A.I. ( Artificial Intelligence )
Í marga áratugi hafði Stanley heitinn Kubrick unnið að því að koma á hvíta tjaldið smásöguni Supertoys Last All Summer Long eftir rithöfundinn Brian Aldiss. Nokkru síðar komast hann að þeirri niðurstöðu að skynsamlegast væri að biðja vin sinn til margra ára, Steven Spielberg, um að leikstýra myndinni og taldi Kubrick hann í raun henta betur í það hlutverk. Það var hins vegar ekki fyrr en eftir andlát Kubrick sem Spielberg tók að fullu við leikstjórnartaumunum og fór að vinna að handritinu. Afrakstur þessa langa ferils má nú loks sjá í fullgerðri kvikmynd um gervigreind og vélmenni. Myndin fjallar um vísindamann í ótilgreindri framtíð, leikinn af William Hurt, sem tekur þá ákvörðun að þróa vélmenni sem getur komið í stað barna og elskað foreldra sína jafn heitt og raunveruleg börn. Tækni tengd vélmennum hefur augljóslega farið mikið fram þegar hér er komið sögu og er ljóst að möguleikinn er fyrir hendi. Ungum hjónum sem eiga afar veikan son er falið að annast tilraunaútgáfuna og í framhaldi af því taka málin óvænta stefnu. Tilvísanir í ævintýrið um Gosa eru miklar í þessari heillandi sögu um vélmennið sem vill verða raunverulegur drengur. Hinn ungi leikari Haley Joel Osment (The Sixth Sense, Pay it Forward) leikur vélmennið unga, sem nefnist David, og fer hann afar vel með þetta erfiða hlutverk. Þessi þrettán ára gamli strákur hefur sýnt enn og aftur fram á hversu góðum tökum hann hefur náð á leiklistinni og verður mjög spennandi að fylgjast með honum á næstum árum og áratugum enda er um gríðarlegt efni að ræða. Aðrir leikarar standa sig einnig mjög vel og má þar helst nefna Frances O´Connor í hlutverki móðurinnnar og Jude Law (The Talented Mr. Ripley, Enemy at the Gates) í hlutverki gígaló vélmennis sem veit hvernig á að fara að því að láta konum líða vel. Myndin er óneitanlega nokkuð sérstök og varla hægt að hugsa sér betri leikstjóra en Spielberg til að koma þessari sögu til skila. Ekki síðan E.T. eða í hinni átakanlegu Schindler´s List hefur hann náð jafn föstum tökum á viðfangsefni sínu og náð að skila því á jafn áhugaverðan og grípandi hátt til áhorfenda. Hinar flóknu siðferðilegu spurningar sem vakna í myndinni eru settar fram á vandaðan hátt í bland við áhugaverða dramatíska fjölskyldusögu um ást og tilfinningar manna og mögulega véla. Með þessu verki sínu hefur Spielberg einnig staðfest það sem Kubrick hefur haldið fram fyrir andlát sitt. Leikstjóri E.T. væri augljóslega rétti maðurinn til að færa þetta nútímaævintýri Gosa í kvikmyndabúning.