Snæfell í úrslit, Grindvíkingar úr leik Snæfell í úrslit

Þá eru draumar Grindvíkinga um Íslandsmeistaratitilinn úti þetta árið en þeir töpuðu fyrir Snæfellingum í æsispennandi framlengdum leik í Hólminum í gær, 116-114. Grindvíkingar byrjuðu þessa rimmu afar illa, töpuðu fyrst á heimavelli og svo aftur úti og voru komnir upp við vegg í þriðja leiknum en þá fóru þeir loksins að spila eins og menn og unnu þann leik nokkuð örugglega 90-71. Í þeim leik fóru Grindvíkingar loksins að spila saman eins og lið og héldu margir að nú færu hlutirnir að smella hjá þeim. Í leiknum í gær leit líka út fyrir að Grindvíkingar myndu halda uppteknum hætti og vinna Snæfellinga í annað skiptið í röð nokkuð örugglega. Eftir þriðja leikhluta var staðan 70-86 Grindvíkingum í vil og þeir með pálmann í höndunum.

En Snæfellingar eru ótrúlegir. Í liðinu hjá þeim eru nokkrir einstaklingar sem hreinlega kunna ekki að gefast upp. Sigurður Þorvalds setur niður þrjár þriggja í röð og Grindvíkingar eru hreinlega úti að skíta. Palli Kristins fer útaf með 5 villur og Jamal er kominn með 4, sem er ekki gott fyrir mann sem kann ekki að spila vörn og þarf að dekka Hlyn Bærings. Frikki þjálfari Grindvíkinga er viti sínu fjær á bekknum en allt kemur fyrir ekki. Ekkert gengur upp hjá Grindvíkingum og leikurinn fer í framlengingu. Spennan í húsinu er svo óbærileg að varla heyrist múkk í áhorfendum í framlengingunni, allir halda niðrí sér andanum af spenningi.

Framlengingin var æsispennandi allt fram á síðustu sekúndu. Þegar 11 sekúndur eru til leiksloka setur Shouse niður körfu og kemur Snæfellingum í 116-114. Frikki tekur leikhlé og Grindvíkingar freista þess að jafna leikinn og knýja fram aðra framlengingu. En á ögurstundu heldur vörn Snæfellinga og þeir neyða Grindvíkinga til að taka erfitt skot. Lalli tekur örvæntingarfullt þriggja stiga skot en það er úr erfiðri og þvingaðri stöðu og það geygar. Flautan glimur og Snæfellingar eru komnir í úrslit.

Í úrslitum mæta Snæfellingar annað hvort Keflvíkingum eða spútnikliði úrslitanna, ÍR. ÍR-ingar hafa verið hreint ótrúlegir í þessari úrslitakeppni. Eftir að hafa endað í 7. sæti í deildinni tóku þeir sig til og slóu út ríkjandi meistara KR-inga, og minnstu munaði að það gerðist í tveimur leikjum en KR-ingar rétt mörðu ÍR-ingana í Hellinum í framlengingu í leik númer 2. Einhverjir héldu eflaust að öskubuskuævintýri ÍR-inga tæki enda á móti Keflvíkingum en þeir héldu áfram að koma á óvart og unnu tvo fyrstu leikina á móti deildarmeisturunum, meira að segja nokkuð sannfærandi. Keflvíkingarnir hafa hins vegar komið til baka og hafa jafnað einvígið í 2-2, og eru fyrsta liðið í sögunni sem nær þeim árangri.

Fimmti og síðasta leikur liðanna fer fram í Keflavík á morgun og verður það eflaust æsispennandi leikur þar sem barist verður til síðasta blóðdropa. Þó hef ég á tilfinningunni að ÍR blaðran sé sprungin og Keflvíkingar klári þann leik. Keflvíkingar virðast vera búnir að hrista af sér slenið og þegar þeir eru komnir í ham eru þeir illviðráðanlegir. Ef hins vegar ÍR-ingar vinna og fara í úrslit verður það í fyrsti skipta í síðan úrslitakeppninni var komið á 1984 að ekki verður a.m.k. eitt Suðurnesjalið í úrslitum.
_ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _