Hver verður næsti þjálfari KR? Það er mikil leit í gangi hjá stjórn Knattspyrnudeildar KR um þessar mundir. Félagið er nú að leita að nýjum þjálfurum fyrir meistaraflokk karla og kvenna. Tveggja ára samningur við Magnús Pálsson, þjálfara kvennaliðsins, rann út þegar þessu keppnistímabili lauk. Nú er búið að ræða við Magnús og var ákveðið að gera ekki nýjan samning þó að stjórnin segist vera ánægð með hans störf. Ekki er enn orðið ljóst hver tekur við liðinu.

Skotinn David Winne verður ekki áfram hjá KR. Winnie tók við af Pétri Péturssyni þegar hann hætti fyrr í sumar sem þjálfari KR vegna þess að illa gekk. Forráðamenn KR ákváðu að framlengja ekki samninginn við Winnie en leita í staðinn á önnur mið. Þeir töluðu við Loga Ólafsson en hann hafnaði tilboði frá “áhugaverðasta” félagi landsins samkvæmt norskum fjölmiðlum: “Han takket nei til å trene Islands mest attraktive lag, KR Reykjavik, for å komme til Åråsen og Lillestrøm.” Þannig er nú það. Logi er orðinn aðstoðarþjálfari hjá Lillestrøm. Þeir menn sem þykja líklegastir til að taka við stjórninni hjá KR eru Willum Þór Þórsson, þjálfari Hauka og Bjarni Jóhannsson, þjálfari bikarmeistara Fylkis.