Resident Evil [Nintendo GameCube] Resident Evil er leikur sem flestir ættu að kannast við. Þessi leikur er sá fyrsti í samnefndri seríu og mun sú sería hafa vakið athygli margs tölvuleikjafíkils um heim allan. Ekki að ástæðulausu heldur því hér er um að ræða eina mest ógnandi leikjaseríu sem á markað okkar hefur komið.

Hann Addi(jonkorn) félagi minn var svo elskulegur að lána mér leikinn einn góðan veðurdag. Var ég þá í góðum fíling að láta mér leiðast í herbergi mínu þegar síminn minn byrjaði allt í einu að láta í sér heyra.. Hafði ég þá fengið það góðláta SMS skilaboð sem hljóðaði svo; “Langar þig að fá RE? Drullastu þá út!” -Sendandi: Addi - Jonkorn. Mér blöskraði skiljanlega þegar ég sá þetta fyrst, en svo áttaði ég mig og spratt út !
Var þá ekki hann Addi í mestu makindum í bílnum sínum, með útrétta höndina.. og viti menn, þar var Resident Evil í allri sinni dýrð ! Ég hrifsaði leikinn til mín og þakkaði fyrir mig pent. Skundaði mér svo upp í herbergi á nýjan leik. En eitt var þó öðruvísi en áður, mér leiddist skyndilega ekki lengur ! Ég hafði fengið hérna glæsilegan leik á silfurfati og nú var lítið annað að gera en að skella honum í GC gripinn minn og byrja spilerí-ið.. og að sjálfsögðu slökkva ljósin ! :)

Ég er ekki talinn hafa stáltaugar í tölvuleikjum sem þessum og höndlaði meðal annars varla að spila System Shock 2 vegna ótta við hin ýmsu skrímsli og óvætti sem kynnu að bregða mér í þeim leik. System Shock 2 ætlaði ég reyndar ekkert að tala um í þessari umfjöllun en missti þetta bara útúr mér því það fyrsta sem mér datt í huga þegar ég hugsaði um “ógnandi leik” var System Shock 2. Því þessi leikur hins vegar, Resident Evil í Nintendo GameCube er einmitt einn af fremstu í sínum flokki. Og sá flokkur kallast á mínu máli “ógnandi leikir!” eða á siðmenntaðara máli, “survival horror.” En eins og ég sagði þá mun ég seint teljast með stáltaugar þegar að þess háttar leikjum kemur og var þá skiljanlega smeykur við að hefja spilun á einum mest ógnandi leik sem ég gæti hugsað mér.

Nóg um það.. Ég haði kveikt á tölvunni með leiknum í og nú var ekki aftur snúið. GameCube merkið og allt sem því tilheyrði var liðið hjá og menu'ið blasti við mér. Nú var úr vöndu að velja, Hvort vildi ég byrja nýjan leik, Load'a fyrrum vistaðan leik, nú eða kíkja á hinar ýmsu stillingar ? Ég valdi löngu leiðina ins og sönnum leikjafíkil sæmir og kíkti örlítið á stillingarnar. Þar kenndi ýmissa grasa sem ég efast um að þið hafið áhuga á, eða ég hafði að minnsta kosti lítinn áhuga á þeim og skellti mér bara í “New Game.” Nú var ég kominn í stellingar fyrir átakanlegan hasar.. en allt kom fyrir ekki. Ég var spurður hvort ég hafði meiri áhuga á að leika gaur að nafni Chris Redfield eða stúlku að nafni Jill Valentine. Einhverstaðar hafði ég heyrt að Jill væri auðveldari svo ég vildi ekki vera neinn ræfill og valdi Chris, eins og alvöru karlmanni sæmir. En ekki nóg með það, ég átti líka að velja þyngdarstig, það var fljótgert því ég hafði engan hug á að gera mér spilunina enn erfiðari fyrir en að vera Chris og því lét ég valkostinn “Easy” nægja í þetta skiptið.

Núna var loksins komið að einhverju almennilegu, og hóf ég nú áhorf á eitt flottasta “intro” myndband sem ég hef séð í langan tíma. Manni leið eins og hin svakalegasta bíómynd væri í gangi þegar Chris og Jill og félagar þeirra voru hlaupandi um með byssurnar á lofti, einn í hópnum var meira að segja étinn af rotnandi hundum, svo mikill var hasarinn !
Til allra hamingju tókst þó meirihluta liðsins að flýja inn í stórt hús sem ég mun héðan af kalla “Mansion” og náðu þau að kasta mæðinni þar. Þegar þau höfðu rætt eilítið um hvað í fjáranum væri eigilega í gangi þarna þá heyrðust skothljóð.. næsta mál á dagskrá var þá einfaldlega að skipta liði og komast að því hvaða læti þetta væru. Þá fyrst byrjaði æsispennandi sagan að vinda uppá sig og endalaust kom manni eitthvað á óvart og oftar en ekki brá mér þvílíkt þegar á spiluninni stóð.

Grafíkin er sko ekki af verri endanum í þessu meistarastykki frá Capcom, og sýna þeir hvers þeir eru megnugir við að búa til leik fyrir GameCube. Grafíkin í leiknum er reyndar “pre-rendered” en það lýsir sér þannig að allir bakgrunnar hreyfast ekki með kallinum sem þú spilar heldur er hann alltaf óbreyttur, og skiptist alltaf um sjónarhorn þegar þú kemur inn á ný svæði. Þeir sem hafa spilað Resident Evil leiki forðum vita hvað ég er að tala um því þessi er ekki ósvipaður þeim, nema hvað þessi lýtur betur út í alla staði. Vatnið er örugglega það flottasta sem ég hef séð í tölvuleik hingað til, og já.. ég held að það slái vatninu í Super Mario Sunshine útúr hringnum. Öll cut-scenes eða myndbönd sem eiga sér stað þegar eitthvað mikilvægt gerist í leiknum, lýta út eins og atriði úr bíómynd og stundum fær maður það á tilfinninguna að það hafið verið tekið upp sena í alvörunni og sett í leikinn. Það kom sér oft vel að hafa fötu við hlið sér því annars hefði ég væntanlega fengið kvartanir frá þeim sem búa fyrir neðan mig undan þakleka. Og einnig vil ég mæla með miklu magni af vökva við hendina því annars eigiði það á hættu að þurrkast upp við spilun leiksins.
Þeir sem eru ekki ennþá að fatta hvað ég meina þá segi ég bara það, að mörg atriði í leiknum eru virkilega “slef-worthy.”
Ég gæti haldið áfram að babla um hversu frábærlega grafíkin lýtur út næstu klukkutímana en með því móti gæti ég fælt burtu þá fáu sem nenna yfirhöfuð að lesa alla umfjöllunina, hún yrði einfaldlega svo löng að þið ættuð það á hættu að eignast framhaldssögu á netinu :)

Spilunin er hinsvegar mjög svipuð þeirri sem gengur og gerist í öðrum Resident Evil leikjum, eða bara alveg eins. En þá er að sjálfsögðu rétt að taka fram, fyrir þá örfáu sem vita ekki, að þessi leikur er endugerð af hinum gamla Resident Evil sem lét sjá sig á PlayStation tölvuna fræknu hér á árum áður. En engar áhuggjur.. þó þið hafið kannski spilað hann sundur og saman þá munu þið upplifa nýja reynslu í þessum leik, því honum hefur verið breytt þónokkuð mikið. Þar á meðal hafa sumar þrautir verið færðar og í sumum tilfellum breyttar. Svo maður tali nú ekki um grafík muninn, sumir staðir úr gamla leiknum eru varla samanburðarhæfir við þennan nýja og í sumum tilfellum muntu örugglega ekki kannast við þig í þessum leik þó þú standir í sama herbergi og þú gerðir áður fyrr í gamla leiknum. Einnig eru mörg ný svæði í leiknum og líka slatti af nýjum þrautum sem þið hafið aldrei brotið heilann um áður.
Eitt hef ég þó útá að setja, en ekki er það nú alvarlegt. Stýringin í leiknum getur verið pirrandi fyrir suma, sérstaklega þá sem ekki eru alls kostar vanir spilun á Resident Evil leikjum (including me). En hafið þó engar stórar áhyggjur því eftir smá spilun mun stýringin venjast og þið gleymið ykkur alveg í spennandi söguþráð og hasar. Þeir sem gleyma sér hinsvegar ekki í hasarnum og eru ennþá eitthvað pirrast út í stýringuna á Chris eða Jill, örvæntið ei.. Það eru til 3 mismunandi takka-stillingar sem þið getið valið um, og ættu allir að finna sér eitthvað við sitt hæfi.

Inventory'ið, eða hinn svokallaði bakpoki sem maður hefur á sér allan leikinn og geymir hluti sína í er nú aldeilis ekki af stærri kantinum. Ef þú spilar sem Chris þá hefuru 6 pláss til umráða og getur þar geymt hluti sem þú gætir þurft að nota í hinar ýmsu þrautir sem og öll vopnin sem þú rekst á. En ef þú ert Jill hinsvegar þá muntu geta geymt 8 hluti, og það léttir þér lífið aðeins. Reyndar eru kistur dreyfðar um Mansion'ið og víðar, sem þú getur geymt þá hluti í sem þú hefur ekki þörf fyrir að svo stöddu. Kisturnar eru “linked” eða á góðri íslensku, hlekkjaðar.. sem þýðir í sjálfu sér bara það að ef þú lætur til dæmis einhvern hlut í kistu undir tröppunum, ferð svo í hinn enda mansion'sins og í kistuna sem staðsett er í geymslunni kannski.. Þá geturu samt tekið þennan sama hlut uppúr þeirri kistu því þær eru allar sameiginlegar, eða hlekkjaðar.

Leikurinn er vægast sagt mjög erfiður, jafnvel í þyngdarstiginu Easy. Það er ekki ólíklegt að þið eigið eftir eyða frá 10 klukkutímum uppí 15 að klára hann. Jafnvel 20 fyrir þá sem hafa litla reynslu í leikjum sem þessum. Mansion'ið kallar alltaf á þig í að skoða meira og sjá hvað er bakvið næstu hurðir þannig að þú munt ekki geta slitið þig frá þessum leik, tjah.. nema kannski rétt til að teygja þig í að kveikja ljósið ;)

Þessi leikur hefur alla kostina við gömlu útgáfuna plús fullt af nýjum frábærum fídusum. Sem dæmi þá eru ný stór svæði sem þú hefur aldrei séð áður, ekki bara í Mansion'inu heldur einnig fyrir utan það. Nýjir og enn ógeðslegri óvinir láta sjá sig þegar þú átt síst von á þeim, og þeir skarta líka betra AI eða með öðrum orðum, gáfaðari sem aldrei fyrr. Þú mátt búast við að það stökkvi á þig zombie þegar þú ert að ganga framhjá hurð. Eða jafnvel að það komi hundur og hoppi inn um glugga beint á þig. Þú mátt hreinlega búast við því versta því það versta mun gerast !

Nýir eiginleikar eru einnig að þú hefur til umráða varnar-vopn svokölluð, má þá nefna rýting sem dæmi. Hann virkar aðeins þegar zombie grípur utan um þig og muntu þá geta stungið hann í hausinn með rýtingnum. Þessi valkostur er stilltur sem sjálfkrafa viðbrögð spilarans en einnig er hægt að setja það á “manual” þannig að þú þurfir að ýta á takka sjálfur í hvert skipti sem nýta skal þennan möguleika.

Ending leiksins verður að teljast nokkuð góð. Það eru fullt af hlutum sem hægt er að “unlocka” með því að klára til dæmis leikinn undir vissum tíma með vissum spilara. Eða kannski klára leikinn með vissum spilara í vissu erfiðleikastigi. Með því að gera þessa misjöfnu hluti getur þú meðal annars fengið ýmislega hluti til afnota í leiknum þegar þú ætlar að spila hann aftur. Nú eða kannski nýjan spilunarmöguleika, til dæmis Hard eða valkost sem kallast Real Survival. Það er til margs að vinna í þessum leik og segjum sem svo að þú komist yfir hann með Chris eins og ég gerði fyrst, þá skaltu ekki láta þar við sitja því leikurinn er mjög ólíkur ef Jill á í hlut. Sagan er í stórum dráttum sú sama en mörg smáatriði eru ekki eins og fullt af atriði mun koma þér á óvart þó að þú hafir farið yfir sama staðinn með Chris. Einnig eru 10 mismunandi endingar á leiknum og mun það ráðast eftir því hvernig þú spilar leikinn hvernig hann mun svo enda.

Hljóðið í leiknum er reyndar ekki í þeim gæðaflokki sem eigendur mörg þúsund króna hátalaragræja eiga að venjast. En fyrir okkur hin, þá er það í lagi. Leikurinn býr ekki yfir þeim munaði að innihalda Dolby Pro Logic II, en engu að síður eru hljóðin mjög flott og maður verður oft óttalega smeykur við kokhljóðin girnilegu sem zombies gefa frá sér í hita leiksins. Einnig er spúkí tónlist í leiknum og oftar en ekki þegar eitthvað svakalegt á sér stað þá flippar tónlistin og allt ætlar um koll að keyra. Mjög flott, og verður til þess að maður lifir sig enn meira inní leikinn.
Eini stóri gallinn við hljóðið að mínu mati er talsetning leiksins, mér finnst hún óttalega slöpp og kemst ekki í hálfkvisti við talsetninguna í Eternal Darkness: Sanity’s Requiem.
Maður fær það svona á tilfinninguna að fólkið í leiknum sé allt saman hluti af leiðilegu brúðuleikriti. Kannski ekki alveg svo slæmt, en engu að síður mjög ábótavant :)

-
Grafík: 9,5 – Þarf lítið að segja hérna, fyrir utan að þessi leikur skartar frábærri grafík.
-
Hljóð: 8,5 – Slöpp talsetning dregur hann svolítið niður hérna.
-
Spilun: 8 – Flott saga og mikið af óvæntum atriðum, svolítið pirrandi stjórnun.
-
Ending: 8,5 - Fyrsta skiptið sem þú ferð í gegnum hann er hann fullur af óvæntum atriðum og ógnandi senum, en eftir það er oftast um það sama að ræða fyrir utan allt það nýja sem opnast.
-
Lokaeinkunn (ekki meðaltal): 8,5

Ég fór á stúfana og spurðist fyrir hjá 2 félugum mínum hvernig þeim fyndist þessi leikur og hér mun ég birta það sem þeir höfðu að segja:

“Þessi leikur er versta martröð mömmu þinnar þar sem hún þarf að þvo af þér nærfötin. Sestu því í poka og farðu með bænir þínar, því þér verður ekki sýnd nein miskunn hér. Mæli með þessum fyrir alla þá sem fíla sveitta boli og vel nagaða inniskó.” -Jonkorn.

“Leikur sem fæ hárin til að rísa, jafnvel Stephen King myndi kúka á sig í þessum.” -Sphere

Og smá quote sem ég missti útúr mér á irkinu þegar umræður um fyrrnefndan leik stóðu sem hæstar:
“Frábær leikur sem bíður uppá mikið úrval af hinum ýmsu bregðuatriðum, þessi mun án efa gera skóna ykkar að skyndibita!” -Aage

Og hér hafiði lokaorð mín um Resident Evil:

Ég sjálfur er enginn Resident Evil áðdáandi, hef ekki spilað neinn RE leik af viti fyrr en nú. Þannig að ég get ekki sagt hvernig þessi er miðað við aðra leiki af sömu seríu. En af því að dæma sem ég hef lesið þá skarar þessi framúr og er einróma talinn vera mjög velheppnaður leikur og frábær endurgerð af klassískri snilld. Reynsla mín af leiknum er án efa góð og get ég hiklaust mælt með þessum leik, hvort sem það er fyrir harða aðdáendur RE leikja eða einfaldlega þá sem vilja leik sem tekur á taugarnar, reynir á heilann, og er í alla staði mjög flottur.
Þessi er án efa einn af þeim fjölmörgu leikjum á GameCube sem enginn ætti að láta framhjá sér fara, ef þú átt hann ekki eins og er eða hefur ekki prófað hann skaltu ekki hika við að skella þér útí næstu verslun og fjárfesta í einum magnaðasta leik á GameCube hingað til.