Vonlítið fyrir Vestmannaeyinga Eyjamenn töpuðu í gærkvöldi fyrir skoska liðinu Hearts í Evrópukeppni félagsliða. Skotarnir byrjuðu leikinn betur, en þegar líða tók á fyrri hálfleikinn komust Eyjamenn meira inn í leikinn. Á fyrstu tuttugu mínútum leiksins hefðu Hearts-menn auðveldlega getað sett 1-2 mörk, en voru óheppnir að skora ekki. Staðan í hálfleik var 0-0. Snemma í síðari hálfleik fengu Skotarnir aukaspyrnu frá hægri kanti. Þaðan barst boltinn inn á teig þar sem Scott Severin stóð einn og óvaldaður og skallaði knöttinn í netið. Á 66. mínútu kom annað mark Skotanna eftir hver mistökin á fætur öðru hjá Eyjamönnum. Boltinn barst þá út á Darren Jackson sem skoraði með hnitmiðuðu vinstrifótar skoti. Steingrímur Jóhannesson skoraði mark þegar skammt var eftir en það var dæmt af vegna meintrar rangstöðu. Dómarar leiksins voru reyndar mjög duglegir við að lyfta flagginu. Skotarnir fara því með tveggja marka forskot í síðari leikinn og verður að teljast ansi vonlítið að Eyjamenn komist áfram í næstu umferð.