Sælir kattahugarar

Mig langar að segja ykkur aðeins frá einum af mínum fimm köttum. Þessi köttur heitir því ræktunarnafni Ljósálfa Afródíta Aþena, en er kölluð ekkert annað en “hvíta kisa”. Hún er hreinræktaður norskur skógarköttur og algerlega heyrnarlaus. Ástæðan fyrir heyrnarleysi hennar er liturinn á feldinum. Hún er alhvít og hvítir kettir eru oft heyrnarlausir. Þetta er eitthvað genetískt. Væntanlega þannig að genið sem ræður hvíta litnum er stundum með galla sem getur valdið heyrnarleysi, sérstaklega ef þeir eru bláeygðir líka (hvíta kisa er undantekning á því, því hún er gulgræneygð).

Það eru bæði kostir og gallar að eiga heyrnarlausan kött. Kostirnir eru þeir að hún eins og margir heyrnarlausir kettir þola náttúrulega hávaða mikið betur og verða ekki taugastrekktir. Týpískt dæmi um það er gamlárskvöld, þar sem hún situr bara í glugganum og finnst mjög gaman að sprengingunum meðan hinir kettirnir eru á mörkum taugaáfalls. Það er líka mikið auðveldara að ferðast með hana í bíl því hún heyrir náttúrulega ekki í honum. Henni finnst bara gaman að fara í bíltúr og virðist fíla víbringinn mjög vel. Það er líka hægt að ryksuga án þess að hún flýji undir rúm, og henni finnst æðislega gott að láta ryksuga sig og fílar líka að láta hárblásara blása á sig.

Svo getur líka verið erfitt að hafa hana. T.d. getur hún ekki farið út því það eru svo margar hættur úti sem hún skynjar ekki. Hún heyrir náttúrulega ekkert í bílum og heldur ekki í aðvörunarhljóðum hunda og katta (urr, hvæs og gelt) og er ekki hrædd við neitt eða neinn sem getur orðið hættulegt ef hún myndi hitta á aggresívt dýr. Maður var minntur aldeilis á það í eitt skipti sem hún slapp út. Hún kom aftur eftir 12 klukkutíma og þá var búið að ráðast svo svakalega á hana að hún var öll í bitum og orðin rauð á feldinn af blóði. Hún var lengi að jafna sig eftir það ævintýri en það gréri allt sem betur fer. Annars er hún alveg sjúk í að fara út og við reynum að fara reglulega út með hana í beisli. Hún skilur náttúrulega ekkert út af hverju hún megi ekki fara út eins og hinir kettirnir og finnst við örugglega vera mjög ósanngjörn og reynir öll brögð til að fá að fara út, og þá í beisli. T.d. á hún það til að hrinda hlutum niður til að fá athygli og hún er búin að brjóta alveg þvílíkt mikið af allskonar dóti en það eru bara dauðir hlutir og ég fyrirgef henni það.

Annars er þetta alveg yndislegur köttur. Bölvuð frekjurófa en mjög kelin. Hún elskar t.d. að liggja á bakinu í fanginu á manni og sofnar oft svoleiðis. Svo sefur hún alltaf á milli koddanna okkar og þá á bakinu. Svo hefur hún núna nýverið tekið upp á því að liggja á tölvuborðinu og sofa þar. Reyndar dálítið erfitt að hafa hana þar því hún notar lyklaborðið sem kodda og liggur alltaf á escape takkanum þannig að það fer allt í klessu sem maður er að vinna með. Henni kemur vel saman við hina kettina og fylgist vel með þeim til að vita hvað er að gerast. Reyndar finnst henni gaman að ráðast á tvo af mínum köttum en það er svona meira brussuskapur heldur en einhver illindi.
Kveðja
HB