Langþráður draumur er nánast að verða að veruleika. Veldi Boston Celtics hefur risið aftur, eftir langan tíma á botni deildarinnar og mörg misheppnuð nýliðavöl. Eins og flestir körfuboltaáhugamenn vita leiðir tvíeyki Paul Pierce og Antoine Walker liðið, en Kenny Anderson og Rodney Rogers eru einnig lykilmenn í liðinu ásamt nokkrum fleirum.
Celtics liðið lagði Detroit 4-1 í undanúrslitum Austurdeildarinnar og eru Celtics og Lakers bæði komin áfram í úrslit í sinni deild og hlýtur það að vera draumur flestra körfuboltaáhugamanna að sjá þessi tvö lið etja kappi, þessi tvö gömlu stórveldi sem hafa háð margar orustur á körfuboltavellinum.
Aðalstyrkleiki í sóknarleik Celtics er sjálfsagt þriggja-stiga skotin. Antoine Walker hitti flestum þriggja stiga körfum á þessu tímabili og ásamt honum eru Paul Pierce og Rodney Rogers frábærar skyttur. Eric Williams, sem kom inn í byrjunarliðið þegar Joe Johnson var skipt til Phoenix, hefur þó reyndar komið með meira jafnvægi í sóknarleikinn, kannski ásamt Kenny Anderson. En Kenny hefur einmitt verið að leika frábærlega að undanförnu og reyndar í allan vetur. Hann skoraði t.a.m. 17 stig í fimmta leik liðsins gegn Detroit og þar á meðal mikilvægar körfur á lokasprettinum þegar Pierce og Walker voru í villuvandræðum og sátu á bekknum.
Möguleikar Boston gegn Lakers, ef að liðin myndu nú mætast, eru kannski ekki svo ýkja miklir. Þó myndu Pierce og Kobe há skemmtilega rimmu, en ég er á því að Pierce sé betri leikmaður, bæði tölfræðilega séð og bara í ýmsum þáttum leiksins. Walker-arnir, Antoine og Samaki myndu há rimmu sem væri skrýtin, Samaki er fyrir það að vera inni í teig, en Antoine er algjör byssa og getur sett niður þriggja stiga skot nánast eins og hann vill. Einnig myndu Kenny Anderson og Derek Fisher há baráttu mikla, en þar held ég að Kenny Anderson hafi vinningin. En Vandamálið er að Tony Battie, miðherji Celtics er ekki nema 6-11 á hæð, eða 211 cm. En þrátt fyrir það er hann seigur og ætti að geta hangið aðeins í Shaq, en Shaq er nú eitthvað meiddur, í fæti, og ef þau meiðsli verða eitthvað verri þá eiga Celtics menn einhvern möguleika.
Það verður gaman að fylgjast með einvígi New Jersey og Celtics því þar mun Jason Kidd leiða deildarmeistarana í Austri gegn besta liði Austursins í dag, Celtics, og mun þetta vera frábær barátta, en hvíldin sem Celtics menn fá um þessar mundir er mikilvæg og er vonin að leikjum fjölgi í rimmu New Jersey og Charlotte, en New Jersey menn ættu að sigra Hornets liðið, sem er að leika sitt síðasta tímabil í Charlotte.

Go Celtics