Jæja, þar sem enginn hefur skrifað um Óskarinn þá ætla ég að gera það.
Ég held að flestir geti verið sammála mér um að þetta hafi verið skemmtileg og sanngjörn hátíð. Billy Cristal stóð sig mjög vel með bröndurum, skotum og lögum - og auðvitað sem kynnir líka. Mér fannst trailerinn í byrjuninni einstaklega skemmtilegur. Hringadróttinssaga kom mér skemmtilega á óvart þegar Peter og félagar hrepptu 11 Óskara, eða alla þá sem myndin var tilnefnd til. Mér fannst allir Óskarar Hringadróttinssögu vera verðskuldaðir, og fannst mér frábært að Lost In Translation hafi fengið Óskarinn fyrir handrit. Sofia Coppola hefur ekki verið í uppáhaldi hjá mér til þessa, en mér finnst Lost In Translation vera frábær mynd - og hreinlega efast um að hún hafi komið ein að handriti myndarinnar, en hver er ég að dæma um það. Ég læt auðvitað sem hún hafi gert það þartil annað kemur í ljós.
Ég hef ekki séð Mystic River, en hún er sögð góð og á Sean Penn líklegast skilið Óskarinn sinn, fyrir aðalhlutverk karls, og sömuleiðis Tim Robbins fyrir aukahlutverk í sömu kvikmynd. Mér fannst Cold Mountain hundleiðinleg og var mjög ósáttur með að Renée hafi fengið Óskarinn fyrir hlutverk sitt í þeirri vælu - en ég viðurkenni nú samt að svona myndir höfða ekki til mín og því ætla ég ekki að dæma hana enn frekar. Finding Nemo átti svo sannarlega skilið að fá Óskarinn, enda frábær mynd í alla staði. Charlize Theron átti skilið Óskarinn fyrir hlutverk sitt í Monster, hún er frábær í þeirri mynd. Charlize hefur oftast nær leikið “gelluna” í myndunum hingað til og hafa eflaust margir efast um getu hennar í öðrum hlutverkum, en hún afsannaði það algjörlega í Monster.
Hérna er smá yfirlit yfir helstu Óskarsverðlaunin s.l. nótt:
Hringadróttinssaga - Hilmir snýr heim : Besta kvikmynd, Leikstjórn, Besta handrit byggt á skáldsögu, Tónlist(lag), Kvikmyndatónlist, Klipping, Búningar, Förðun, Art Direction(veit ekki hvað það kallast á íslenskunni góðu, endilega látið mig vita ef þið vitið), Tæknibrellur og Hljóð.
Lost In Translation : Handrit
Mystic River : Sean Penn - Fyrir aðalhlutverk karlkyns & Tim Robbins fyrir aukahlutverk karlkyns.
Monster - Charlize Theron - Fyrir aðalhlutverk kvenkyns
Cold Mountain : Renée Zellweger - Fyrir aukahlutverk kvenkyns
Master And Commander ; The Far Side Of The World - Hljóðklipping(Sound Editing) & Kvikmyndagerð/Kvikmyndalist(Cinematography)
Finding Nemo - Besta teiknimynd
The Barbarian Invasion (Kanada) - Sem besta erlenda kvimyndin
Heiðursverðlaun fékk Blake Edwards fyrir gott starf í gegnum tíðina.
Ég varð frekar þreyttur á þessum lögum sem komu þarna fimm í röð. Það komu tvö lög í röð úr Cold Mountain, og þá langaði mig til að sofa. Mér fannst sú ræma vera einstaklega leiðinleg, en það er auðvitað mín skoðun. Ég vil bæta við að mér fannst Scarlett Johansson sýna mjög góðan leik í Lost In Translation, þrátt fyrir ungan aldur. Ég mun fylgjast með henni í framtíðinni.
-
Margur maðurinn gefur skít í Óskarsverðlaunahátíðina og tekur ekki neitt mark á þeim myndum sem viðurkenndar eru ár hvert. Ég reyndar geri það að vissu leyti þar sem myndir eins og Cold Mountain og Chicago eru að fá verðlaun, en ég vil hér með biðja það fólk að sleppa allri neikvæðni.
Kveðja,
Hrannar Már.