Í slagveðursrigningu fór ég til Reykjavíkur í heimsókn til vina og gisti hjá einhleypri vinkonu.(ekki skrýtið eftir lestur þessarar greinar)Þegar inní íbúðina kom kynnti hún mig fyrir Igga Pop sem faldi sig undir rúmi í hliðarherbergi og sá kærði sig nú ekki um að bjóða gestinn velkominn. Hann er svo feiminn þetta rassgat, sagði hún og kisi skreið enn lengra undir rúmið.
Eftir u.þ.b.þriggja stunda spjall og gláp á imbann hjá okkur vinkonunum, kemur ekki Iggy Pop skríðandi fram í stofu til að hnusa af dótinu mínu og virtist mjög forvitinn en varkár um leið.Iggy Pop var risastór, hvítur, persneskur fressköttur með marflatt trýni og risastór kringlótt augu, annað gult en hitt blátt.Háralagið var eins og ofnotuð úfin gólfmoppa með hnúskum og stóð í allar áttir. Eftir dágott snudd í kring um dótið mitt dró hann sig aftur í hlé. Fegin var ég.
Vinkona mín vék úr rúmi fyrir mér þrátt fyrir mótmæli mín og skreið ég því örþreytt eftir nokkrar svefnlausar nætur í silkináttreyjunni minni undir létta dúnsæng. Ummmm…ég fann vellíðan hríslast um mig og ég naut þess að kúra ofan í mjúkan koddann. Ég dottaði…en Fuck´n nightmare. Á sænginni fann ég fyrir þunga og 12 hárbeittar klær læstust í gegnum dúnsængina í gegnum silkið og í mig. Shit!! Hentist fram úr rúminu og reyndi að losa kattarkvikindið innan úr sænginni sem tókst og hann spólaði hvæsandi út úr herberginu.
Það tók mig laaangan tíma að jafna mig og róa niður eftir þessa atlögu og var loks að festa blund - en - köfnunartilfinning, vitin full af lausri ull eða hárum…opna augun og horfi inní eitt gult auga og annað blátt….Veit ekki hvort okkar var fyrra til að takast á loft og þeytast út úr rúminu. Kattatófétið klóraði í lakið og froðufelldi hvæsandi áður en hann krafsaði sig út úr herberginu á ný.
Ég lagði mig á rúmið á ný, búin á tauginni og bjóst alveg eins við annari árás frá óargadýrinu sem greinilega var að láta mig vita að enginn skyldi sofa í þessu rúmi nema mamma sín.
Það sem eftir lifði nætur var ég í viðbragðstöðu, sofnaði ekki blund en hlustaði á óhljóðin sem Iggy Pop framleiddi. Hann breimaði eins og hás refur á greni með hinu undarlegasta hneggi í endann aðra stundina en mjálmaði eins og kettlingur í strigapoka á leið í sjóinn hinsvegar. Hann tók þvílíkar rispur í skautahlaupi á parketinu fram og aftur eins og raketta væri í afturendanum á honum, svo kom breimið, þá kettlingsveinið. Innan úr hliðarherberginu bárust friðsælar hrotur vinkonunnar. Morguninn eftir keyrði ég heim þreytt og syfjuð og guðsfegin að vera laus við kattarskrattann, óttaðist ekki sviptivindi undir Hafnarfjalli né nokkuð annað eftir þessa nótt.
Ég er að velta fyrirmér hvað hafi gengið að kettinum? Var hann með einhverskonar andstöðu, mótþróa þrjósku-röskun eða ofsafælni? Var þetta kanske einhverskonar Szitzophrenia?
Eða var hann bara einfaldlega að sækjast eftir blíðu minni?
Hvað um það ég elska ketti.