Eva Cassidy Eva Cassidy fæddist 2. febrúar 1963 í Maryland, Oxon Hill. Listahæfileikar hennar komu snemma í ljós en hún byrjaði að syngja um leið og hún byrjaði að tala og teikna þegar hún var tveggja ára.
Eva ólst upp í mikilli tónlistarfjölskyldu og faðir hennar tók snemma eftir því hversu hæfileikaríkur tónlistarmaður hún var. Hann kenndi henni að spila á gítar þegar hún var 9 ára og þá var ekki aftur snúið. Það hvatti hann til að stofna lítið fjölskylduband þar sem bróðir Evu, Dan Cassidy var einnig fær tónlistarmaður. Áhugi Evu á tónlist kom þó ekki fyrir tilstilli föður hennar heldur var það ástríða hennar frá upphafi.
Í skóla var Eva í tónlist og listum þegar hún gat. Henni langaði að verða listamaður og tónlistin var því til hliðar fyrst um sinn. Á unglingsárunum söng hún í hljómsveit með bandi sem kallaðist Stonehenge ásamt því að vera heilt sumar að koma fram með bróður hennar Dan í kántríbandi. Um helgar fór hún svo á söfn og lærði meira um uppáhalds listamennina sína. Eva var einnig mikið náttúrubarn og fór reglulega í hjólreiðatúra og tjaldaði í Ohio Canal. Hún bar mikla virðingu fyrir lífinu og náttúrunni.

Árið 1986 var Eva beðin um að syngja inn á plötu hjá rokkhljómsveit og var það pródúserinn Chris Biondo sem hafði heyrt að hún hefði ótrúlega hæfileika. Næstu átta mánuðina var Eva í upptökuverinu hans að syngja, ekki með feril í huga, heldur að æfa sig og hafa gaman af. 1990 var fyrsta “Evu Cassidy” hljómsveitin skipuð og fór að koma fram. Eva var þá feimin og átti í fyrstu mjög erfitt með að vera á sviði. Þegar hún áttaði sig á því hve mikið hún gaf fólkinu með tónlistinni og rödd sinni fór hún ósjálfrátt að gefa meira af sér.
Eftir að hafa spilað á blús- og djassklúbbnum fræga Blues Alley 1991 við miklar vinsældir spilaði Chris Biondo upptökur með Evu fyrir Chuck Brown sem heillaðist strax af söngkonunni. Árið 1992 tóku þau upp blúsdiskinn The other side og 1993 fóru þau að koma fram saman, þar á meðal á Blues Alley. Þessar uppákomur voru eitt af því sem Eva mat mikils og var þakklát fyrir.
Seinna árið 1993 þurfti Eva að fara í aðgerð út af húðfrumubreytingum. Hún gafst ekki upp þrátt fyrir veikindin og tók upp plötu árið 1994 og kom svo aftur fram á Blues Alley árið 1996. Í þetta skiptið voru tónleikarnir teknir upp og settir á geislaplötu sem varð síðar lýst sem einni bestu “live” plötu áratugarins í Bandaríkjunum. Ef maður hlustar á plötuna heyrir maður auðveldlega ástæðuna, hún er einfaldlega sungin á ótrúlegan og snilldarlegan hátt, svo ekki sé minnst á frábæran óaðfinnanlegan hljóðfæraleik.
Um sumarið 1996 veiktist Eva mikið. Hún hafði verið að vinna við ýmis verkefni tengd myndlist en þurfti að hætta vegna veikindanna. Hún var með illkynja krabbamein og var henni greint frá að hún ætti 3-5 mánuði eftir lifað. Í september voru haldnir tónleikar Evu til heiðurs þar sem mismunandi listamenn komu fram ásamt Evy sjálfri. Það var í síðasta skipti sem hún söng fyrir almenning. Eva Cassidy lést 2. nóvember 1996, aðeins 33 ára gömul.

Eva Cassidy var með rödd sem þú heyrir í útvarpinu og vilt samstundis vita meira um. Hún gefur sig í hverju einasta lagi með frábærri túlkun og röddinni fylgir mikil tilfinning. Eva var einnig einstök persóna, ávallt niðri á jörðinni, ávallt hógvær og hafði í raun ekki hugmynd um það hversu góður tónlistarmaður hún var.
Flest af því sem til er af upptökum með henni er gefið út eftir lát hennar enda ætlaði hún aldrei að græða á tónlistinni. Hún söng flestar gerðir tónlistar, mest blús, djass, þjóðlagatónlist og svo popptónlist. Í mörgum lögum leitar hún í gamla listamenn eins og Billie Holiday og fleiri dívur en alltaf hljóma þau eins og ný. Eva Cassidy þurfti ekki stórt band bakvið sig, eða miklar stúdíóuppfærslur. Eina sem þurfti var rödd hennar og gítarinn, það gerir tónlistarmenn sanna líkt og Eva Cassidy var.
www.rosin.blogdrive.com