Tom Waits og jazzinn Það eru fáir sem kannast ekki við sandpappírsröddina og djöfullegan kabarett hljóminn, sem er svolítið eins og samblanda af Kurt Weill og Marilyn Manson á stundum. Tom Waits er ekki fyrir alla. Síðustu tvo áratugina hefur hann skapað alveg nýjan hljóðheim, einkennandi fyrir verk hans. Hann heldur því fram að hann heyri öðruvísi en aðrir og notar hvað sem honum dettur í hug á hljómplötum sínum til að skapa ótrúlegustu hljóð, allt frá húsgögnum upp í gjallarhorn, auk hefðbundnari hljóðfæra.

Nei, Tom Waits er alls ekki fyrir alla.

En það vita ekki allir af því að Waits hóf feril sinn sem jazz- og folktónlistarmaður.

Thomas Alan Waits fæddist 7. desember árið 1949 í Californiu fylki Bandaríkjanna. Þegar hann var að alast upp tröllriðu beat listamenn á borð við Jack Kerouac, Allen Ginsberg, Charles Bukowsky, grínistann Lord Buckley og fleiri heimsmynd Bandaríkjamanna, og höfðu mikil áhrif á Tom litla. Hann var alla tíð mjög músíkalskur, enda foreldrar hans miklir tónlistaráhugamenn. Snemma ákvað hann að leggja tónlistina fyrir sig, og byrjaði á því að læra á trompett. Hann entist þó ekki lengi í því, en fór að læra á píanó. Píanóið sem hann notaðist við var afgamalt og handónýtt. Sagan segir að einungist svörtu nóturnar hafi virkað, og hann hafi eytt nokkrum árum í að spila uppáhalds lögin sín bara á þær.

Waits samdi fullt af lögum, og fór að koma fram á skuggalegum krám í Los Angeles og San Diego í kringum tvítugt. Beatnikkarnir voru enn að miklu leyti við lýði á þessum stöðum, svo Waits passaði vel í hópinn. Hann fór snemma að yrkja um drykkju, reykingar og annan ólifnað. Hann fékk umboðsmann, Herb Cohen, sem var m.a. umboðsmaður Frank Zappa.

Fyrsta platan, Closing Time, kom út hjá Asylum Records árið 1973, þegar Waits var 23ja ára gamall. Hún samanstóð af rólegum, jazzy folklögum, sem sum hver hafa öðlast klassískan staðal (þeirra á meðal Ol’ 55, sem Eagles gerðu ódauðlegt í túlkun sinni, og I Hope That I Don’t Fall in Love With You, sem margir kannast eflaust við í flutningi Emiliönu Torrini).

Það var þó fyrst á annarri plötunni, The Heart of Saturday Night (1974), sem Waits fór að stunda jazz af alvöru. Þá ákváðu Waits og Cohen að fá hinn margfræga jazzpródúsant Bones Howe til liðs við sig. Waits og Howe ákváðu að búa til nokkurs konar concept plötu, gera meira úr fyllibyttu, beatnikka ímyndinni sem Waits var hægt og rólega að skapa sér. Á framhlið plötunnar má sjá teikningu af þreyttum og ringluðum Waits koma út af pöbb sem er að loka, og gleðikonu að reyna við hann. Þetta var andrúmsloftið sem þeir vildu skapa.

Þeir fengu til liðs við sig stúdíólistamanninn Michael Melvoin, sem hafði útsett plötur fyrir ótal stjörnur (t.d. Fifth Dimention). Melvoin hafði aldrei áður heyrt um Tom Waits, en eftir að heyra nokkur lög var hann stórhrifinn, sérstaklega af textunum, sem hann líkti við verk stóru beat skáldanna. Auk þess fannst honum tónlistin, sem minnti mjög á grasrótar jazztónlist beat tímabilsins, mjög flott og eiga vel við viðfangsefnið. Hann var því ekki lengi að slá til.

Afraksturinn var einstakur. The Heart of Saturday Night stendur Closing Time mun framar bæði í hljómgæðum, útsetningum og í mörgum tilfellum tónsmíðum. Hér rekur hvert snilldarverkið það næsta, og útkoman er ótrúlega heilleg og nær fullkomlega þessu beatnikka, kráarandrúmslofti sem þeir sóttust eftir.

Árið 1975 stakk Herb Cohen upp á því við Waits að hann gæfi út tónleikaplötu, þar sem hann gerði það jafnan svo gott á tónleikum, og væri í raun og veru miklu meiri live maður en nokkru sinni stúdíólistamaður (þetta átti svo auðvitað eftir að breytast, þegar hann fór að sleppa fram af sér beislinu í hljóðverinu). Waits var ekki ýkja hrifinn af hugmyndinni í fyrstu, en samþykkti að lokum, þó með því skilyrði að platan samanstæði einungis af nýju efni.

Bones Howe var mjög spenntur yfir verkefninu, og vissi nákvæmlega hvernig hann vildi gera það. Hann hafði ekki áhuga á að taka plötuna upp í einhverjum klúbbi, heldur vildi hann færa klúbbinn inn í stúdíóið. Þeir slógu upp sviði í horninu og röðuðu upp borðum og stólum, buðu fullt af fólki og gáfu því ókjör af bjór. Jazzgrúppa var sett saman utan um Waits, þar sem Michael Melvoin fór fremstur í flokki, og svo var ýtt á “record”. Útkoman, Nighthawks at the Diner, er umdeild. Mörgum finnst þetta versta plata Waits, en aðrir halda mikið upp á hana. Það er að minnsta kosti víst að platan hljómar ekkert eins og fyrri plöturnar tvær. Hún er auðvitað mun hrárri, enda í fyrsta sinn sem engir strengir hljóma undir til að mýkja lögin. Auk þess er mun meira um spuna og ljóðalestur, sem hafði ekki þekkst áður en hann átti eftir að leika sér meira með seinna.

Þegar Nighthawks at the Diner var tekin upp var Waits búinn að vera að spila nánast á hverju kvöldi í nokkuð langan tíma, og var auk þess búinn að drekka ansi stíft. Og hér heyrum við í fyrsta sinn afraksturinn: Ótrúlega grófa rödd, sem hljómar næstum eins og rámur hundur. Reyndar öðlaðist Waits þessa rödd því hann var alltaf svo ósáttur við eigin rödd sem barn, og byrjaði því að herma eftir frænda sínum, Vernon, sem hann átti svo eftir að gera ódauðlegan í lagi sínu, Cemetery Polka.

Nighthawks at the Diner er kannski sú plata Waits sem sækir hvað mest áhrif frá beat kynslóðinni. Textarnir minna mjög á Charles Bukowsky og Jack Kerouac, og lögin eru með betri lounge jazzi sem ég hef heyrt.

Svo var komið að hápunktinum. Árið 1976 fór Waits enn á ný inn í stúdíó með Bones Howe, og í þetta sinn má segja að hljóðheimurinn hafi náð fullkomnun. Yrkisefnið var enn í anda beat kynslóðarinnar, enn gegnsósa af viskýi og allt úti í nikótínblettum, en þó miklu dýpra en áður. Waits hafði áttað sig á því að undirheimarnir höfðu líka sínar skuggahliðar, og hann vildi ekki að fólk héldi að hann væri bara einhver róni. Þess vegna er þessi plata töluvert myrkari en þær fyrri, dregur upp neikvæðari mynd af fyllibyttunni en áður.

Platan var tekin upp á svipaðan hátt og Nighthawks at the Diner, nema nú voru engir áhorfendur. En öll var tónlistin tekin upp beint inn á tveggja rása tæki. Nú voru útsetningarnar margar hverjar flóknari, en þó var ekki eins fallegur hljómur eins og á fyrstu tveimur plötunum. Útkoman var Small Change, fyrsta platan hans sem sló í gegn. Nú var Waits orðinn cult listamaður með stóran áheyrendahóp (sem átti þó fyrst eftir að verða eitthvað að viti þegar hann fór, í kjölfarið á plötunni, að spila í Evrópu og Asíu).

Small Change er lounge jazz plata, með örlitlu folk ívafi, og er að margra mati langbesta plata Tom Waits.

Næstu tvær plötur Waits voru svo í mjög svipuðum dúr, en náðu aldrei sama fluginu. Foreign Affairs kom út árið 1977, og innihélt mörg ágætis lög, þ.á.m. dúettinn I Never Talk to Strangers með Bette Midler og Burma Shave, en hún er samt ekkert stórmerkileg, nema ef vera skyldi fyrir þær sakir að þarna vann hann í fyrsta sinn með bassaleikaranum Greg Cohen, sem vann með honum alla tíð síðan, en lést því miður fyrir skemmstu í bílslysi.

Blue Valentine kom út 1978, og þótt hún væri reyndar mun betri en Foreign Affairs fellur hún samt í skuggann af Small Change, þar sem Waits er enn svolítið á svipuðum nótum.

Eftir Blue Valentine tók Waits sér smá pásu frá tónleikaferðum og upptökum. Hann var búinn að vera fastur í sömu rútínunni í meira en fimm ár, og það var farið að taka sinn toll. Þannig að þegar honum bauðst að semja tónlist fyrir kvikmynd Francis Fords Coppolas, One From the Heart, tók hann því fegins hendi.

Nú tók við margra mánaða vinna, allt öðru vísi en hann hafði nokkru sinni fengist við. Nú vann Waits frá níu til fimm inni á skrifstofu í kvikmyndaveri, þar sem komið hafði verið fyrir píanói. Hann horfði á það sem Coppola var búinn að taka, og samdi svo tónlist. En svo dróst verkefnið og dróst, og Waits varð óþreyjufullur.

Hann ákvað að taka upp plötu fyrir sjálfan sig. Hann tók sér smá frí frá One From the Heart, og flutti inn í hljóðverið. Þar vann hann að lögunum á kvöldin og nóttunni og svo mætti hljómsveitin um morguninn og þá var tekið upp.

Afraksturinn varð allt öðruvísi en nokkur önnur plata sem hann hafði áður gefið út. Jazzinn vék að mestu fyrir blús, fyrir utan nokkur lounge númer, sem voru þó lítið eitt harðari en áður hafði heyrst á Tom Waits plötu. Platan hlaut nafnið Heartattack and Vine og kom út árið 1980. Waits fór ekki í tónleikaferð eftir útgáfu plötunnar, heldur hélt áfram að vinna við One From the Heart. Þó dró enn meir til tíðinda þegar Waits giftist Kathleen Patriciu Brennan, sem hann kynntist við vinnu sína við One From the Heart. Þau giftust skömmu eftir útgáfu Heartattack and Vine, en á plötunni er einmitt að finna ástaróð til Kathleen, sem ber heitið Jersey Girl.

Waits hélt ótrauður áfram vinnu sinni við One From the Heart, og nú voru tónsmíðarnar að mestu tilbúnar og kominn tími á upptökur. Coppola langaði að gera ástarsögu þar sem sagan væri sögð í gegnum tónlist að hluta. Nokkurn vegin eins og kórinn í grískum harmleik, nema þetta átti að vera jazz. Waits átti að syngja karlröddina, en þá vantaði kvenrödd. Upphaflega var hugmyndin að fá Bette Midler, en nú var hún að meika það í leiklistinni, og vildi ekki syngja í mynd sem hún léki ekki í. Þá var kántrýsöngkonan Crystal Gayle fengin til að syngja, og gerir það af stakri snilld. Tónlistin í myndinni er mjög frábrugðin fyrri verkum Waits, en alls ekki lakari. Hér er kannski að finna hreinasta jazzinn, en mörgum hefur reyndar þótt hún of rjómakennd og fínpússuð. Plata með tónlistinni var gefin út árið 1982.

Nú var komið að kaflaskilum í lífi Waits. Þegar hann og Kathleen fóru að fara yfir fjármálin hans kom í ljós að hann átti í rauninni ekki neitt. Herb Cohen, umboðsmaðurinn hans, hafði samið af honum öllum lögin (yfir á sjálfan sig) og þar með var Waits gjörsamleg réttlaus, og átti engin stefgjöld eða neitt. Waits var ekki lengi að reka Cohen, og ákvað að pródúsera næstu plötu sjálfur. Og hér sagði hann skilið við jazzinn. Næsta plata, Swordfishtrombones, var ólík öllu sem hafði heyrst áður. Hér fór hljóðheimurinn sem Waits er kannski frægastur fyrir að verða til. Þegar hann var búinn að taka hana upp og fór með hana til Asylum sagði útgefandinn: “Þú átt eftir að missa alla aðdáendurna sem þú ert með fyrir og ekki fá neina nýja.”

Þá sagði Waits skilið við Asylum og flutti sig yfir til Island, sem var aðal tilraunaútgáfan á þeim tíma. Island hafði verið að gefa út listamenn eins og Bob Marley og U2, og hér fékk Waits taumlaust frelsi.

Hér ætti umfjöllun minni um Waits og jazzinn kannski að ljúka, en sagan er ekki alveg búin.

Árið 1998 skipti Waits aftur um útgefendur. Hann gaf út sex plötur á vegum Island, sem eru flestar eins konar sambland þjóðlagarokks og kabarett tónlistar, og raunar var Mule Variations, fyrsta platan sem kom út hjá nýju útgefendunum, pönkútgáfunni Epitaph, nokkuð svipuð. En svo kom Alice.

Árið 2002 gaf Waits út tvær plötur samtímis, báðar með tónlist sem hann hafði samið fyrir leiksýningar leikstjórans Roberts Wilsons. Blood Money er mjög myrk og hörð plata, svolítið svipuð og Black Rider, sem hafði einnig verið samin fyrir sýningu Wilsons. Blood Money innihélt tónlist sem hafði verið samin fyrir útgáfu Wilsons á Woyzeck.

Alice er mjög svo dimm og drungaleg útgáfa af Alice in Wonderland, þar sem mikið er gert úr óeðlilegum áhuga höfundar ævintýrisins, Lewis Carroll, á Alice, dóttur besta vinar síns.

Tónlistin í Alice er ekkert lík því sem Waits var að spila áður en hann sagði skilið við Asylum útgáfuna, en á heldur ekkert skylt við Island tónlistina. Hér bregður við alveg nýjan tón. Jazzinn er kominn aftur, en hér er hann meira að leika sér með jazzáhrif frá þriðja og fjórða áratug tuttugustu aldarinnar, á meðan Asylum árin einkenndust frekar af áhrifum bebops og annarar tónlistar eftirstríðsáranna. Reyndar er enn áberandi kabarett hljómur á plötunni, en manni líður samt svolítið eins og maður sé staddur á skugglegum jazzstað í kreppunni þegar maður hlustar á Alice. Röddin er líka öðruvísi. Waits hefur elst, og nú má eiginlega segja að röddin sé fyrst orðin náttúrulega gróf. Hann reynir í fæstum lögunum virkilega á röddina, þannig að útkoman verður oftast drungaleg, sorgleg og mjög falleg.

Mér finnst Waits misskilinn listamaður. Margir komast aldrei framhjá grófum hljómi og rámri röddu, en handan þessa liggur heimur fagurra tóna og ótrúlegrar ljóðlistar. Og þeir sem geta ekki vanist röddinni ættu að geta hlustað á fyrstu plöturnar, Closing Time og The Heart of Satuday Night, og jafnvel One From the Heart. Hvað sem öðru líður hvet ég alla jazzáhugamenn að kynna sér eldri plötur Waits, og endilega líka þá nýjustu, Alice.

Svo er í gangi orðrómur um að ný plata sé á leiðinni frá meistaranum, og aldrei að vita nema Alice hljómurinn haldi áfram þar. Vonum amk það besta!

Ég vona að þetta hafi varpað einhverju ljósi á jazz í verkum Waits, og kannski vakið einhvern áhuga á manninum hjá forföllnum jazzáhugamönnum.

Takk takk.

Eyvindur Karlsson
We're chained to the world and we all gotta pull!