Lord of the Rings: The Fellowship of the Ring Ég hef líklega aldrei beðið með jafn mikilli væntingu og þessari mynd. Ég fór á Nexus forsýninguna í Laugarrásbíói í gærkveldi. Þegar ég kom inn í bíóið var inngangurinn alveg troðfullur af fólki, mjög mikil þrengsli þarna. En það skrýtnasta var það að ég hefði alveg eins getað gleymt miðanum heima, þvi ég var ekkert beðinn um miða eða neitt. Ég ætlaði nú ekki að láta allt nammið og það fara framhjá mér en það gerðist, ég kom svona tíu mínútum fyrir sýningu og hvergi fékk ég afgreiðslu, svo var myndin að byrja og ég fór bara í sætið mitt.

[ ATH. Ef þú ert ekki búinn að sjá myndina, ekki lesa lengra! ]

Þetta byrjaði með smá kynningu frá Nexus mönnum, slökkva á gemsum og svona. Svo komu nokkrir trailerar.

Svo loksins byrjaði myndin við mikinn fögnuð. Prolougeið var mjög flott. Fyrstu tveir tímarnir liðu á hálftíma hjá mér, þegar ég leit á klukkuna og ég bara “vá!”. Það var þegar þeir komu inn á Fákinn.

Það sem mér fannst vera mest áberandi í myndinni var án efa umhverfið, ég vissi ekki að það væri til svona fallegt umhverfi. Líklega var eitthvað af þessu gert í tölvu, en þó ekki eins og Star Wars myndirnar, þar var umhverfið bara grænn bakgrunnur.

Myndin er frábærlega vel gerð í alla staði. Svörtu riddararnir voru mjög flottir og voru öskrin í þeim mjög óhugnaleg. Þó fannst mér frekar að myndin hefði frekar átt að vera bönnuð innan 14 ára, hún var nokkuð óhugnaleg á köflum. En ekki að það skipti neinu máli fyrir mig.

Myndin er ein af þessum myndum sem er allt í einu, nema þessi er með allt í miklum skammti. Hún er mjög fyndin, ótrúlega flott, spennandi og falleg.

Sú persóna sem hreif mig mest var Aragorn. Hann var ótrúlega flottur og svalur karakter. Bardagarnir með honum voru alveg frábærir, sérstaklega þegar Fróði var uppi á fjöllum, sverðið hans Fróða var orðið blátt (sem gerist þegar Orkar eru nálægt) og Aragorn fór að berjast við þá. Þá byrjuðu sko hárin á mér að rísa.. og fóru ekki niður fyrr en í endann á myndinni.

Hobbitarnir, Pípi og Merrin (man ekki íslenska nafnið) voru snillingar. Eitt atriði sem stóð uppúr var þegar Fróði bauðst til þess að fara með Hringinn og eyðileggja hann, svo þegar Sam, Pippin og Merry komu, og einn þeirra sagði “Jæja, hvert erum við svo að fara?”. Allur salurinn lá í hláturskasti og klappaði. Ég er ekki hrifinn af því þegar það er gert, klappað í miðri mynd.

Myndatakan var líka mjög flott, sérstaklega þegar þeir fóru ofanúr turninum og ofan í jörðina.

Ég yrði sko ekki hissa ef hún yrði tilnefnd til margra Óskara, og ef hún fær ekki einhverja, þá verð ég mjög reiður. Hún á skilið að fá óskarinn fyrir bestu myndina, bestu búningana, tæknibrellurnar, leikstjórnina en veit ekki um leikinn, kannski þó einhverjar tilnefningar. Mér fannst reyndar allir standa sig vel í hlutverki sínu, en þó sérstaklega Borromir og Aragorn. Frodo var alveg ágætur. Gandalfur var líka góður í sínu hlutverki.

Bardagaatriðin voru yndisleg, sérstaklega í Moría námunum, þegar Orkarnir voru teknir fyrir og Tröllið, sem var svakalega vel gert. Eitt flottasta atriði í sögunni.

Flottasta atriðið var þegar Lurtz var að skjóta niður Borromir, með boga. En eftir hverja ör stóð hann alltaf. Rosalega flott atriði og það lá við að buxurnar og peysan lyftist upp, útaf gæsahúðinni. Svo kom Aragorn og skar af þvi hendina og hausinn. Geðveikt svalt atriði.

Peter Jackson er greinilega maður ársins að mínu mati, hann hefur lagt líf sitt og sálu í þessa mynd og útkoman hreint út sagt mögnuð. Ef hinar tvær myndirnar verða eins frábærar og þessi, þá held ég að Jackson geti verið mjög ánægður með sig.

DVD útgáfan, Director's Cut, verður sko algjör skyldueign. Ég mun örugglega kaupa heimabíó sérstaklega til þess að njóta myndarinnar í botn. Því miður mun biðið verða löng eftir disknum, í ágúst, eftir því sem ég hef heyrt.

Ég þarf svo að fara enda þessa grein með því að þakka Nexus mönnum kærlega fyrir þessa frábæru sýningu. Og ég vona að þeir muni endurtaka leikinn að næsta ári með næstu mynd.

Fellowship of the Ring fær vafalaust 10/10 mögulegum hjá mér.

sigzi