Klifurhúsið fyrir áhugasama klifrara og aðra.
fékk þetta í pósti og finnst mikilvægt að aðrir fái infóið líka enda merkilegur áfangi í nánd -innanhúsklifuraðstaða!!
gleðilegt klifurár ofurhugarar.
pínkuklifur-hún.



KLIFURHÚSIÐ – NÝ AÐSTAÐA FYRIR INNANHÚSKLIFUR

Frá því í haust hefur ÍSALP með forkólfana Halldór Kvaran og Stefán Pál í
fararbroddi, unnið markvisst að því að koma innanhússklifri á
höfuðborgarsvæðinu undir þak á ný.

Þeim hefur tekist að afla styrkja u.þ.b að andvirði einni milljón. Fleiri
styrkir eru í burðarliðnum. Styrkumsóknir hafa einnig verið sendar til hins
opinbera þar sem menn ku vera að melta málið. Slíkt mun víst alltaf taka
nokkurn tíma.

Búið er að finna fyrirtaks húsnæðið að Skútuvogi 1, í sama húsi og
Raftækjaverslun Íslands. Það er 300 m2 með 6 m lofthæð og tiltölulega
ílangt sem hentar vel þar sem veggflöturinn er meiri fyrir vikið. Meistari
Björn Baldursson og nokkrir aðrir klifrarar eru þegar farinn að skipuleggja
klifurveggina.

Í fremsta hluta hússins verður sett milliloft, þar sem afgreiðsla,
búningsklefar, oþh. verður fyrir neðan, en fundaraðstaða að ofan. Í þessa
fundaraðstöðu er hugmyndin að ÍSALP flytji með vorinu. Það hefur þó ekki
verið ákveðið endanlega; Stjórn ÍSALP mun taka afstöðu til þessa á næsta
stjórnarfundi.

Hér er ekki um að ræða endurkomu Vektor, heldur stendur til að stofna nýtt
félag. Það verður ekki í eigu ákveðinna manna heldur verður það rekið líkt
og íþróttafélag. Félagið mun kaupa klifurveggina sem Vektormenn eiga.
Þannig munu þeir nokkru klifrar sem lögðu mikinn kostnað í klifurveggina í
Vektor fá skerf.

Í byrjun janúar verður hafist handa við smíðavinnuna. Nokkrir veggir verða
settir upp strax svo hægt verður að opna staðinn fyrir vana klifrara í
annarri viku janúar. Þeir sem þá strax fá aðgang þurfa að hafa keypt sér
árskort. Formleg opnun verður síðar, líklega einhvern tíman í febrúar.

Svo hægt sé gera húsnæðið sem best úr garði, og til að tryggja reksturinn
fyrsta árið, er nauðsynlegt að sem flestir kaupi sér árskort frá fyrsta
degi. Árskortið kostar 24000 kr. Hægt er verður að skipta greiðslum með
VISA léttgreiðslum.

Til að skrá þig fyrir árskorti geturðu sent póst á hbj@oz.com með
upplýsingum um:
Nafn, Kennitölu, Heimilisfang og hvort þú vilt borga árskortið með einni
greiðslu (með gíróseðli) eða léttgreiðslum.
Skráningarform verður einnig sett upp á heimasíðu ÍSALP innan skamms.

Nú þurfa allir að taka vel við sér svo að hægt sé að koma upp glæsilegri
klifuraðstöðu með langann opnunartíma !!

Stofnfundur Klifurhússins verður haldinn 3.janúar kl. 20:00 í nýja
húsnæðinu að Skútuvogi 1. Allir þeir sem áhuga hafa á innanhússklifri mæti
!!

Vinsamlega sendu þennan póst áfram til annarra klettaklifrara.

- stjórn ÍSALP