Hér er svolítið yfirlit fyrir þá sem eru að velta fyrir sér að byrja að æfa. Þetta er hugsað sem grunnur en ekki fullkomin yfirferð yfir heim bardagalistana … viljann fyrir verkið kind of thing.
Þeir sem hafa áhuga á að læra bardagalistir þurfa að velta alvarlega fyrir sér hvaða stíl þeir vilja tileinka sér og hentar þeim best. Það er um margt að velja, allt frá hefðbundnum japönskum, kóreönskum og kínverskum stílum til filippínskra vopnakerfa eða stíla sem leggja meiri áherslu á keppni en sjálfsvörn. Hver þessara stíla hefur sína sérstöku kosti og galla og oft litríka sögu.
Eftirfarandi er stutt samantekt um nokkrar bardagalistir sem boðið er upp á á Íslandi sett saman (og þýdd) með það í huga að byrjendur geti notað hana sér til aðstoðar við að velja íþrótt sem hentar þeim. Stílarnir eru flokkaðir eftir upprunalöndum.
Japanskir stílar
Japanskar bardagalistir, þekktar einu nafni sem budo (vegur- eða leið bardagamannsins) ná meðal annarra yfir ýmsa stíla Karate-do, Judo, Aikido og Kendo.
* Shotokan karate. Shotokan, nefnt eftir Gichin (Shoto) Funakoshi, er einn vinsælasti karatestíll heims. Funakoshi segir sjálfur að “karate beinist hvorki að sigri eða tapi, heldur að fullkomnun anda einstaklinganna sem æfa það.” Shotokan er mjög harður línulegur stíll sem hefur haldið tryggð við hinn svokallaða “veg hinnar tómu handar” (karate-do) með því að nota ekki vopn. Þó að það væri upphaflega þróað sem hörð vopnlaus bardagaaðferð með áherslu á inngöngutæknir og hugmyndina um “one strike, one kill” þá hefur shotokan þróast í átt að blöndu af bardagalist og bardagaíþrótt. Karateþjálfun byggir upp einstaklinginn andlega og hjálpar nemandanum til að uppgötva líkamleg og andleg takmörk sín með harðri þjálfun Dæmi um aðra karatestíla sem hægt er að æfa hér á landi eru Goju-ryu og Goju-kai, sem standa nær hefðbundnu Okinawa karate-do heldur en Shotokan.
* Judo. Ólíkt karate þá byggir judo á griptæknum og lásum og hefur verið ólympíuíþrótt frá 1964. Judo þróaðist úr hinni hættulegu list jujutsu og er gjarnan lýst sem leiðin til að nota köst, kæfigrip og lása til að halda niðri stærri og sterkari andstæðingi án þess að skaða hann. Þegar nemendur hafa náð hærri gráðum eru þeim kenndar hættulegri tæknir sem ekki eru notaðar í íþróttakepnum heldur eingöngu sem sjálfsvörn. Judo inniheldur mikinn fjölda tækna og er líklega vinsælasta “grappling” bardagalistin.
* Aikido. Aikido þýðir beinlínis “vegurinn til samkenndar og kærleika” og var þróað af Morihei Ueshiba á tuttugustu öld úr ýmsum bardagalistum, t.d. jujutsu, Daito-ryu o.fl. Aikido er heildstætt kerfi sjáfsvarnar þar sem lásar og köst eru notuð til að stöðva andstæðinginn þannig að hvorugur skaðist. Aikido notar kraft árásarinnar gegn andstæðingnum í öllum tæknum og engar árásartæknir eru notaðar. Aikido er ekki keppnisíþrótt og æfingar eru milli samherja sem hjálpa hvor öðrum að öðlast meiri færni, en ekki milli tveggja mótherja sem leitast við að sigra hvorn annan. Mikil heimspeki liggur að baki Aikido og er hún andleg jafnt sem líkamleg þjálfun.
Kóreskir stílar
Kóreskir stílar skiptast í tvo flokka, annars vegar bardagaíþróttir eins og Tae Kwon Do og hins vegar bardagalistir eins og Kuk sool og Hapkido.
* Taekwondo. Samkvæmt alfræðiritum hefur Taekwondo verið til undir mismunandi nöfnum í um 1000 ár en tók ekki á sig núverandi form og nafn fyrr en um 1955. Síðan þá hefur íþróttin orðið vel þekkt í bardagalistaheminum og er sennilega sú bardagaíþrótt sem flestir stunda í heiminum í dag.
Taekwondo er fyrst og fremst bardagaíþrótt þar sem aðaláhersla er lögð á spörk, högg og blokktæknir sem ekki eru ætlaðar til manndrápa. Hugmyndin að baki er að menn keppi fyrst og fremst við sjálfa sig og eigin metnað en ekki andstæðinginn.
Taekwondo er sérlega þekkt fyrir sparktæknir sem eru snöggar og notadrjúgar. Handtæknir eru oftast notaðar til að fylgja eftir spörkum. Sjálfsvarnartæknir Taekwondo eru aðallega öruggari sparktæknir af þægilega löngu færi.
Sveigjanleiki og úthald eru plúsar ef menn ætla að æfa Taekwondo.
* Hapkido. Hapkido er yfirgripsmikið sjálfsvarnarkerfi sem notar nær allar bardagaaðferðir til að ná árangri. Það er sambland af ýmsum stílum, svo sem Taekwondo, Judo og Aikido. Tæknir geta verið frá mjúkum Aikidolíkum tæknum úti í mjög harðar karatelíkum tæknum. Þessi fjölbreytileiki gefur þeim er æfir Hapkido góðan grunn til sjálfsvarnar í nær hvaða aðstæðum sem er. Hapkido er ekki stundað sem íþrótt og margar tæknir þess geta verið stórhættulegar og jafnvel lífshættulegar. Heimspeki Hapkido er hins vegar grundvölluð á sjálfsvörn og er ekki aggressív, heldur er reynt að nota kraft árásarinnar gegn andstæðingnum. Til skamms tíma var hægt að æfa Hapkido á Íslandi.
Kínverskir stílar
Kínverskar bardagalistir skiptast í tvo aðalflokka, nei-chia (innrænar) og wai-chia (útrænar). Innræn kung-fu kerfi eru t.d. pa kua chang, fusing-i chuan and tai chi chuan. þeir sem æfa þessa stíla leitast við að beisla og þróa ki orku sína. Útræn kung-fu kerfi eins og choy li fut, hung gar, sil lum og wing chun, nota spörk og högg til að stöðva andstæðinginn.
* Tai Chi er sennilega þekktasta afbrigði innrænu stílanna. Þó að Tai Chi sé bardagalist þá er hún nú meira stunduð sem heilun og andleg sem líkamleg þjálfun.
Sem sjálfsvörn notar Tai Chi kraft andstæðingsins gegn honum og mætir nánast aldrei hörðu með hörðu. Jafnvægi skiptir miklu máli og í gegnum það að þjálfa eigið jafnvægi nálgast nemendur jafnvægi andstæðingsins og geta notað það gegn honum.
* Wing Chun. Það er aðallega Bruce Lee heitnum að þakka að Wing Chun er einn vinsælasti útræni stíllinn. Wing Chun var það fyrsta sem hann æfði formlega og þegar hann varð frægur varð Wing Chun það líka.
Wing Chun er á tvennan hátt ólík öðrum bardagalistum. Í fyrsta lagi var hún þróuð af konu og miðað við aðra kínverska bardagastíla er hægt að læra Wing Chun fremur fljótt. Wing Chun hefur mikinn sprengikraft og eru lág spörk og hraðar handtæknir mikið notaðar. Árás og vörn renna saman í sömu tæknunum. Wing Chun er oft kölluð bardagalist hins hugsandi manss því að hún notar vísindalegar aðferðir til kennslu og æfinga. Notkun hinna svokölluðu kvenlegu þátta hennar eins og mýktar og næmi er einnig mikilvæg. Wing Chun reiðir sig á sjálfsvakningu, einbeitingu og sveigjanleika auk hárréttrar tímasetningar, réttar stöðu og fjarlægðar.
Að velja sér stíl og klúbb
Þó að það sé ekki beinlínis kjarneðlisfræðilegt vandamál að velja sér rétta stílinn þá borgar sig að gera heimavinnuna sína og velta möguleikunum vel fyrir sér. Þú skalt fyrst og fremst taka inn í jöfnuna eigin líkamlega getu og takmörk auk ástæðna þinna fyrir því að vilja æfa bardagalist. Ertu aðallega að leita þér að keppnisíþrótt, að aðferð til að komast í betra líkamsástand eða viltu læra hreina sjáfsvörn?
Verð er annað sem þú skalt athuga. Það er rétt að bera saman verð á milli klúbba ef um fleiri en einn er að ræða í þeim stíl sem þú hefur áhuga á. Einnig getur verið gott að athuga aðra klúbba til að fá hugmynd um meðalverð fyrir bardagalistakennslu yfirleitt.
Hver sem er getur keypt sér svart belti og stofnað klúbb til að kenna bardagalistir, svo að það er mikilvægt að athuga vel hvort kennarinn/arnir hafa tilskilin réttindi og gráður. Flestir klúbbar taka því vel ef áhugasamir vilja fá að horfa á æfingu og þannig getur þú komist að því hversu góður kennarinn er í list sinni og hvernig hann fer með nemendurna. Það er líka góð leið til að finna andann í klúbbnum að fylgjast með einni æfingu eða svo. (Það er samt kurteisi að hringja á undan sér og spyrja leyfis, því ekki eru allir jafn hrifnir af því að fá utanaðkomandi gesti.) Þú skalt spyrja þjálfarann út í bakgrunn hans, t.d. hvaða sambandi hann tilheyri og hvar hann hafi lært, hvaða gráðu hann haldi og þess háttar. Spurðu aðra nemendur hvað þeim finnst um kennsluna og þjálfarann. Ef þjálfarinn og nemendur eru ófúsir til að veita þér grundvallarupplýsingar skaltu leita annað. Slíkt boðar ekki gott.
Að lokum er best að muna að allar bardagalistir hafa eitthvað til síns ágætis en það er einungis hægt að verða góður í þeim með því að æfa reglulega og af einbeitni.
Þýtt og staðfært af http://www.blackbeltmag.com/rookies/beginnerguide/