Ég var beðin um að taka saman stutta grein um Norska Skógarköttinn og ræktun hans hér á Íslandi.

Ræktunin hefst þegar Björgvinjarræktunin flutti inn fressan Seven Up af Oseberg og læðuna Zizi Pax Quatro. Í kjölfarið fylgdi Vetrarheimsræktunin með innflutning á læðunni Vintergæk Felis Jubatus. Einnig voru til hér á landi nokkrir blendingar sem komust í nýliðadóm og fengu viðurkenndar ættbækur.

Í dag eru eigendur norskra skógarkatta komnir yfir 30. Til að halda utan um hópinn stofnuðum við áhugamanna klúbb, Skógarkattarklúbbur Íslands.
Á netslóð klúbbsins www.i-love-cats.com/meow/nfo höfum við ýmsar gagnlegar upplýsingar ásamt myndum og kynningu á köttunum okkar. Einnig má komast þar inn á heimasíður ræktenda, sölu á kettlingum og netfangið okkar og aðra áhugaverðar slóðir tengdar norskum skógarköttum.

Ýmsar getgátur hafa skotið upp kollinum um uppruna Norska Skógarköttarins. Ein kenningin er sú að hann sé afkomandi stutthærðra katta sem fluttust með manninum frá Suður Evrópu og norður eftir á forsögulegum tíma. Náttúran sér svo um að þeir hæfu lifi af. Dýrin sem lifðu af kalda Skandinavíska vetur þróuðu með sér breyttan pels sem þoldi bæði kulda og vætu.
Þjóðsagan segir Norska Skógarkötturinn hafa lifað villtan í norsku skógunum næstum því eins lengi og það hefur búið fólk þar. Enginn veit hvenær hann nálgaðist manninn og gerðist húsdýr hjá honum, en hann varð fljótt eftirsóttur músaveiðari í norskum hlöðum og fjósum. Norskir sjófarendur tóku hann með sér sem skipskött á ferðum sínum til Evrópu og Ameríku. Það er talin skýringin á því hve mikið finnst af síðhærðum húsköttum í þessum löndum, sérstaklega í Normandí.
Það var fyrst í kringum 1930 að fólk fór að veita skógarkettinum verðskuldaða athygli og tala um að fá hann viðurkenndan sem sérstaka tegund. Þessi áhugi lagðist síðan niður vegna síðari heimsstyrjaldarinnar. Það var svo ekki fyrr en á árunum 1950-1960 að umræðan komst aftur í gang. Eftir að félag norskra kattaræktenda var stofnað 1963 var viðurkenning norska skógarkattarins helsta baráttumál þeirra. Það hafði orðið gífurleg þróun í Noregi á þessum tíma og sveitir lögðust í eyði og þorp og borgir komu í staðinn. Þar voru lífsskilyrði stutthærðu húskattanna mjög góð, þeir höfðu húsaskjól og mat. Allt í einu vöknuðu menn við það að gömlu síðhærðu skógarkettirnir þeirra voru orðnir sjaldgæf sjón miðað við það sem áður var. Þetta á sér erfðafræðilegar skýringar, því þegar stutthærður og síðhærður köttur para sig er það stutthærða genið sem er ríkjandi og meirihluti kettlinganna verður stutthærður.

Árið 1975 var stofnað áhugamannafélag um ræktun og velferð NFO kattarins “Norsk Skogkattring”. Baráttumál félgsins var að fá skógarköttinn (NFO) viðurkenndan sem tegund hjá FIFe (alþjóðasamtök kattaræktenda).
Frumherjarnir í Norsk Skogkattring ferðuðust um Noreg þveran og endilagan til að skrá það sem nothæft var af dýrum til sveita í ræktun. Leitin beindist að einangruðum og afskekktum stöðum þar sem helstu líkur voru á að finna óblandaða týpu.

Það þurfti líka að setja staðal fyrir útlit tegundarinnar og prótótýpan varð hinn landsfrægi Truls, fyrsti Norski Skógarkötturinn til að fá viðurkenningu hjá FIFe árið 1977.

Norski skógarkötturinn er stór og sterklega byggður köttur. Hann er frekar seinþroska og fresskettirnir eru t.d. ekki fullvaxnir fyrr en um 4 ára aldur, en læðurnar um 3ja ára aldur. Það er ekki fyrr en þá að þeir hafa náð fullri líkamsþyngd. Það er mikill stærðarmunur á kynjunum, læðan er 3,5-4,5 kg á meðan fressinn er 5,5-7,0 kg. Þar sem skógarkettir eru mjög seinþroska kyn er erfitt að sjá hvernig kettlingarnir komi til með að líta út sem fullorðnir fyrr en við 10 mánaða aldur. Munurinn á sumar- og vetrarfeldi er mjög mikill. Á veturna hefur hann þykkan og mikinn feld. Þá ber mikið á glæsilegum hálskraganum og svokölluðum stuttbuxum (það eru löng hár á afturfótunum). Þegar fer að hlýna þynnist allur feldurinn og kraginn hverfur. Hárin á afturfótunum eru þó áfram lengri og litlar breytingar verða á skottinu.
Þó skógarkötturinn hafi upprunalega verið villtur úti í náttúrunni þrífst hann vel sem inniköttur hafi hann ekki kynnst öðru. Mikilvægt er að hann hafi góðan klórustaur. Skógarkötturinn hefur mjög góða skapgerð. Hann er gæflyndur og fjörugur þó hann sé hin mesta veiðikló. Þeir hafa yfirleitt sterk persónuleg einkenni og una sér vel innan um börn og önnur dýr. Læðurnar eru mjög kvenlegar og fressin mjög karlmannleg. Oft tengjast skógarkettirnir einni ákveðinni manneskju í fjölskyldunni sterkum böndum.
(heimildavefur: www.i-love-cats.com/meow/nfo)
Skógarkettir.tk