Tónleikar til styrktar kvikmyndar... Laugardaginn 12. Júní ætlum við í Espresso kvikmyndagerð að halda stóra
tónleika til styrktar kvikmyndinni okkar, Kvöldbæn, sem við ætlum að gera í
sumar. Þetta er kvikmynd í fullri lengd, og takmarkið er að geta sannað fyrir
Íslendingum að það sé hægt að búa til alvöru bíómynd án þess að vera með
kvikmyndasjóð og ZikZak film á bak við sig. Tónleikarnir fara fram á gamla
Vegas.
Dagskráin hefst kl. 20:00 og er alls ekki af verri endanum. Fyrst verður
stand-up sýning, þar sem fjórir grínistar koma fram. Fyrstur stígur Eyvindur
Karlsson á stokk og reynir sitt besta til að vera fyndinn. Svo tekur Jón
Finnbogason, bloggari með meiru við. Næstur er svo hinn stórfyndni
Haukur í horni Sigurðsson, sem gerði garðinn færgan með sjónvarpsþáttum
sínum á Skjá Einum, og hefur einnig gert það gott í uppistandskeppnum.
Svo er aldrei að vita nema einhverjir fleiri droppi inn…
Þar með lýkur gríninu, en þá er kvöldið bara rétt að byrja. Þegar spaugarar
hafa lokið sér af stígur Misery loves company á svið, og spilar eigið efni í
bland við lög eftir meistara á borð við Nick Cave, Bob Dylan og Tom Waits,
en þeir hafa einmitt getið sér gott orð fyrir Tom Waits cover. Svo taka
rokkararnir við og ber þá fyrsta að nefna hina stórgóðu hljómsveit Lokbrá, og
næsta rokkarana í Jan Mayen, en það eru svo strákarnir í Pan sem binda
endahnútinn á kvöldið.
Við í Espresso kvikmyndagerð höfum einsett okkur að ná að sanna það fyrir
Íslendingum að það sé möguleiki að búa til kvikmynd í fullri lengd án þess að
eiga fullt af peningum og án þess að hafa einhverja stóra fjárfesta eða sjóði
á bak við sig. En það er ekki hægt að taka mynd fyrir engan pening, og þess
vegna þurfum við á ykkar hjálp að halda. Það kostar einungis 1000 krónur
inn á tónleikana, og að sjálfsögðu fer ágóðinn óskiptur í gerð myndarinnar.
Þannig að fyrir utan það að fá frábæra skemmtun, og rosalegt prógramm,
eruð þið líka að styrkja íslenska kvikmyndagerð með því að mæta. Við viljum
setja fordæmi sem aðrir kvikmyndagerðarmenn geta fylgt eftir í framtíðinni,
með því að klára dæmið, búa til þessa mynd án þess að nokkrir stórir aðilar
komi að framleiðslunni, og þannig ryðja brautina fyrir aðra í framtíðinni.
Vonandi sjáum við ykkur sem flest.
Espresso Kvikmyndagerð
Eyvindur Karlsson
Gunnar Theodór Eggertsson

http://www.espressofilms.tk
We're chained to the world and we all gotta pull!