Spennandi GameCube titlar á komandi ári ! Árið 2002 var án efa ansi viðburðaríkt fyrir GameCube tölvuna fræknu..
En ég hef þær gleðifréttir að færa, að árið 2003 mun verða enn betra !

Margir efnilegir titlar létu sjá sig í búðarhillum Evrópumanna, og þónokkrir vel peningana virði. Þar má svosem helst nefna Super Mario Sunshine, Eternal Darkness, Super Smash Bros. Melee, Resident Evil & Magical Mirror: Mickey Mouse.

Þið sem eigið ekki þessa leiki ættuð ekki að gera sjálfum ykkur þann grikk að missa af þeim, allt mjög góðir titlar sem hver og einn GameCube eigandi ætti ekki að vera án !
…..En að sjálfsögðu var ég að djóka um þennan síðasta =)

En nú er hinsvegar það ágæta ár á enda runnið og að gefnu tilefni ætla ég að rýna aðeins í það sem koma skal…

Viewtiful Joe:
Hönnuðir: Capcom
Útgefendur: Capcom
Þennan leik veit ég ekki mjög mikið um, en hver veit hvaða hluti hann mun gera fyrir GameCube ?
Hann er “side-scrolling” eða spilast í 2D stílnum gamla góða, og er með “cel-shaded” grafík. Ég er heldur ekki frá því að hann sé með þá furðulegustu grafík sem ég hef séð í leik. Aðalhetja leiksins ber nafnið Joe og mun það vera verk Capcom's að gera þennan leik eftirsóttan. Endilega kíkið á meiri upplýsingar um þennan því hann virðist áhugaverður.. Sjáum hvað setur.

Super Monkey Ball 2:
Hönnuðir: Amusement Vision
Útgefendur: Sega
Fyrri leikurinn var hrein skemmtun, og þvílík snilld þar að auki. Sem gerir það af verkum að ég get persónulega ekki beðið eftir þessum, fjölspilunin mun skipa stóran sess í honum og mun sagan innihalda yfir 150 borð, öll virkilega flott hönnuð. Ég skrifaði smá umfjöllun um leikinn forðum og má nálgast hana <a href="http://www.hugi.is/leikjatolvur/greinar.php?grein_id=50603“>hér</a>.

Pro Evoltion Soccer 2:
Hönnuðir: Konami
Útgefendur: Konami
Þessi leikur seldist í 400 þúsund eintökum fyrstu vikuna sína á PlayStation 2. Vonandi mun árangurinn verða sá hinn sami þegar hann mun láta sjá sig á GameCube. Ég er persónulega ekki spenntur fyrir þessum, en fótboltafíklar ættu svo sannarlega að vera það !

Harvest Moon: A Wonderful Life
Hönnuðir: Natsume
Útgefendur: Natsume
Harvest Moon leikirnir eru virkilega vinsælir, og held ég að fólk sé án efa spennt fyrir þessum. Maður byrjar leikinn sem krakki og leikurinn endist fram á háan aldur þessa barns. Meðan á þessum rúmlega 30 árum stendur getur þú: Gifst, átt börn, og drepið allar kýrnar þínar. Svo lítið sé nefnt.. En aðaltakmark leiksins er að sjá um góðan bóndabæ og lifa lífinu. Nýr Harvest Moon leikur er einnig væntanlegur í Game Boy Advance tölvuna og mun vera hægt að samnýta þá báða með snúru á milli tölva. Einnig bendi ég á grein sem Drebenson skrifaði fyrir stuttu um GBA leikinn.

Skies of Arcadia Legend:
Hönnuðir: Sega
Útgefendur: Sega
Þú ert foringi hóps af ræningjum sem halda sig í lofti, og munt þú hafa aðgang af einum stærsta tölvuleikjaheim sem til er. Yfir 300 persónur, 70 vopn, og fullt af göldrum sem munu halda þér við efnið um ókomna daga. Ég veit lítið annað um þennan leik nema hvað hann er talinn eiga eftir að verða klassík á GameCube, svo góður á hann víst að vera.

1080°: Avalanche:
Hönnuðir: Nintendo Sofware Technology
Útgefendur: Nintendo
Upprunalegi 1080° leikurinn sló í gegn á Nintendo 64 tölvuna gömlu góðu, og var sá besti sinnar tegundar í þá daga. Vonandi mun þessi nýju gera sömu galdrana og fyrirrennara hans tókst að skapa. Þess má einnig geta að leikurinn fékk nafnbreytingu fyrir alls ekki svo löngu síðan, og breyttist nafnið þá úr ”White Storm“ yfir í núverandi ”Avalanche.“ En það ætti hinsvegar ekki að hafa nein áhrif á gæði leiksins..

Ofantaldir leikir eru án efa ansi áhugaverðir og munu líklega gera góða lukku hjá sumum ykkar. En nú vandast hinsvegar valið meira og munu þeir titlar sem eftir koma verða enn áhugaverðari. Og til þess líklegir að verða frábærir smellir sem fólk ætti að hafa augun með !

Soul Calibur 2:
Hönnuðir: Namco
Útgefendur: Namco
GameCube þurfti svo sannarlega á leik sem gæti fullnægt öllum þörfum slagsmálafíklana, og er þessi án efa fullkomna svarið við því. Fyrri leikurinn gerði þvílíka lukku á Sega Dreamcast tölvunni sálugu þannig að þessi leikur, sem mun vera framhald hins fyrri, á varla eftir að klikka og mun örugglega slá í gegn á GameCube. Gerðar verða litlar breytingar á spiluninni en þó smáveigis til að stytta veginn í átt að fullkomnun enn meira. Leikurinn skartar einnig frábærri grafík sem skemmir sko alls ekki fyrir. Gaman væri einnig að nefna eina kjaftasögu sem sem orðið á götunni er alltaf að minnast á, mun sú kjaftasaga hljóða á þann hátt að Link úr Zelda leikjunum verður kannski spilanlegur í leiknum. Og ef það er ekki til að gera mann spenntari þá veit ég ekki hvað !

Mario Kart:
Hönnuðir: Nintendo Software Technology
Útgefendur: Nintendo
Nintendo geta ekki verið stoltir af tölvu frá sér nema leikjaúrvalið hennar skarti að minnsta kosti einum Mario Kart leik, og skil ég það mætavel því Mario Kart leikirnir hafa hingað til verið frábærir og vakið mikla lukku fyrir til dæmis snilldarfjölspilun. Leikurinn sem kom á Super Nintendo var algjört meistaraverk, og sá sem kom á Nintendo 64 var hreinasta snilld og stútfullur af skemmtun í hæsta gæðaflokki. Við nögum öll á okkur táneglurnar í þeirri von um að þessi verði eins mikilfenglegur og þeir fyrri, eða að minnsta kosti ég.. Who's with me !? :D

Phantasy Star Online Episode I & II:
Hönnuðir: Sonic Team
Útgefendur: Sega
Fyrsti online leikurinn fyrir GameCube (og vonandi ekki sá síðasti) mun örugglega verða magnaður. Hann hefur reyndar nú þegar verið gefinn út í Japan og Bandaríkjunum og fengið mikla athygli fjölmiðla um heim allan. Titillinn segir til um það að þessi leikur sé í 2 pörtum ”episodes“ og einnig mun þetta vera RPG leikur. Fyrri parturinn mun vera Dreamcast leikurinn samnefndi en sá seinni mun innihalda nýja endakalla, staði, vopn, og svo framvegis.. Allt þetta hljómar vel nema það er einn hængur á, ekki er vitað hversu mikið spilun á þessum leik mun kosta á mánuði í Evrópuspilun, þar sem þetta er náttúrulega online leikur. En örvæntið ei ! Þó þið týmið ekki drjúgum skilding ykkar í mánaðargjöld þá er leikurinn samt þess virði að fjárfesta í einu stykki. Því alltaf má spila hann í allt uppí 4 player mode með 4 stýripinnum, skemmtilegur möguleiki það.

Resident Evil Zero (RE0):
Hönnuðir: Capcom
Útgefendur: Capcom
Þessi leikur er án efa titill sem margir bíða eftir með óþreyju. Hann á að vera sá fyrsti í seríunni og gerast fyrir atburðina sem áttu sér stað í Resident Evil (1). Í honum þessum muntu leika Rebeccu og Billy. Það er ekki spurning um að þessi hryllingsleikur muni hræða þig í tætlur, því inniheldur hann frábæra grafík sem og skemmtilega spilun sem Resident Evil serían öll getur verið stolt af. RE0 mun rokka !

Animal Crossing:
Hönnuðir: Nintendo
Útgefendur: Nintendo
Þessi leikur hefur verið tilkynntur fyrir Evrópu, en virðist alltaf ætla að seinka meira og meira. Ég, fyrir mína parta, er að deyja úr eftirvæntingu fyrir þessum. Þó svo að hann sé í rauninni stórskrítinn þá er hann virkilega frumlegur og sniðugur. Tegund leiksins er skrítin og held ég satt best að segja að svona leikir eigi ekki almennt nafn, ”samskiptaleikur“ væri kannski næst því að lýsa honum. En Nintendo vilja meina að hann sé blanda af RPG/Action/Adventure/Simulation titli, spennandi að sjá hvernig það kemur út í spilun :)
Mun hann einnig innihalda eldgamla nostalgíu leiki frá snillingum Nintendo, sem munu til dæmis vera meistarastykki á borð við Donkey Kong, Ice Climbers og fleiri. Drebenson skrifaði nokkuð ýtarlega grein um þennan leik forðum og má nálgast hana <a href=”http://www.hugi.is/leikjatolvur/greinar.php?grein_id=59572“>hér</a>.

F-Zero:
Hönnuðir: Nintendo
Útgefendur: Nintendo
Fáir leikir hafa leitt af sér eins margar ódýrar eftirhermur eins og F-Zero. Það eru hraðar brautir, framtíðarfarartæki, og frábær spilun sem margir hafa reynt að leika eftir með misgóðum árangri, en aldrei hefur tekist betur upp en hjá Nintendo með F-Zero leikina skemmtilegu. Ekki aðeins munum við sjá F-Zero leik fyrir GameCube, heldur mun hann einnig vera í vinnslu hjá Nintendo í samvinnu við Amusement Vision, mennina á bakvið Super Monkey Ball I & II. Ekki hefur mikið af upplýsingum lekið á netið ennþá en þó er vitað að með því að nota minniskortið muntu geta fært vistaða leiki milli eins leiks til annars ! Gerist ekki betra.. En ég bíð í mikilli eftirvæntingu fyrir að sjá hvað Nintendo og Sega ná að gera við þennan titil.

Hvað segiði nú, eru ekki allir orðnir spenntir fyrir því sem koma skal á GameCube þetta árið !? Þið ættuð að minnsta kosti að vera það því hér að ofan er um marga úrvalstitla að ræða. En ef þið eruð ekki ennþá sátt við það sem 2003 ber í skauti sér skuluð þið ekki hengja ykkur alveg strax, hér koma þeir 3 leikir sem flestir eru sammála um að eigi eftir að vekja mesta lukku á komandi ári..

Final Fantasy: Crystal Chronicles:
Hönnuðir: Game Designer Studio
Útgefendur: Nintendo
Eftir 5 ára pásu frá samvinnu einna tveggja stærstu, og bestu leikjaframleiðenda heims eru nú Square að taka saman við Nintendo á ný. Þeir unnu mikið saman við gerð á leikjum fyrir Super Nintendo, en síðan fóru Square til Sony og hafa gert margan góðan titilinn í PlayStation tölvurnar, en engan í Nintendo 64 tölvuna.
Núna eru þessi fyrirtæki loksins að taka saman höndum á ný, öllum til ánægju og yndisauka. Final Fantasy: Crystal Chronicles er útkoma þessara samvinnu þeirra á ný, og ekki getur hún talist slæm.. alls ekki. Það sem sýnt hefur verið úr leiknum lætur augljóslega í ljós mjög flotta grafík í leik sem mun innihalda alveg nýjan kafla í Final Fantasy ”sögunni stóru.“ Ef þessi mun ekki selja nokkra kubba um heim allan, þá mun varla neitt gera það. (Nema kannski Zelda :))

Metroid Prime:
Hönnuðir: Retro Studios
Útgefendur: Nintendo
Þessi leikur á sko skilið að vera í eigu margra milljóna leikjafíkla um heim allan. Endurkoma kvenhetjunnar Samus Aran hefði ekki getað verið betri og hefði sko alls ekki getað litið betur út. ”Viðvaningarnir“ í Retro Studios sýndu okkur svo sannarlega hvernig ætti að breyta frábærum 2D leik yfir í frábæran 3D leik, og það án þess að neinn ”die-hard“ Metroid aðdáandi kvarti nokkuð. Það eru nú liðin löng 8 ár frá því að síðasti Metroid leikur kom út (að undanskildum Metroid Fusion á GBA) og var hann á hinni stórgóðu leikjatölvu, Super Nintendo að nafni. Salan á þessum leik í USA hefur verið þvílík og sýnir það hversu mikið leikjafíklar kunna að meta þetta snilldarverk. Allt frá grafík, hljóði, og spilun sýnir okkur bara hversu mikið meistaraverk þessi leikur er. Jonkorn hefur verið einstaklega duglegur við að gera okkur spennt fyrir þessum leik, og má finna umfjallanir um leikinn eftir hann <a href=”http://www.hugi.is/leikjatolvur/greinar.php?grein_id=50733“>hér</a> & <a href=”http://www.hugi.is/leikjatolvur/greinar.php?grein_id=58057“>hér</a>.

The Legend Of Zelda: The Wind Waker
Hönnuðir: Nintendo
Útgefendur: Nintendo
Þessi leikur þarf enga kynningu né umfjöllun. Hér er á ferðinni nýjasti leikurinn í Zelda seríunni frægu og örugglega sá besti hingað til. Þetta er leikur sem margir hafa íhugað sjálfsmorð útaf, vegna hversu hærðilega löng biðin eftir honum er. En þó hættu allir í þeim hugleiðingum skjótt við sjálfsmorðsáform sín þegar þeir komst að því að það yrði sko enginn Zelda spilaður ef maður væri dauður þegar hann loksins kæmi út. Ég ætla ekkert að fjalla meira um leikinn hérna, hef gert það áður og skrifaði þá stórgóða og langa grein um brot af því sem þessi snilld hefur uppá að bjóða. Umfjöllunina eftir mig má finna <a href=”http://www.hugi.is/leikjatolvur/greinar.php?grein_id=58547“>hér</a>, einnig skrifaði Sphere umfjöllun um fyrrnefndan leik stuttu á eftir mér og geta áhugasamir kíkt á hana <a href=”http://www.hugi.is/leikjatolvur/greinar.php?grein_id=59963“>hér</a>.

Núna ætla ég rétt að vona að þið séuð byrjuð að þurkka allt slef af gólfinu hjá ykkur því annars er ykkur ekki viðbjargandi. Er ég núna búinn að gefa ykkur smjörþefinn af því sem við má búast fyrir GameCube árið 2003, og þið rétt ráðið svo hvort þið kaupið hana eða ekki. En ef ákvörðunin er ”ekki" þá get sko sagt ykkur með sanni að þið eruð þið eruð að missa af miklum meistaraverkum.

Leikjatölvuáhugamenn og unnendur, það er sko gott leikjaár framundan.. njótum þess ! :D