U21 landsliðið tapaði en hvað gerir A-landsliðið? Íslenska U21-landsliðið tapaði stórt fyrir Dönum í undankeppni EM í gær 4-0. Danir höfðu eins marks forystu í hálfleik. Í síðari hálfleik bættu þeir þremur mörkum við og náðu þriðja sæti í riðlinum, með 15 stig, en Íslendingar fengu 11 stig. Fyrirliði íslenska liðsins, Bjarni Guðjónsson setti landsleikjamet með 21 árs landsliðinu, en hann var að leika sinn 20. landsleik. Sigurður Grétarsson er þjálfari liðsins en sögusagnir hafa verið í gangi um það að Bjarni Jóhannsson muni líklega taka við liðinu og jafnframt stýra Grindavík. En þetta á eftir að koma betur í ljós.

A-landsliðið leikur gegn Dönum á Parken í kvöld og hefst bein útsending á Sýn kl.17:45. Leikurinn er mikilvægur fyrir frændur okkar Dani sem geta tryggt sér sæti á HM. Leikurinn er kveðjuleikur Eyjólfs Sverrissonar (33) sem hefur ákveðið að leggja landsliðsskóna á hilluna “Þetta er stórleikur og ég ætla að hafa gaman af því að taka þátt í honum. Ég vil nota tækifærið og þakka fyrir allan stuðninginn sem ég hef fengið frá þjóðinni.” sagði Eyjólfur í viðtali við mbl.is. Byrjunarlið Íslands hefur verið tilkynnt og vekur athygli að Marel Baldvinsson er í byrjunarliðinu. Fjórar breytingar eru á byrjunarliðinu frá leiknum gegn Norður-Írum. Lárus Orri, Rúnar Kristinsson, Brynjar Björn og Marel koma inn í byrjunarliðið í stað Auðuns, Arnars Þórs, Helga og Andra.