Hinn sanni konungur platform leikjanna! (1986-90) Mario Mario nefnist kauði sem hver og einn einasti tölvuleikjaunnandi einstaklingur ætti að minnsta kosti að hafa heyrt getið á nafn.
Hann hefur svo langan feril sem skemmtikraftur í grafísku formi, að titillinn “konungur platform leikjanna” er löngu búinn að festa rætur við hann.

Ég tók mig til fyrir nokkrum mánuðum síðan og skrifaði heljarinnar umfjöllun um píparan góða, og hef ég nú ætlað mér að halda áfram frásögn minni og rekja nokkur ár til viðbótar af sögu hans.

Við tökum upp þráðinn þar sem frá var horfið og það leiðir okkur beint á það herrans ár, 1986.
Þá dróg nú aldeilis til tíðinda í landi hinna skáeygðu og skemmtilegu því nú var kominn tími á framhald hins geysivinsæla leiks, Super Mario Bros.
Frumlegheitin voru í hámarki þá dagana og hét leikurinn einfaldlega Super Mario Bros. 2, það skyggði þó ekki á gæði leiksins því hann þótti með eindæmum skemmtilegur. Þó finnst mér rétt að benda á eitt, sá SMB. 2 leikur sem ég er að tala um núna er alls ekki sá sami og þið kannist flest við því þessi leikur kom aðeins út í Japan. Hann er ekki ólíkur SMB eða öllu heldur mjög svipaður, og því héldu Nintendo menn að hann myndi ekki seljast vel á Bandaríkja- og Evrópumarkaði. Þrátt fyrir að SMB. 2 sé svipaður fyrri leiknum þá er hann mun erfiðari. Einnig eru ýmsir sniðugir hlutir teknir í notkun eins og til dæmis eitraður sveppur, sem hefur andstæð áhrif við venjulega sveppinn, eða til að gera stutta sögu langa þá drepur hann lítinn Mario/Luigi og meiðir stóran Mario/Luigi.
Það sem þessi leikur hafði líka fram yfir þann fyrsta er að Luigi er ekki bara grænt afrit af Mario, heldur er hann aðeins hávaxnari heldur en feiti bróðir sinn og hægari í förum, en hoppar samt hærra. Mario aftur á móti er hraðari en hoppar ekki eins hátt og langt.
Eins og áður sagði þá kom þessi leikur bara út í Japan en var samt sem áður gefinn út aftur fyrir restina af heiminum, á SNES tölvuna nokkrum árum seinna.

Nú liðu 2 ár og ekkert gerðist. Japanir skemmtu sér konunglega í Super Mario Bros. 2 á meðan aðrir sátu heima hjá sér grenjandi að spila Wrecking Crew, ekki að leikurinn sé svona leiðinlegur samt, heldur voru menn farnir að vera óþolinmóðir og vildu fá nýjan Mario leik.

Og þá kom loksins að því, dagatalið sýndi 1988 og tölvuskjárinn sýndi Super Mario Bros. 2. Og það ekki aðeins í Japan í þetta skiptið. En fólki var samt brugðið því hér var alls ekki um sama leik að ræða.
Ekki nóg með að þetta hafi ekki verið sami leikurinn heldur var hann svo allt öðruvísi að menn áttu ekki til orð af undrun, svo maður tali nú ekki um að þessi leikur er allt frábrugðinn í nánast alla staði restinni af Mario leikjunum.
Það er nú samt ástæða á bakvið það eins og allt annað, og hún er sú að þetta átti alls ekkert að vera Mario leikur í fyrstu. Til að byrja með átti leikurinn að heita Dream Factory: Doki Doki Panic, og var furðulegur leikur með hetjum frá Arabíu og álíka vitleysu. Nintendo keyptu leikinn af fyrrverandi framleiðendum og gerðu einstaka breytingar, og “tada” Super Mario leikur kominn!

Super Mario Bros. 2 er ólíkur öllum öðrum Mario leikjum og þá aðallega útaf nokkrum augljósum ástæðum:
1. Þú getur ekki kramið óvinina með því að hoppá ofan á þá, heldur stenduru bara á höfðinu á þeim og færð far með þeim hvert sem leið þeirra liggur. En hins vegar geturu tekið þá upp og haldið á þeim og notað þá sem vopn, og líka hent drasli í þá til að drepa þá.
2. Allt aðrir óvinir en þekktust hingað til, engar skjaldbökur hér né aðrir góðkunnir illfjendur.
3. Leikurinn gerist allur í einhverjum fáranlegum og skringilegum draumaheimi í staðinn fyrir Konungsríki Sveppanna eins og hefur verið fyrir marga eins og annað heimili í gegnum tölvuleikjaspil-ævi sína.
4. Aðal óvinur þeirra bræðra er ekki Bowser í þetta skiptið heldur einhverskonar Bowser wannabe sem kallar sig Wart.

Síðan er einnig gaman að nefna þann skemmtilega möguleika að þú átt kost á að taka við stjórninni á heilum 4 persónum: Mario, Luigi, Prinsessan, og Sveppi.

Ástæða þess að Nintendo gáfu frá sér svona furðulegan Mario leik er sú að þeir höfðu nú þegar gert leik að nafni Super Mario Bros. 2 en vildu ekki gefa hann út í öllum heiminum því þeir höfðu áhyggjur af því að fólki kynni að finnast hann of líkur þeim fyrri.
Kannski var þetta ekki svo slæm hugmynd eftir allt saman því Super Mario Bros. 2 sá síðari seldist í yfir 10 milljón eintökum!

Á þessu sama ári kom svo út leikur í Japan sem nefnist The Return of Mario Bros og á hann víst að vera framhald af leiknum Mario Bros.
Lítið er vitað um þennan leik fyrir utan það að hérna gefst fólki kost á að spila gamla Mario Bros með fleiri borðum og þess háttar skemmtilegheitum.

Nú var komið að tímamótum í sögu Mario. Hingað til hafði hann aðeins verið á Atari & NES(Nintendo Entertainment System) tölvunum, en nú var komið að Game Boy líka!
Árið var 1989 og leikurinn sem um er að ræða heitir Super Mario Land. Í þessum leik er Mario staddur í framandi heimi þar sem hann ætlar sér að bjarga prinsessunni Daisy frá hinu illa geim-skrímsli, Tatanga. Þessi leikur er líkur Super Mario Bros. á margan hátt og hafa líka nokkrir óvinir þaðan verið fengnir að láni.
Það sem gerir þennan leik skemmtilegan, ásamt mörgu öðru, er að Mario fær tækifæri til að stýra bæði flugvél og kafbát.
Þessi fyrsti Mario leikur á Game Boy tölvuna seldist þokkalega vel og í hvorki meira né minna en 14 milljónum eintaka um allan heim!

Sama ár, sama tölva.. allt annar leikur:
Ef þið kannist við leiki sem kallast Arkanoid þá vitiði hvers konar leikur þetta er, nefnist hann Alleyway og spilast hann eitthvað á þann dúr að þú stjórnar platta og átta að skjóta Mario fram og til baka um lítið herbergi.
Tilgangurinn í þessu er sá sami og í þeim leikjum sem eru gjarnan kenndir við ping pong, nema hvað þú stjórnar einum platta og skýtur kúlu í ýmsa kubba.
Ef þið skiljið ekki ennþá hvað ég meina þá verður það hafa það.. Því ég mun ekki eyða meiri tíma í þennan leik, enda ómerkur nokk.

Game Boy virtist ætla að verða vinsælt athvarf hjá Mario því nú er hann kominn í dómarastólinn að nýju, og í þetta skiptið í leik að nafni Tennis á litlu lófatölvuna okkar allra…

Jæja, Tetris er alltaf jafn vinsæll enda einfaldur og skemmtilegur. Nú kom út Tetris leikur með Mario bræðrum í aðalhlutverki, og ennþá erum við að tala um svarthvíta skemmtun fyrir Game Boy'inn.

Golf, titlast næsti leikur og þarfnast hann nú varla frekari útskýringa. Mario er greinilega orðinn mikil golf spilari enda líklega of feitur fyrir aðrar hasar íþróttir.

1990…………………… Já ég ætla gefa ykkur smá tíma til að jafna ykkur því að hugsa til baka og rifja upp góðu minningarnar frá þessu ári tekur örugglega mikið á fyrir marga. Þetta er árið sem hinn ólýsanlega frægi og geysilega góði Super Mario Bros. 3 kom út!
Það tók Nintendo snillingana heil 2 ár að búa þetta meistaraverk til, og verður að segjast að hver mínúta var biðinnar virði.
Super Mario Bros. 3 er án efa einn sá besti leikur sem litið hefur dagsins ljós og sá allra besti sem var gefinn út fyrir NES leikjatölvuna góðu. Sölutölunrnar tala líka sínu máli því SMB. 3 seldist í 18 milljónum eintaka!
Bowser tók sig til og rændi prinsessunni enn eina ferðina og til að gera Mario verkið enn erfiðara fyrir en áður þá sendir hann öll bönin sín 7 út á vígvöllinn til að stoppa Mario. Hetjan okkar þarf að ferðast í gegnum 7 veraldir og í hverri veröld þarf hann að sigra einn af ærslabelgjunum hans Bowsers til að komast áfram í björgunarför sinni.
Í þessum leik fær Mario fullt af frábærum nýjum styrkleikjum og nytsamlegum hlutum, til dæmis flug-skottið góða sem gerir honum kleift að fljúga í takmarkaðan tíma og svífa til lendingar svo lítið sé nefnt.
Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá held ég að þetta sé besti Mario leikur allra tíma!

Eftir þennan merkisviðburð og magnaða leik var ennþá pláss á sama árinu fyrir fleiri Mario leiki, einn af þeim var Dr. Mario.
Hann á víst að gerast eftir SMB. 3 og fer Mario þá að vinna í sjúkrahúsi í Konungsríki Sveppanna, ekki veitti af því fullt af leiðinda sjúkdómum voru að skjóta upp kollinum.
Þessi leikur er mjög líkur Tetris í alla staði og spilast þar af leiðandi á svipaðan hátt.
Þess má svo til gamans geta að Peach prinsessa lætur örliítið sjá sig í leiknum, og það í hlutverki hjúkku… úh, sexy!

Ennþá var árið 1990 í gangi og ennþá gerast kraftaverkin…
Núna höfðu Nintendo gefið út nýja leikjatölvu að nafni Super Nintendo Entertainment System, eða SNES. Og kom þá út leikur sem heitir Super Mario World!
Sá leikur seldist í 17 milljón eintaka og ekki að ástæðulausu því hér er um að ræða FRÁBÆRAN leik!
Mario, Peach og Luigi eru í fríi á Yoshi eyjunni góðu en þá snýr Bowser aftur og, suprise suprise.. rænir prinsessunni!
Hérna hittir Mario líka sinn góða og trausta vin, Yoshi, í fyrsta skipti.
Bowser lét ekki nægja að ræna prinsessunni í þetta skiptið heldur rændi hann líka vinum hans Yoshi og klófesti þá í eggjum. Þessi leikur spilast í gegnum veraldir svipað og í SMB. 3 og í hverri veröld þarftu að sigrast á einum af krökkunum hans Bowser's og bjarga með þeim hætti einum af vinum hans Yoshi.
Þessi leikur er vægast sagt RISAVAXINN og inniheldur hvorki meira né minna en 96 mismunandi leiðir og getur maður uppgötvað 76 mismuanndi borð, ekki nóg með það heldur er leikurinn stútfullur af leynileiðum og leynistöðum. Hérna fær Mario einnig skikkjuna góðu sem mun nýtast honum vel í gegnum ævintýrin sem bíða hans. Fyrir þá sem ekki vita neitt um skikkjuna þá er hún notuð á svipaðan hátt og skottið úr SMB. 3, nema hvað skikkjan er svolítið þróaðari og þar af leiðandi fjölbreyttari og betri í notkun fyrir Mario.

Super Mario World skipar sess sem einn skemmtilegasti leikur sem ég hef spilað í gegnum ævina og er í harðri toppbaráttu með Super Mario Bros. 3!
Ég meira að segja gríp í hann af og til enn þann dag í dag þegar mér leiðist :)

Jæja, nú eru liðin 5 ár til viðbótar frá því að við tókum upp þráðinn hjá þeim Mario og félögum og er ekki hægt að segja annað en að mikið hafi gerst og frægðin hafi magnast til muna hjá þessum skemmtilega hóp, með Mario Mario í broddi fylkingar.
En hann er nú samt bara ungur ennþá og mörg ár framundan til að gera magnaðari hluti en hann hefur nú þegar gert. Hvað er framundan í hinum glæsilega leikjaferli Mario?

Fylgist með í komandi greinum…