Fara alla jafna ekki til Reykjavíkur!
- segir Wenger um Madrídarferð Vieira
Þó ensku götublöðin séu á því að Patrick Vieira sé á leið til Real Madrid þvertaka ráðamenn Madrídarliðsins fyrir það. Madrídarferð Vieira á mánudag þótti renna stoðum undir hugsanlegan flutning Arsenal-fyrirliðans, en Arsene Wenger, knattspyrnustjóri segir ekkert óeðlilegt við það að leikmenn skelli sér til Madrídar þegar þeir eigi stutt orlof yfir veturinn. ,,Þeir fara alla jafna ekki til Reykjavíkur,“ sagði hann.

Þessi ummæli hefur The Guardian eftir Wenger, en í frétt blaðsins segir að ráðamenn Real Madrid hafi séð sérstaka ástæðu til að láta hann vita að þeir væru alls ekki á höttunum eftir franska landsliðsmanninum. ,,Fréttir þess efnis eru hreinn skáldskapur,” segir í bréfi frá Real sem Wenger sagði frá í dag.

Guardian segir svo frá ummælum Wengers sem hann viðhafði við blaðamenn á æfingu Arsenalliðsins í dag:

Wenger viðurkenndi að Vieira hafi verið í Madríd á mánudaginn, en að þar hefðu engin undirmál verið á ferðinni.
,,Leikmennirnir áttu tveggja daga frí,“ sagði Wenger. ,,Þeir fara alla jafna ekki til Reykjavíkur, þeir fara til Madrídar svona um miðjan vetur. Er eitthvað að því? Ég er búinn að rabba við hann um þetta og hann var alveg gáttaður.”

Svo mörg voru orð Arsenalstjórans í Guardian í dag. Ekki er vitað til þess að Ferðamálaráð hafi gert athugasemd við ummæli hans, enn þá.

Þetta er tekið af visir.is