Til stóð að landsliðsmaðurinn Tryggvi Guðmundsson, leikmaður Tromsö í Noregi, færi til reynslu hjá enska 1. deildarliðinu Blackburn í gær en hann þurfti að slá förinni á frest vegna meiðsla á hæl sem hann hlaut í leiknum gegn Bodö/Glimt í lokaumferð norsku úrvalsdeildarinnar um helgina.
Tryggvi er samningsbundinn Tromsö til loka næsta árs en hefur gert forráðamönnum félagsins ljóst að hann vilji reyna fyrir sér hjá öðru félagi utan Noregs.
Blackburn bauð Tryggva að koma til reynslu og þáði hann það boð en þar sem hann var ekki 100% heill vildi hann fresta ferðinni.