Mig langaði til að skrifa inn grein um ekki bara eitt skemmtilegasta heldur langskemmtilegasta leiklistarnámskeið sem ég hef farið á og ég hef farið á þónokkur.

Sumarið 2005 ákvað ég að skella mér á leiklistarnámskeið sem ég sá auglýst hjá LA. Námskeiðahaldari var Hildigunnur Þráinsdóttir, leikkona, en mér fannst hún einmitt svo skemmtileg í Pakkið Á Móti að ég bjóst við að þetta yrði gaman. Svo læt ég venjulega leiklistarnámskeið ekki sleppa frá mér svo ég skráði mig.

Ég lenti í unglingahóp þar sem fólk var alveg frá 14 og 15 upp í 19 og 20. Mjög fjölbreyttur og skemmtilegur, og ofboðslega hress, hópur. Ég kynntist ekki beint neinum en ég var ekki feimin að leika með þeim sem ég er venjulega þegar ég er með fólki sem ég þekki ekki.
Hildigunnur byrjaði á léttum nafnaleik bara til að koma okkur af stað og svo fórum við í nokkra boltaleiki - með engum bolta. Mér finnst þeir rosalega skemmtilegir, svona ímyndunarleikir þar sem maður ýkir hreyfingarnar og hljóðin og leikur sér með ósýnilega hluti. Við gerðum svolítið af því að ýkja og spinna.

Eitt skiptið sagði hún að væri hljóðalaus tími. Þá skipti hún okkur í tvo hópa og lét annan á sviðið í einu. Þá áttum við að velja einn hlut hver úr hrúgu af hlutum og gera það sem okkur sýndist við hann. Hún lýsti bakgrunninum fyrir okkur og svo fórum við af stað. Ég byrjaði á því að velja mér gæs, gæsarbangsa sem ég lét vera dauða. Ég var ógurlega sorgmædd [enda áttum við að leika allt mjög ýkt] og sat og háhágrét og ekkert gat stoppað mig. Ég endaði svo á því að grafa greyið gæsina, snökta aðeins, grafa hana svo upp aftur og gráta aðeins meira. Aðrir voru með hluti eins og dagblað, sátu bara og lásu blaðið sitt.

Annað skipti man ég eftir að við fórum í ótrúlega skemmtilegan leik, ég hef sjaldan hlegið eins mikið.
Það var þannig að hún valdi tvo í einu. Segjum að hún velji mig og Jóa fyrst. Hún segir við mig að ég sé einskonar heilari, eða andlegur nuddlæknir og hin manneskjan sé að koma í tíma til mín. Hún segir við Jóa að hann sé að fara í atvinnuviðtal og svo eigum við að spinna saman án þess að vita hvað hitt er að leika. Þetta kemur rosalega skondið út og við grenjuðum öll úr hlátri.
Ég lenti einmitt í þessu að vera valin fyrst og fékk þetta hlutverk sem ég nefndi áðan. Ég mæli með því að þið prófið þetta í stórum hópum, blandið allskonar persónum saman.
T.d. lögregla sem stendur fyrir framan hræðilegt slys þar sem fjórir bílar klesstu á og einhver sem veit ekkert um fótbolta sem er á fótboltaleik ["Já, hvað er þessi í bláu að gera? Hlaupandi út um allt á eftir einhverjum bolta" hljómar mjög illa þegar maður stendur fyrir framan stórslys], hárgreiðsludama og einhver sem er að fara í jarðaför hjá nánum ættingja ["Hvað gerir þú svo hér?" "ha ég? ég stend fyrir afatan fólk og fikta í hárinu á því" ... einmitt. í jarðaför]

Svo er það síðasta sem ég ætla að minnast á sem mér fannst einstaklega skemmtilegt líka.
Í tímanum áður fengum við hver okkar miða með persónulýsingu og máttum engum sýna eða segja frá. Minn miði sagði mér að ég væri einstaklega hallærisleg manneskja sem væri að berjast við að vera svöl.
Við vorum semsagt í skemmtinefnd Íslandsbanka og áttum að vera að plana árshátíðina. Svo fengum við að búa til persónu fyrir hana. Hennar persóna var léttgeggjuð, andlega sinnuð, ofsatrúar jógamanneskja sem elskaði að hugleiða, var alltaf frekar sein að fatta og rosalega óstundvís.
Við byrjuðum um leið og við komum inn á námskeiðið, settumst í stól og töluðum saman eins og við værum bankastarfsmenn. Hennar persóna kom augljóslega og seint og byrjaði á því að setja upp kerti sem áttu að tákna líf og anda hópsins.
Svo byrjuðum við að spjalla, hver í sínum karakter og það var skondið að sjá útkomuna. Ein stelpan var með að hún reyndi við allt og alla, einn var með að hann átti að monta sig af öllu o.s.frv.
Hún sagði okkur svo í endann á tímanum að hún hafi gert það sama með fullorðnishópnum og sá sem fékk hennar persónu þar hafi fengið alla til að humma “íísslaandsbaankiiiiii” sem er náttúrulega alveg frábært! Ég segi þetta stundum ósjálfrátt ennþá.

Þetta er að minnsta kosti besta og skemmtilegasta leiklistarnámskeið sem ég hef farið á og ég held að það hafi opnað mig meira en öll hin til samans.

Takk fyrir mig :)
-Tinna