Darren Aranofsky Ég hef aldrei farið á neina mynd sem kom jafn mikið á óvart eins og Pí. Þegar ég fór á hana var hún að ég held á kvikmyndahátíð Reykjavíkur og ég var eiginlega dreginn á hana. Ég sá svo sannarlega ekki eftir því að hafa farið á hana. Maðurinn á bak við þessa snilldarmynd er Darren Aranofsky. Mig langar til að rifja aðeins upp þennan stutta en brilliant feril hans.

Aranofsky fæddist í Brooklyn, New York þann 12 febrúar 1969. Hann hafði ávallt áhuga á listum hann horfði mikið á klassískar myndir og þegar hann var unglingur stundaði hann graffíti. Eftir menntaskóla fór hann til Harvard til að læra kvikmyndagerð. Hann lærði þar kvikmyndagerð ásamt því að taka animation kúrs með. Hann vann nokkur verðlaun fyrir lokaverkefnið sitt sem kallaðist Supermarket Sweep þar sem Sean Gullette lék aðalhlutverkið. Darren gerði síðan ekki mynd fyrr en 5 árum síðar eða í febrúar 1996. Þá fór hann að vinna að hugmyndinni að Pí. Hann skrifaði handritið og sýndi vinum og vandamönnum og allir urðu hrifnir af hugmyndinni. Hann skellti þá myndinni í framleiðslu en var samt í fjárhagsvandræðum. Þá stakk aðalframleiðandinn, Scott Franklin, upp á því að biðja alla vini þeirra um að leggja 100$ í myndina. Á endanum voru sumir búnir að leggja meira en það í myndina og myndin varð að veruleika fyrir 60.000$. Aranofsky fór með myndina á Sundance hátíðina og vann þar til verðlauna og fékk myndina í útgáfu hjá Artisan fyrirtækinu.
Uppáhaldsbókin hans Aranofsky er Last Exit to Brooklyn eftir Hubert Selby. Á meðan hann var að klippa Pí fékk framleiðandinn að Pí Eric Watson hann til að lesa aðra Selby bók sem kallaðist Requiem for a dream. Darren varð gífurlega hrifinn af bókinni og vildi gera kvikmynd úr henni. Á svipuðum tíma var hann líka að íhuga tvær aðrar myndir.
Það var kominn upp sá orðrómur á meðan Pí var í sýningu að Aranofsky ætlaði að gera mynd byggða á Frank Miller teiknimyndasögunni Ronin. Miller var í miklu uppáhaldi hjá Aranofsky. Útlitið á Pí var innblásið af teiknimyndasögu sem Miller hafði skrifað og teiknað og kallaðist Sin City.

Enn ein myndin komst á listann hjá Aranofsky og átti hún að heita Proteus(heitir núna Below). Dimension Films fékk hann til að skrifa hana. Myndin er sci-fi þriller sem gerist um borð í kafbát á seinni heimsstyrjöldinni. Darren vildi samt ekki leikstýra henni hann vildi frekar framleiða hana og fékk því David Thwohy(pitch black) til að leikstýra henni.
Aranofsky vildi fyrst og fremst einbeita sér að Requiem for a dream og skrifaði handritið að henni ásamt Hubert Selby Jr. Hún kom út 2000 en er því miður ekki ennþá komin hingað til lands(sem er náttúrulega fáránlegt).
Eftir Requiem ákvað hann að setja Ronin í biðstöðu og ætlar í staðinn að vinna með Frank Miller að því að skrifa handrit að Batman: Year One. Áður en hann gerir það er hann að klára big-budget vísindamynd sem kallast Last man og er með Brad Pitt og Cate Blanchet í aðalhlutverkum( þessa mynd var ég búinn að skrifa um þannig að ég segi ekkert meira um hana).

Það er nokkuð ljóst að það verður spennandi að fylgjast með þessum snilldar Brooklyn-búa sem er að gera frábæra hluti um þessar mundir.

-cactuz