Hrafnhildur (2012)

Þegar kemur að réttindum samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transfólks þá hefur það síðastnefnda alltaf verið nokkrum skrefum á eftir, sama hvar í heiminum maður er staddur, og Ísland er því miður ekki undantekning. Ástæður geta verið margar þó ég væri sjálfur ekki hissa ef stærsta ástæðan væri ekkert annað heldur en fáfræði, að fólk veit ekki mikið um transfólk og hversu þungt það er fyrir einstakling að fæðast í röngum líkama. Sjálfur get ég lítið ímyndað mér hvernig þessi tilfinning er en þessi heimildamynd sýndi einlæga og persónulega hlið einstaklings og hvernig þetta hefur verið fyrir hann.

Í gegnum myndina fylgist áhorfandinn með bæjarbúanum Halldóri breytast hægt og rólega í Hrafnhildi. Sýnt er ágætlega vel hversu rosalega flókin kynskipting er og að vera opinber með hana. Það er sýnt það sem maður býst við, eins og hormónaaðferðir, kynskiptingin sjálf og svo framvegis, en það er þar að auki sýnt viðbrögð nokkurra kunningja og fjölskyldu Hrafnhildar og hvernig þau tóku þessu og líka að það tók miklu lengri tíma en var planað að fara í aðgerðina vegna niðurskurðs hjá spítölum. Maður kynnist Hrafnhildi vel, hvernig þetta hefur haft áhrif á líf hennar og samskipti hennar við sína nánustu. Ekkert við hana eða myndina virðist vera þvingað eða klisjukennt. Myndin fer mjög náttúrulega í gegnum allt saman og það er erfitt að tengjast ekki Hrafnhildi. Hún er sýnd sem mjög raunveruleg persóna með ansi stórt vandamál sem hún ákveður að takast á við, sama hversu miklum pening eða tíma hún þarf að eyða.

Þrátt fyrir að sýna lítið hvernig Íslendingar líta almennt á transfólk (sem er eitthvað sem ég hefði viljað sjá), þá sýnir myndin hvernig nánasta fólk Hrafnhildar tóku þessu og hvernig þau hafa þroskast sem einstaklingar út af því. Til dæmis er talað við eina frænku sem var ekki beint sú kurteisasta þegar hún heyrði játninguna en hefur lært margt á undanförnum árum. Flestir af hennar nánustu sýndu stuðning þó það voru einhver leiðindi samt sem áður.

 

Ég mæli með þessari mynd sérstaklega fyrir fólk sem telur að transfólk gera þetta því það er athyglissjúkt, eða að þetta sé ekkert annað en eitthvert tímabil sem það er að ganga í gegnum. Fólk sem almennt vita ekki mikið um transfólk ættu líka að geta fundið margt fróðlegt við þessa mynd. Vinnan sem tekur í að breyta um kyn ætti að vera nógu góð sannfæring fyrir marga að einstaklingnum er algjörlega alvara þegar hann segist vilja breyta um kyn. Það eru hormónameðferðir, það þarf að eyða vöxt hárs á mörgum stöðum, sumir þurfa að vera hjá geðlækni, og síðan aðgerðin sjálf sem tekur langan tíma og krefst rosalegra mikillar nákvæmni (skurðlæknirinn í þessari heimildamynd kom frá Svíþjóð) og þarf kynskiptingurinn þar að auki að sjá til þess að kynfærið verði gott það sem eftir er að ævinni. Til dæmis þurfa kvenkyns transfólk að sjá til þess að skinnið í kynfærum sínum muni ekki festast saman.

Myndin er einlæg, persónuleg og stutt. Hrafnhildur er viðkunnanleg, fjölskyldan hennar sýnir góðan lit og það sem þau hafa að segja um sína reynslu af þessu er áhugavert og skilaboðin að transfólk sé ekki verri heldur en annað fólk skilar sér vel. Sjálfur hef ég lítið skilið að fordómar gagnvart þeim séu ennþá miklir á Íslandi samanborið við sam-/tvíkynhneigða en vonandi mun þessi mynd hafa jákvæð áhrif.
                                                                

---

Það er hægt að lesa meira frá mér á http://mrhaux.wordpress.com/