Löng og stíf veiðihár kattarins sem eru svo
einstaklega næm fyrir snertingu, eru ekki
bara hentug til að þreifa á hlutum beint.
Með þessu ofurnæma skynfæri geta kettir
fundið lítilfjörlegustu breytingar á
loftstreyminu í kringum sig og áttað sig
þannig á rýminu. Í myrkri þurfa kettir að
geta smeigt sér fram hjá fjölmörgum stórum
og smáum hlutum sem á vegi þeirra verða,
án þess að rekast utan í. Þegar komið er
að kyrrstæðum hlutum reynast þeir valda
smávægilegum breytingum á eðlilegu loftstreymi.
Ótrúlegt næmi veiðiháranna gerir köttum kleift
að nema þessi frávik í loftstreyminu og
smeygja sér fimlega framhjá hverri hindrun.
Veiðihárin eru ómissandi á næturveiðum.
Ef þau eru óskemmd heppnast kettinum
undantekningarlaust dauðabitið sem er
honum eiginlegt, jafnvel í svartamyrkri.
Skemmtist þetta fínlega líffæri getur
kötturinn aðeins stundað veiðar í björtu.
Í myrkri glefsar hann útí loftið og bítur
bráðina á vitlausan stað. Veiðihárin eru
greinilega nokkurs konar ratsjá sem nemur
útlínur fórnarlambsins á örskotsstund,
þó sjónin gagnist ekki, og vísar
vígtönnunum á réttann stað í hnakkanum.
Það er engu líkara en endar veiðiháranna
geti beinlínis “kortlagt” útlínur
fórnarlambsins í smæstu atriðum og sent
boð til heilans um hvað beri að gera næst.
Veiðihárin vaxa út úr vefnum ofan við
efri vörina og rætur þeirra liggja þrisvar
sinnum dýpra en annarra hára. Ræturnar
tengjast fjölda taugaenda sem senda á
augabragði hverja skynjun áfram til heilans.