Ég vann um mjög langt skeið í Pizzugeiranum á stöðum hjá einni af stærri keðjunum. Skemmst frá að segja fær maður mikla leið á pizzum.

Þar sem aldrei var til staðar örbylgjuofn eða þvíumlíkt át maður allskonar skyndibita og varð loks bara soltinn í heimaeldað.

Ef einhver sem les þetta er að upplifa þetta í dag þá ætla ég til gamans og fróðleiks að setja inn tvær uppáhalds uppskriftir eða svo sem ég notaði til að bjarga mataræði mínu.

Eitt það skotheldasta og ódýrasta sem verður eldað í pizzaofni (ég hafði aðgang að færibandaofni sem hafði bökunartíma í kringum 6:10-6:20 og var á u.þ.b. 260-270 gráðu hita, hafði aldrei fyrir að breyta því) er hamborgarar. Finnur fituminnstu hamborgaranna sem koma í fourpack með brauðum. Þá vantar einhverskonar pönnu. Ég notaði fat undir brauðstangir sem ég fóðraði með álpappír. Smellti bara borgurunum á álpappírinn, kryddaði rækilega meða season all og pipar og setti slatta af netum undir pizzubotna yfir.

Þegar hamborgararnir eru að verða búnir með seinni umferðina tekur maður þá út og setur ost ofaná. Ef þú vinnur á pizzastað er bara mál að taka pizzuostablöndu, það virkar fínt. Og þar sem við erum á pizzastað er nóg af dóti til að setja á brauðið. Ég passaði að eiga alltaf tómatsósu til viðbótar við kryddið og álpappírinn þannig að laukur og tómatsósa fór á minn borgara. Þeir sem eru í aðstöðu til að prófa ættu að gera það því þetta eru bestu “heimagerðu” hamborgarar sem ég hef fengið sem koma ekki af grilli.

Besta meðlætið er að sjálfsögðu franskar og McCains 5 mínútna franskar verða fínar eftir að fara eina umferð í gegnum ofninn í fati eins og hamborgararnir.

Það skemmtilegast sem ég eldaði hinsvegar var lamba- eða svínakótilettur. Best að hafa þær þýddar en þá ættu 2-3 umferðir í gegnum ofninn að duga fínt.

Ég kryddaði lambakótilettur með season all og pipar (hei, þetta er ekki haute cuisine ala carte!!! :) svínakótiletturnar mátti meðhöndla eins, en það sem var mjög spennandi var að nota hvítlauksolíu til að smyrja þær með og svo kannski smá pipar. Ílát eins og ég notaði undir hamborgarana ætti að duga en flóknari aðferðir voru einnig notaðar. Sem dæmi var svona panna (djúp ca. 12 tommu víð) tekin og endar af óbökuðum brauðstöngum settir í botninn og net undan lítilli pizzu 8-9" set ofan á. Kjötið ofan á netið ásamt fleiri braustangarkubbum til að halda uppi netunum sem síðan fóru yfir kjötið. Þetta er augljóslega ákaflega fitusnauð aðferð við að elda (feitar) kótilettur.

Franskar eru mitt eftirlætis meðlæti með svona og þá er gott að eiga kartöflukrydd á staðnum. Geymið bara kryddið sem fylgdi síðast með KFC frönskunum :) Svo er létt að fá svona kalda grillsósu, helst piparsósu að mínu mati, tilbúna út í búð. Ef fólk vill salat eru ýmsir valkostir fyrir hendi sem krefjast engrar fyrirhafnar bara grípa þetta tilbúið út í búð.

Jæja þetta er orðið miklu lengra en efni stóðu til en ég vona að einhver hafi gagn eða alla vega gaman af þessu!