<font size=“2”>
JÓHANN FÆR GÓÐA DÓMA
Jóhann B. Guðmundsson leikmaður Lyn í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu er í fimmta sæti á lista Nettavisen um þá leikmenn sem nýta marktækifærin sín hvað best. Samkvæmt þessu hefur Jóhann nýtt rúmlega helming þeirra marktækifæra sem hann hefur fengið til þessa, eða 55%. Jóhann hefur skorað sex mörk í deildinni í þeim 12 leikjum sem hann hefur tekið þátt í. Það gekk illa hjá Jóhanni að finna leiðina að markinu í fyrstu leikjunum en mörkin sex hafa litið dagsins ljós í síðustu sjö leikjum liðsins. Sænski framherjinn Magnus Powell hjá Lilleström er efstur á listanum, en hann hefur skorað sjö mörk og nýtt 78% af þeim marktækifærum sem hann hefur fengið.



Skagamaðurinn Hálfdán Gíslason kom inn á sem varamaður á 68. mínútu en fór af leikvelli eftir aðeins 7 mínútur vegna meiðsla á nára. Þetta er annar leikur ÍA í röð þar sem varamaður fer meiddur af leikvelli eftir að hafa komið inn á skömmu áður, en þá var það Unnar Valgeirsson sem meiddist á aftanverðu læri.



*HJÁLMUR Dór Hjálmsson hafði aðeins mætt á eina æfingu í sumar með meistaraflokki ÍA áður en hann fór beint inn í byrjunarliðið. Hjálmur kom við sögu í þremur deildarleikjum í fyrra en hefur aðeins æft og leikið með 2. flokki í sumar. Hjálmur leysti bakvarðarstöðuna í fjarveru Sturlaugs Haraldssonar sem er meiddur á baki.



*DANSKI leikmaðurinn Tommy Schram kom inn á fyrir Tómas Inga Tómasson í fyrri hálfleik. Schram var að leika sinn fyrsta leik með liðinu en hann lék með Herfölge í dönsku deildinni í vetur, en hafði áður leikið með Tómasi Inga hjá Aarhus. Í leikmannahóp ÍBV vantaði Aleksandr Ilic sem gat ekki leikið vegna veikinda.



BÚNINGAVANDRÆÐI
Framarar voru eins og höfuðlaus her í gær því búningar þeirra voru ekki eins og þeir áttu að vera. Þeir léku í hvítum varabúningum, en ekki á sínum réttu númerum.
*LEIKURINN hófst aðeins of seint vegna þessa þar sem einhverja búninga vantaði. Þetta varð til þess að fastnúmerakerfið var ekki notað að þessu sinni.

*ÞEGAR Andri Fannar Ottósson kom inn á er tíu mínútur voru eftir varð hann að fá lánaðan búninginn hjá Vilhjálmi Vilhjálmssyni, öðrum varamanni Fram, og hljóp inn á í treyju númer 6 og með Vilhjálmur ritað á bakinu.

*FREYR Karlsson var í búningi númer 18 en reynt var að laga það með hvítu límbandi þannig að það átti að vera 14 en það sást illa þannig að hann kom með 18 á bakinu til síðari hálfleiks, en það er treyja Ómars Halldórssonar. Daði Guðmundsson var í treyju númer 21 sem er númer Andra Fannars.