Spider-Man (2002) Ég hef alltaf haft mjög gaman af Spider-Man eða Köngulóarmanninum, eins og hann heitir á íslenskri tungu. Fyrstu kynni mín af honum voru í gegnum Stöð 2 en á laugardagsmorgnum voru gömlu teiknuðu þættirnir sýndir þar, þessir með ‘Spider-man, Spider-man, does what ever a spider can..’ laginu. Eftir það voru það allar myndasögurnar og svo aftur á Stöð 2, nýrri þættir sem sýndir voru á föstudögum. Ég held að ég eigi næstum alla þættina, bæði gömlu og nýrri seríurnar, á spólu og ég hef enn gaman að þeim. Ég man samt alltaf eftir því þegar ég tók Spider-Man kvikmynd á spólu, hún hét Spider-Man Strikes Back (1978), hún var byggð á sjónvarpsþáttunum og var vægast sagt léleg. Það sást í böndin sem héldu Spider-Man uppi og sagan sem var strekkt yfir 90 mínútna kvikmynd var minni en í venjulegum 25 mínútna þætti. En ég var samt mjög spenntur fyrir því að kannski mundi koma ný og betri Spider-Man mynd út!

Árið 1998 var ég að skoða síðuna IMDb.com, þar var listi yfir myndir sem ættu að koma út árið 1999, þar voru myndir einsog “Freddy vs Jason”, “Leisure Suit Larry”, “Planet of the Apes” og Spider-Man! Ég varð spenntur að sjá nafnið en mun meira spenntur þegar ég sá hver átti að gera hana, James Cameron! Ekki grunaði mig að ég mundi þurfa að bíða í 4 ár eftir myndinni og að James Cameron mundi hætta við og að Sam Raimi kæmi í staðinn. En biðin var þess virði.

Spider-Man serían(númer 2 kemur eftir tvö ár) mun fylgja hefðinni sem Superman (1978) og Batman (1989) sköpuðu. Fyrsta myndin eyðir miklum tíma í að kynna ofurhetjuna og hefur bara eitt illmenni sem tekur ekki of mikinn tíma. Mynd númer tvö kemur svo með meiri hasar og tvö illmenni.

Peter Parker (Tobey Maguire) er nördalegur gagnfræðiskólanemi sem lendir í því að verða bitinn af erfðabreyttri könguló, hún hefur allt það besta úr þremur öðrum köngulóm og er kölluð ‘super spider’. Eftir það fær hann allt það sem köngulóin hafði, hann getur gengið á veggjum, hann hefur skyggnigáfu, hann er ofursterkur, getur hoppað margfalda hæð sína og getur spunnið vef. Hann er, ‘The Human Spider’! Eða þangað til að Bruce Campbell skýrir hann ‘the Amazing Spider-Man’.

Vondi karlinn sem fær þann heiður að berjast við Spider-Man fyrst er The Green Goblin sem að er vísindamaðurinn Norman Osborn (Willem Dafoe) og faðir besta vinars Parkers, Harry Osborn (James Franco). Norman og fyrirtækið hans Oscorp, hefur verið að vinna að því að gera vopn fyrir herinn en þegar að hann virðist vera að missa samninginn ákveður hann að prófa varninginn á sjálfum sér. Hann endar sem ofursterkur og með tvíklofinn persónuleika.

Ég held að það sé alger óþarfi að fara meira útí söguþráðinn, flestir hafa þegar heyrt allt um Mary Jane Watson (Kirsten Dunst), Ben og May (Cliff Robertson og Rosemary Harris)

Ég er mjög ánægður með myndina, svo ánægður að ég hef séð hana tvisvar í bíó og mun án efa kaupa hana strax á DVD. Aðalleikararnir eru mjög góðir. Tobey Maguire (The Cider House Rules) er frábær sem Peter Parker. Hann er mjög góður leikari og sýnir hlutverkinu mikla virðingu, sem það á skilið. Willem Dafoe (Shadow of the Vampire) er líka mjög góður leikari, hann ofleikur auðvitað pínu en ekki eins mikið og Jack Nicholson í Batman, þó að Green Goblin er augljóslega svolítið stæling á Jókernum. Kirsten Dunst hefur ekki mikið að gera í myndinni, hlutverk hennar mun verða stærra í næstu mynd skillst mér samt, aðalhlutverk hennar er að verða bjargað af Spider-Man. En hún skilar samt sínu vel. Aukaleikararnir eru flestir fínir, þá sérstaklega J.K. Simmons sem J. Jonah Jameson og auðvitað er Bruce Campbell alltaf góður.

Sam Raimi, sem er þekktastur fyrir Evil Dead trílógíuna, leikstýrir vel, hann notar samt venjulega stílinn sinn eins mikið og hann gerði í t.d. Darkman. En mörg af ‘brögðunum’ hans eru þarna samt. Þemað eftir Danny Elfman er ekki eins minnisstætt og hann gerði fyrir Batman, eða eins og John Williams gerði fyrir Superman og Indiana Jones, en það er samt mjög gott. Tæknibrellurnar hafa verið gagnrýndar fyrir að vera óraunverulegar en mér finnst þær samt mjög flottar og skyggja ekki yfir persónurnar.

Með myndir einsog X-Men 2, The Hulk, Ghost Rider, The Fantastic Four, Daredevil og Spider-Man 2 í framleiðslu er augljóst að Marvel hefur tekið yfir kvikmyndaheim ofurhetjanna, DC comics hafði yfirhöndina fyrst um sinn með Batman og Superman en Stan Lee og félagar hafa hana núna. Spurning er hvort að þær myndir sem eru að koma verði jafn góðar og þessi, hver veit? Ég get allaveganna ekki beðið eftir Spider-Man 2 (2002) með Dr. Octopus og Lizard!

<a href="http://www.sbs.is/critic/kvikmynd.asp?nr=55">Meira á sbs.is</a