Formáli

Johnny Depp er vafalaust sá leikari sem ég held mest uppá í lífinu. Hann er einnig, að mínu mati, einn besti leikari í sögu kvikmyndanna. Robert De Niro, Marlon Brando, Al Pacino og fleiri kappar eru oftast nefndir þegar kemur að því að nefna bestu leikarana. Af þessum fjórum er Depp betri, eða ætli fjölbreyttari sé ekki betra orð til að lýsa þessu. Ef við berum t.d saman De Niro og Depp þá sést það greinilega að á meðan Depp getur bókstaflega leikið hvaða karakter sem er þá er De Niro heldur einhæfari. Þetta er auðvitað bara mitt mat og kannski hefur aðdáun mín á manninum Johnny Depp einhver örlítil áhrif á þessa skoðun mína. En látum það vera að bera saman alla þessa snillinga, þetta eru allt brilliant leikarar og snillingar (allt leikarar sem ég held mikið uppá þar að auki) og hver einn með sína kosti og galla. Ég mun einbeita mér að Johnny Depp í þessum pistli.

Saga Johnny Depp's

John Christopher Depp fæddist í Owensboro, Kentucky þann 9 júní 1963. Hann var alinn upp í Flórída en þegar hann var 15 ára hætti hann í skóla til að eltast við rokkdrauma sína. Hann var aðalmaðurinn í nokkrum bílskúrsböndum en náði lengst með hljómsveitinni The Kids, en sú hljómsveit opnaði meðal annars gigg fyrir punk kónginn Iggy Pop. Það var ekki fyrr en hann fór í ferðalag til Los Angeles sem hann fékk áhuga á leiklist. Hann var í L.A. ásamt þáverandi eiginkonu sinni, Lori Anne Allison, og hún kynnti Johnny fyrir leikaranum Nicholas Cage sem hvatti Johnny til þess að fara út í leiklist.

Fyrsta kvikmyndahlutverk Depp's var í hrollvekjunni A Nightmare On Elm Street þar sem hann lék Glen Lantz. Þetta var árið 1984 og í kjölfarið á þessu lék hann í gamanmyndinni Private Resort sem er ekki með háan gæðastimpil á sér og sjónvarpsmyndinni Slow Burn þar sem gæðin eru heldur ekki mikil. Johnny landaði síðan litlu hlutverki í stríðsmyndinni og meistaraverkinu Platoon (mynd eftir Oliver Stone), sem innihélt leikara eins og Charlie Sheen, John C. McGinley og Willem Dafoe. Það var samt ekki fyrr en Depp fékk hlutverk í hinni vinsælu þáttaröð 21 Jump Street að hlutirnir fóru að ganga hjá honum. Þar vakti Depp mikla athygli ásamt Richard Grieco en þeir tveir léku löggufélaga í þessum þáttum.

Johnny var engu að síður mjög ósáttur með það að vera leika í þessum þáttum og eftir því sem tíminn leið varð hann alltaf meira og meira þunglyndari yfir ástandinu. Honum fannst hann sjálfur vera ekkert nema enn einn aulinn í Hollywood. Hann þakkar hinsvegar leikstjóranum Tim Burton fyrir að hafa haft trú á sér og fyrir að hafa gefið honum tækifæri (meira um það á eftir…) - og ef ég vitna beint upp úr því sem Johnny skrifaði í formála að bók Mark Salisbury's um Tim Burton árið 1994; “When I was asked to write the foreword to this book, I chose to tell it from the perspective of what I honestly felt at the time he (Tim) rescued me: a loser, an outcast, just another piece of expendable Hollywood meat.”

Eftir að hafa leikið aðalhlutverkið í söngleikja og gaman myndinni Cry-Baby (mynd sem ég því miður hef ekki séð, svo að ég get ómögulega farið að einhverju viti út í hana) lék hann í Edward Scissorhands, mynd sem breytti lífi hans sem leikara. Edward Scissorhands var bíómynd sem Tim Burton var að gæla við að gera í kringum 88-89. Johnny var sent handritið og eftir að hafa lesið handritið oft og mörgum sinnum og líkað einstaklega vel við var Johnny öruggur um það að þetta væri hlutverk sem væri fullkomið fyrir hann. Hann var hinsvegar engan veginn jafn öruggur um að hann gæti fengið hlutverkið þar sem hann hafði afrekað sama og ekki neitt til þess að sanna að hann væri réttur í hlutverkið.

Það var settur upp fundur á milli hans og Tim Burton's, og þar sem Depp hafði hrifist gífurlega af handritinu þá var hann virkilega stressaður að hitta þennan mikla snilling. Þeir smullu samt engu að síður saman, bæði sem leikari og leikstjóri og sem tvær persónur, og Depp fékk hlutverkið. Þeir hafa síðan eftir þetta unnið að 5 myndum saman (að Edward Scissorhands meðtaldri) og eru eitt best heppnaðasta tvíeyki í Hollywood.

Edward Scissorhands fjallar eins og nafnið gefur til kynna, um mann sem er með skæri sem hendur. Sagan er dimm og drungaleg en jafnframt töfrandi og falleg. Tim Burton er meistari myrkursins og að mínu mati er þetta ein allra besta mynd Burtons, ein besta mynd Depp's og ein merkilegasta og skemmtilegasta mynd kvikmyndasögunnar. Leikur Johnny's er einnig ótrúlega góður og hann negldi niður persónuna algjörlega í einu og öllu. Depp er það hæfileikaríkur sem leikari að hann nær alltaf að ná eins miklu og hann getur út úr karakternum sem hann er að túlka og þar af leiðandi verður hann gjörsamlega persónan sem hann leikur í myndinni. Hann var tilnefndur verðskuldað til Golden Globe verðlaunanna fyrir leik sinn.

Það má segja að Depp hafi tekið eitt skref fram á við með leik sínum í þessari mynd, og jafnvel fleiri en eitt skref. Eftir þetta þá einbeitti hann sér að því að velja hlutverkin sín vel og hann hefur alla tíð síðan þá valið sér spennandi, öðruvísi, skemmtileg, alvarleg, dimm og stundum furðuleg hlutverk. Hann hefur einmitt ósjaldan sjokkerað bæði áhorfendur og gagnrýnendur með hlutverkavali sínu en þær gagnrýnisraddir hafa yfirleitt verið grafnar langt niður í jörðu þegar myndin og Depp hefur sannað sig. Hann hefur aðeins einu sinni leikið í virkilega lélegri mynd, ef ég miða það útfrá því sem gagnrýnendur og áhorfendur segja, og það var í The Astronaut's Wife en meira um það síðar.

Það liðu heil þrjú ár þangað til Depp birtist aftur, eða árið 1993 en þá lék hann í 3 myndum. Fyrst ber að nefna Arizona Dream, þar lék hann Axel Blackmar á móti Vincent Gallo og Faye Dunaway. Næst ber að nefna gamanmyndina Benny & Joon þar sem er að finna eitt fyndnasta og skemmtilegasta hlutverk Depp's. Hann er Sam, sem er frekar skrýtinn náungi og laðar jafnvel á köflum við að vera létt-geðveikur. Sam sem er ávallt klæddur í jakkaföt og með pípuhatt, ristar brauðið sitt með straujárni og hann þvær fötin sín í uppþvotavélinni. Hann eyðir öllum sínum tíma í að horfa á gamlar þöglar myndir og er sífellt að leika atriði úr Chaplin myndum. Þetta er alltof fyndið og ég nefni bara atriðið er hann tekur brauðlappirnar á kaffistofunni og fer síðan að þylja upp heilu atriðin úr einhverri mynd sem afgreiðslukonan (Julianna Moore) lék eitt sinn í, frábært atriði og frábær mynd. Seinasta myndin frá 1993 er síðan What's Eating Gilbert Grape. Létt dramamynd með gamansömu ívafi eftir Lasse Hallström. Þar leikur hann Gilbert Grape sem virðist vera sá eini sem gæti talist venjulegur í fjölskyldu sinni en fjölskyldan hans er mjög skrýtin. Depp stendur sig vel en fellur svolítið í skuggan af frábærri frammistöðu Leo Di Caprio's sem þroskahefti bróðirinn.

Eftir að hafa fengið mikið lof allstaðar frá var Depp á réttri leið, þar að segja allavega í kvikmyndaheiminum. Það er ekki hægt að segja það sama um líf hans í raunveruleikanum en Johnny barðist bæði við áfengis og fíkinefna vandamál auk þess að reykja hreint ótrúlega stórt magn af sígarettum á degi hverjum. Hann var samt engu að síður aldrei það djúpt sokkinn og í dag er hann hættur öllu rugli og hefur haldið sig frá því lengi. River Phoenix, annar þekktur leikari, dó hinsvegar þegar hann tók of stóran skammt af eiturlyfjum. Það væri auðvitað ekki frásögum færandi ef það væri ekki fyrir þá staðreynd að River dó fyrir utan skemmtistað sem var í eigu Johnny Depp's, Viper Room árið 1994. Alla tíð síðan hefur verið mikil athygli á staðnum, einmitt útaf þessum atburðum, og er fólk sem heimsækir staðinn mjög hrifið af því að spyrja spurninga um þetta, taka myndir og fleira fleira. Það var ein aðalástæðan fyrir því að hann seldi staðinn fyrir stuttu síðan….

Þar sem þetta er frekar langt mun ég birta þetta í 2 pörtum.