ekki mjög hrifinn. Tilraunastarfsemi mikil oft á tíðum. Voða mikið sull af effectum, en þó leynist þarna stef sem er dáldið töff, svona símalínulegt eins þegar maður tengdist internetinu með gamla 56k modeminu. Trommurnar eru líka nokkuð næs í þessu lagi, mysterious military einhvernveginn.

09. Sofðu litla vél
Þeir eru orðnir dálítið dularfullir á síðustu lögum plötunnar, kveðja á rólegum dökkum nótum. Í þessu lagi eru engar trommur, lagið svífur þó skemmtilega í gegnum hlustir mínar. Og svífur beint út aftur, ekkert beint eftirminnilegt sem grípur mig. Þó einu sinni komi í laginu mjög svo flott sánd sem mér finnst skemmtilegt. Fínasta mistery.


Ég hef ótrúlega gaman af þessari plötu og hún algjörlega opnaði hug minn fyrir elektróník. Ég skora á alla til að kynna sér þessa plötu, hvar sem þið standið í tónlist. Því það er mér allveg ljóst að maður veit aldrei hvað höfðar til manns áður en maður hefur heyrt það.