Með þessari grein vil ég umfram allt hvetja aðra til að senda inn greinar um sama eða svipað efni.

Bestu jazzdiskarnir/jazzplöturnar
Ég hef hlustað á jazz af og til síðan um 1960, en vinur minn kynnti mig fyrir jazzinum þegar hann eignaðist einhverjar plötur. Saman fórum við á stúfana á ýmis söfn og fengum lánaðar plötur og tókum upp á segulbönd (reel-to-reel).
Ég er ekki sérfræðingur í jazzmúsík, en leyfi mér samt að setja fram eftirfarandi.
Þetta var mikill uppgangstími í jazzinum og miklar breytingar höfðu átt sér stað. Bill Evans hafði byrjað með nýjan tón, sem kallaður var “Campus Jazz”, eða háskólajazz, eins og sjá má af einum plötutitli Dave Brubecks, “Jazz Goes to College”. Hann einkenndist af heldur meiri tilraunastarfsemi en áður hafði tíðkast og var eins konar millibil milli beebops og modern eða advance jazz. Þetta voru lítil bönd, sem fólk hlustaði frekar á heldur en að dansa eftir.
Ég var til að byrja með ekki hrifinn af nema því einfaldasta og því sem var líkast því sem ég hafði mótast af, klassík og dægurlög þess tíma (sem sum hver voru alveg skelfileg, reyndar).

Lag númer 1

Eitt það fyrsta sem heillaði mig var platan “Brubeck Time” með Dave Brubeck, þar sem hann teflir fram Paul Desmond. Auk þess leika með Bob Bates á bassa og Joe Dodge á trommur. Þessa plötu átti ég lengi á bandi í slakri upptöku, sem ég slátraði löngu síðar, eftir að ég náði í “Interchanges '54”, sem innihélt öll lögin af “Brubeck Time” og 4 “bestu” lögin af “Jazz: Red Hot and Cool”. Þetta er ekki góð blanda. “Brubeck Time” er ein heilsteyptasta plata sem ég hef heyrt. Svona eins og svíta. Þar fellur allt saman. Platan virkar einhvern veginn eins og eitt tónverk, þó að lögin séu ólík. En lögin fjögur af JRH&C passa ekki inn í þá heild. Ágætis lög útaf fyrir sig, en bara eiga ekki heima með hinum.

Upphafslagið á “Brubeck Time” og “Interchanges '54” er “Audrey”. Þeir félagarnir Brubeck og Desmond sömdu það til heiðurs Audrey Hepburn, sem þá var að skjótast upp á stjörnuhimin kvikmyndaleikkvenna. Sagan segir að Brubeck hafi ýtt Desmond út í að semja lag en hann hafi ekki treyst sér í það fyrr en Brubeck hafi gefið honum grunnlínuna. En hvílík fegurð! “Audrey” er enn mitt uppáhalds jazz-lag, meðan “Take Five” og önnur sem hafa orðið vinsæl, hafa fallið. “Audrey” er seiðandi blúsballaða, sem er frekar spuni en lag. En mitt lag númer eitt.

Hin lögin á “Brubeck Time” eru hreinar perlur.
* “Jeepers Creepers” (Mercer/Warren),
* “Pennies from Heaven” (Burke/Johnston),
* “Why Do I Love You?” (Kern/Hammerstein), * “Stompin' for Mili” (Brubeck/Desmond – samið um kvikmyndatökumann, sem tók af þeim stuttmynd),
* “Keepin' Out of Mischief Now” (Razaf/Waller),
* “A Fine Romance” (Fields/Kern) og
* “Brother, Can You Spare a Dime?” (Harburg/Gorney).

Samt sem áður tel ég þessi lög ekki beint til uppáhaldslaga vegna þess að ég hlusta á þau sem heild af plötunni fremur en sem einstök lög. Það er sem sé þessi plata sem er uppáhaldsplatan mín númer eitt.

Lög númer 2 og 3 / fyrsta platan mín.

Fyrstu jazzplötuna mína keypti ég sumarið 1962 eða 3, á Akureyri. Þar var lítið úrval og fyrir valinu varð “George Russell Sextet In KC” (1962). Þarna var á ferðinni verulega “avant guard” jazz fyrir mín ungu eyru. Það tók mig mörg ár að virkilega “fíla” plötuna. En nú er hún ein af mínum uppáhaldsplötum. Þarna eru lög eins og “Sandu” (Clifford Brown) og hið sérlega skemmtilega “War gewesen” (Dave Baker). Ég verð að segja að bæði eru í miklu uppáhaldi hjá mér – í þessari útsetningu. Ég hef ekki heyrt aðrar útsetningar af þessum lögum.
Geroge Russell er þekktur fyrir rit sitt “The Lydian Chromatic Concept of Tonal Organization” (Concept Publishing, New York, NY), sem var fyrst gefið út 1953, en er nú í útgáfu 4 (2001) (sjá: http://www.lydianchromaticconcept.com/main.html og http://www.georgerussell.com/) en þekktasta verkið í dag undir þeim áhrifum er “Kind of Blue” eftir Miles Davis. LCC, eins og ritið hefur verið stuttnefnt, hefur verið talið eina ritið, sem hefur haft veruleg áhrif á þróun jazztónlistar.
“Sandu” og “War gewesen” (“Hafði verið” – þýska) eru númer 2 og 3 hjá mér.

Lag númer 4.

Númer 4 verður að teljast “One Note Samba”, sem hefur margir hafa leikið, en fáir eins og Modern Jazz Quartet með gestagítaristanum Laurindo Almeida. Með stórkostlegum inngangi tekst honum að magna þetta einfalda lag slíkum göldrum að maður fær gæsahúð. Milt Jackson keyrir það síðan upp á víbrafóninn og þá fara fjaðrirnar að vaxa.

Lag númer 5.

Númer 5 verð ég að velja af hinni stórgóðu plötu “Sounds of Synanon”, sem þeir Arnold Ross, Joe heitinn Pass (eða Passaloqua, eins og upprunalegt eftirnafn hans var), Dave Allan, Greg Dykes, Ronald Clark, Bill Crawford og Candy Latson gerðu 1961 eða 2, en þeir voru þá vistmenn á meðferðarheimili fyrir fíkniefnaneytendur, sem kallaðist Synanon House. Gerð þessarar plötu var þáttur í meðferðinni, og víst er að allir komu þeir út.
Platan er þrungin af sköpunarþrá en einnig af söknuði og þrá, og skín það í gegnum öll lögin, en þau eru öll eftir meðlimi þessarar “hljómsveitar”:
1. C. E. D. (Pass—Ross), tileinkað stofnanda Synanon, Charles E. “Chuck” Dedrich.
2. Aaron's Song (Dave Allan)
3. Stay Loose (Arnold Ross)
4. Projections (Greg Dykes)
5. Hang Tough (Joe Pass)
6. Self-Image (Dave Allan)
7. Last Call for Coffee (Arnold Ross).

Af þessum frábæru lögum finnst mér “Last Call for Coffe” svo gott að það skipar 5. sætið hjá mér, en þetta fjöruga lag vekur vonir um bjarta framtíð, eftir að hin lögin hafa meira fjallað um trega, baráttu og eftirsjá. Reyndar merkilegt nafn, þar sem það mun alltaf hafa verið standandi kaffi á könnunni á þessu heimili.

Þessa plötu náðum við vinirnir í að mig minnir á bókasafni Bandarísku menningarstofnunarinnar, sem var með útibú á Akureyri, og tókum upp á segulbandsspólu. Mitt eintak varð fyrir skaða síðar og var ég búinn að leita að plötunni árum saman, þegar ég náði í eintak á eBay, en það eintak var áritað af öllum meðlimum bandsins.

Lag númer 6

Númer 6 er líklega “It Ain't Necessarily So” með Annie Sellick af plötunni “No Greater Thrill”. Með meðspilurum sínum tekst henni að lyfta þessu þekkta lagi Gershwins í hærri hæðir en ég hef áður heyrt.

Annars er ég ekki mikið fyrir sunginn jazz, en Annie er einstök að mínu mati og verður gaman að fylgjast með ferli hennar í framtíðinni. Ég spái því að hún eigi eftir að ná heimsfrægð.

Lag númer 7

Númer 7 er “Autumn Leaves” (Kosma/Mercer/Prevert) með Oscar Peterson Trio, “Live at the Tivoli Gardens, Copenhagen” (1965), en sú plata er líkast til ein af topp fimm plötunum mínum. Hún byrjar á örstuttu lagi, fullu af húmor, “Children's Tune”. Síðan fylgja:
* “Younger Than Springtime”,
* “Misty” (hið fræga, sem síðar varð í myndinni “Play Misty for Me”),
* “Django”, sem tileinkað er Jean Babtiste “Django” Reinhardt,
* “The Smudge”,
* “Autumn Leaves”,
* “Moanin'” og
* “Lovers' Promenade”.

Lag númer 8

Lag númer 8 er “Quiet Nights of Quiet Stars (Corcovado)” eftir Jobim—Lees með Oscar Peterson Trio af plötunni “We Get Requests”.

Lag númer 9

Númer 9 er svo “O Pato” með Sergio Mendez og Brazil '66 af samnefndri plötu. Þarna er á ferðinni seiðandi brasilísk samba-sveifla. Lagið á ég líka með Stan Getz og Charlie Byrd á plötunni “Jazz Samba”. Á þeirri plötu er einig “One Note Samba” í frábærum flutningi.

Númer 10.

Númer 10 er “Don't Explain” eftir Billy Holliday / Herzog af plötunni “Byrd's Word”, með Charlie Byrd og hljómsveit, en lagið syngur konan hans, Ginny Byrd á svo einfaldan en áhrifaríkan og tregafullan hátt við undirleik eiginmanns síns á klassískan gítar.

Þessi plata er ein af þessum áhrifaríku plötum “byrjendanna” (meint á jákvæðan hátt í meiningunni pioneers). Hún er full af eftirvæntingu og tilraunagleði. Charlie Byrd er að prófa sig áfram með hjálp vina sinna, og eru upptökurnar nokkuð missterkar, og platan þannig tæknilega ófullkomin. En innihaldið og krafturinn sem býr í músíkinni er meiri en maður upplifir á flestum diskum/plötum. Þrátt fyrir ýmsu sé grautað saman verður platan á einhvern dularfullan hátt heilsteypt.

Hér er að finna eitt af fáum verkum þar sem við heyrum fagott sóló í jazzi, en það er reyndar líka að heyra á næstu plötu á eftir, “Byrd in the Wind”, Charlie Byrd Trio and Woodwinds.

Hin lögin á topp 10

Það eru reyndar miklu fleiri lög á topp 10 hjá mér, en maður verður víst að enda við töluna tíu.

Ég hefði vilja koma að lögum með Thelonius Monk, sem á plötunni “Straight, No Chaser” flytur sálmalagið “This Is My Story, This Is My Song” (“Heilaga vissa, hirðirinn minn”) á svo skemmtilega naívískan hátt að hrein unun er.

Þá eru eftir fleiri lög með Peterson, Brubeck, Getz, að ógleymdum “Vikivaka” eftir Jón Múla Árnason og svo náttúrulega “Brandenburg Gate” eftir Brubeck af plötunni “Brandenburg Gate Revisited”. Verkið er eiginlega stutt Jazz-synfónía og ákaflega sterk að mínu mati.

…Og svo má lengi telja meðan ekki er farið yfir töluna 10. ;-)

HeidisJazz
Bassinn er hinn framlengdi armur laganna.