Athygli vekur að Skagamaðurinn Sturla Guðlaugsson er búinn að skrifa undir samning við 1. deildarlið Aftureldingar. Afturelding var nokkurskonar “spútnik” lið 1.deildar í fyrra en þar endaði liðið í fjórða sætinu eftir að hafa komið úr 2.deildinni fyrst að Leiftur sameinaðist Dalvík. Sturla er 25 ára og lék 8 leiki með Skagamönnum í úrvalsdeildinni síðasta sumar og á alls að baki 28 leiki í deildinni, þar af 12 með Fylki. Afturelding hefur því fengið ágætan liðsstyrk fyrir komandi átök en áður hafa þeir Albert Arason frá Leiftri/Dalvík og Brynjólfur Bjarnason úr ÍR gengið til liðs við Mosfellinga.

Albert Sævarsson, markvörður Grindvíkinga, gæti verið á leið til Færeyja til að leika þar með B68 í Tóftum, sem varð í sjötta sæti deildarinnar í fyrra. Forráðamenn B68 höfðu samband við Albert og hafa áhuga á að fá hann til liðsins en Albert á eftir að ákveða sig. Fyrir nokkrum árum stóð til að Albert færi til Færeyja og gengi til liðs við þarlent félag, en af því varð ekki. Albert þekkir nokkuð til í Færeyjum enda er eiginkona hans færeysk. Þegar deildakeppnin hófst í fyrra hafði Albert ekki misst af leik með Grindvíkingum í efstu deild. Hann hafði þá leikið 121 leik í röð í deildinni en missti af fyrstu leikjunum í sumar vegna meiðsla. Albert á lítinn möguleika á að vera aðalmarkvörður Grindavíkur í sumar enda hefur liðið fengið Ólaf Gottskálksson.