Super Mario Sunshine – Sólarljósið í skammdeginu ! Super Mario Sunshine heitir hinn magnaði leikur sem ég ætla að fjalla lítillega um í þessari grein.

Glöggir hugarar ættu nú þegar að hafa tekið eftir því að ég festi nýlega kaup á hina stórgóðu leikjatölvu, GameCube að nafni. Þeir sem þetta ekki vissu bendi ég á að lesa nýskrifaða grein mína sem hefur víst hlotið mikið lof fyrir skemmtilegheit og mikilfengleika ! ;)
Þeir sem vita ekki hvað ég er að tala um, þá tek ég það fram að fyrrnefnd grein hlýtur nafnið <a href="http://www.hugi.is/leikjatolvur/greinar.php?grei n_id=60244“>”Dagur í lífi leikjatölvufíkils…“</a> og ætti ekki að vera mikið fyrir neðan þessa í greinayfirlitinu. Hún inniheldur skemmtilega frásögn af þessum viðburðaríka degi sem GameCube varð mín ! :)

Jú, ég gerði mér lítið fyrir og fjárfesti í GameCube, minniskorti og einum leik að nafni Super Mario Sunshine. Þeir sem vilja vita eitthvað nánar um GameCube eru ekki á réttum stað því ég ætla lítið sem ekkert að tala meira um hana, þó bið ég þá sem þetta á við að flýja ekki af hólmi strax því það er aldrei að vita nema þeim líki við það sem koma skal í eftirfarandi skrifum mínum..

En nóg um það. Það sem ég var mest að spá í er hinn geysigóði leikur, Super Mario Sunshine. Já, það þarf enginn að spurja sig að því að leikur sem inniheldur orðið Mario í nafni sínu sé 100% skemmtilegur, það er alvitað og engin spurning um það. En hins vegar er aðalmálið: ”hversu skemmtilegur er hann ?“

Ég skrifaði grein um Super Mario Sunshine fyrr á þessu ári og kallaðist sú grein <a href=”http://www.hugi.is/leikjatolvur/greinar.php?grei n_id=50702“>”Super Mario Sunshine Preview [GameCube]"</a>. Ég get alveg mælt með því að sem flestir kíkji á hana ef þeir hafa ekki gert það nú þegar því hún er prýðislesning. Þar fer ég í helstu atriði leiksins og kynni fyrir fávísum hvað leikurinn hefur upp á að bjóða sem og pælingar um hvernig hann muni spilast. Núna er hins vegar þónokkur tími síðan hann lét (sólar)ljós sitt skína í helstu búðarhillum landsins og er því rétt að taka upp umræðu um hann aftur. Af hverju ? Jú, því nú hef ég átt þennan stórgóða leik í rúmlega 3 sólarhringa og hef þá tiltölulega reynslu af því hvernig hann spilast og bara almennt hvernig leikur þetta er, þannig það er vel við hæfi að deila mínum skoðunum á honum með ykkur og sjá hvort við séum sammála eður ei.

Margir af ykkur hafa eflaust spilað hann sundur og saman, og er það mjög gott mál því hér er um eina mestu skemmtun að ræða sem ég hef kynnst í langan tíma. Þeir sem hafa gaman af góðum tölvuleikjum ættu ekki að gera sjálfum sér það illvirki að í það minnsta prufa þennan leik ekki. Þið vitið ekki af hverskonar meistaraverki þið eruð að missa !

Hann er á margan hátt líkur fyrirrennara sínum sem flestir ættu að kannast við undir nafninu Super Mario 64, en hann gerði einmitt mjög góða hluti þegar hann lét sjá sig á Nintendo 64. Sá leikur var talin bylting að mörgu leyti, til dæmis gjörbreytti hann framtíð Mario leikja því hann var ekki í 2D eins og undankomar hans, heldur í algjörri þrívídd. Þrívíddin opnaði gáttir fyrir endalausa nýja spilunarmöguleika og má segja að hún hafi gefið Mario nýtt líf.

Leikurinn Super Mario Sunshine fetar í fótspor Super Mario 64 hvað margt varðar, eins og til dæmis fulla þrívídd, sem er ekkert nema mjög gott mál. Það sem einkennir þennan leik þó er hversu mikið frelsi maður hefur. Í byrjun leiksins lendir maður á eyju að nafni Isle Delfino og er svo óheppinn að vera sakaður um ódáðsverk sem annar hefur framið. Þetta þýðir einfaldlega það að þú ert sko ekkert á leiðinni af þessari eyju fyrr en þú ert búinn að laga allt sem miður hefur farið á þessari annars bráðfallegu sólarparadís.

Takið eftir að ég segi bráðfallegu. Jú það er vegna þess að grafíkin í þessum leik er alveg yndisleg, ekki hvað varðar raunvöruleika heldur bara hvernig allt umhverfi og landslag lýtur svo lifandi og fallegt út. Þegar maður skokkar um eyjuna finnst manni eins og maður sé virkilega staddur á sólarströnd því sandurinn og sjórinn er mjög flott í alla staði, svo skemmir það ekki hversu mikið líf og fjör er á eyjunni. Fólk labbandi um, sumir jafnvel hlaupandi eða hoppandi og allir hafa eitthvað við þig að segja ef þú yrðir á þá. Þetta stuðlar að því að þér finnst þú virkilega vera partur af samfélaginu þarna og reynir þá eftir bestu getu að hjálpa greyið fólkinu með sín margvíslegu vandamál. Grafíklega séð þá finnst mér vatnið skara fram úr, ég held að ég hafi sjaldan séð eins flott og raunvörulegt vatn í tölvuleik. Það er bara allt, hvernig það lítur út, hvernig það hreyfist og vaggar um eins og hvert annað vatn í alvörunni. Síðan er mismikill straumur og öldugangur eftir því hvaða stað þú ert staddur á: höfninni, ströndinni, eða hvað sem er. Alltaf er vatnið mismunandi, og alltaf jafnflott !

Einnig er frábært “draw distance” í leiknum og getur þú farið upp á hvaða húsþak sem er og horft hvert sem er, út á næstu eyju eða fólkið í hinum hluta bæjarins, you name it, hvað sem þér dettur í hug. Maður fílar sig alveg inn í þennan heim og hugsar með sjálfum sér.. “Ahh, mig hlakkar til þegar ég fer á þessa eyju, magnaður skemmtigarður þar sé ég, það verður sko gaman að skoða hann og leysa þrautirnar sem bíða mín þar.” :)


Spilun leiksins er með þeim skemmtilegri sem ég hef reynslu af. Fyrir utan allt þetta klassíska, hoppa, skoppa, og fara í hin ýmsu heljarstökk og þess háttar hreyfingar sem eru flestum kunnuglegar úr Mario 64. Þá er alveg nýr “fídus” í þessum leik sem er vatnsbyssa svokölluð. Já, hljómar furðulega, en engu að síður virkilega skemmtilegt tæki sem eikur spilunar-möguleikana til muna. Svo dæmi séu nefnd þá getur Mario sprautað úr henni og notað hana sem “vatns-jetpack.” Já með því að nota þá stillingu svífur þú um loftin í ákveðinn tíma með krafti vatnsbyssunnar. Ansi magnað ? Já, það er sko ekki spurning !

Síðan er einnig hægt að fá svokölluð “upgrades,” eða uppfærslur á vatnsbyssuna, og þá skiptist út svif möguleikinn fyrir þann nýja, en alltaf er hægt að endurheimta svifmöguleikan aftur með því að finna hann í kassa. Það eru allt í allt 4 stillingar/uppfærslur á vatsnbyssunni og gagnast hver og ein í mismunandi verkefni og þarft þú að nota þær allar til að sigrast á öllum þeim hættum og verkefnum sem kunna að bíða þín..

Tónlistin er með eindæmum góð og er leikurinn sneisafullur af frábærum og fjörugum lögum, klassískum sem og nýjum !

Hef ég nú átt þennan leik í of stuttan tíma til að dæma um endingagildi hans, en ef ég tek bara mið af því hversu mikið hægt er að gera í honum og hversu skemmtilegur hann er þá myndi ég segja að endingagildi hans væri með því betra sem gengur og gerist. Það eru endalausir möguleikar sem hægt er að gera þó svo að þú haldir kannski að þú sért alveg búinn með eitthvað svæði. Segjum sem svo að þú hafir náð öllum Shine Sprites í einu borði (Fyrir þá sem ekki vita hvað það er, þá kemur það nokkurnveginn í stað stjarnanna í Mario 64). Þá ertu sko alls ekki búinn með borðið strax, nei ekki nú aldeilis. Það eru endalausir bláir peningar sem hægt er að safna og eru þeir misvel faldir hvar sem er í borðinu, það getur tekið þvílíkan tíma að finna þá alla og er ég alltaf að rekast á bláan pening þar sem ég á síst von á honum, eða þá finna einn slíkan fyrir algjöra heppni þegar ég kannski sprauta óvart vatni á fugl :)

”Til hvers eru bláu peningarnir ?” Spurjið þið eflaust sem hafið ekki notið þeirrar ánægju að spila þennan leik. Jú, ég skal segja ykkur það..
Af minni reynslu þá hafa þeir eingöngu gagnast við kaup á Shine sprites, sem er alls ekki slæmur hlutur því aðaltakmark leiksins er að safna þessum Shine’s. Með öðrum orðum áttu að safna bláum peningum og kaupa fyrir þá Shine’s. Þess vegna eru þessir bláu peningar mjög mikilvægir og er ekki hægt að sigra leikinn fullkomlega án þess að hafa safnað hverjum einasta bláa pening ! =)

Í heildina litið er þessi leikur án efa frábær !
Get mælt með honum fyrir hvern sem er. Það ættu allir að geta haft gaman af þessum leik þar sem hann er þónokkuð fjölbreyttur, flottur grafíklega séð, endist lengi, og umfram allt BRÁÐSKEMMTILEGUR ! :D

Þannig að þeir sem eiga GameCube en ekki þennan leik ættu umsvifalaust að skella sér á eintak, og þeir sem ekki eru svo heppnir að eiga GameCube ættu að spretta út í búð og fjárfesta í vélinni plús leiknum. Því það er engin spurning að Super Mario Sunshine mun vera sólarljósið í jóla-skammdeginu ! …Hjá mér að minnsta kosti :D



—————————

Einnig vill ég spyrja ykkur lesendur góðir, eða þá meina ég aðallega þá ófáu sem hafa spilað þennan leik, hversu mörg Shine Sprites þið hafið náð á spilunarferli yðar ?
Ég sjálfur er kominn með 56 og er nokkuð ánægður með það ;)
En væri til í að sjá hvernig ykkur hinum hefur gengið spilunin í þessum magnaða leik, þá veit ég líka hvaða markmið ég þarf að setja mér til að vera kominn lengst í honum af ykkur hugurum ! ;)