Ampop - My Delusions Þessi grein birtist líka á http://www.poppkorn.tk sem er ný tónlistarsíða sem að ég og fleiri höfum byrjað með, erum komin með 10-12 penna sem að munu vera duglegir að skrifa þarna inn plötudóma, umfjallanir um hljómsveitir/tónlistarmenn, tónleikaumfjallanir og fleira skemmtilegt.
Við erum öll 14-16 ára.

Mæli með því að þið kíkið reglulega við á http://www.poppkorn.tk




Ampop
My Delusions
2005


85% / 100% - “Ef að þú átt ekki þessa plötu - skundaðu út í búð strax”

Jólin 2005 fékk ég tvo geisladiska í jólagjöf. Mugison – Mugimama is This Monkey Music og Ampop – My Delusions. Mun kannski gera grein um Mugison diskinum seinna en núna ætla ég að fjalla um Ampop.

Ég setti diskinn beint í tækið og hlustaði. Satt að segja fílaði ég hann ekki. Hæg tónlist og kraftlaus. En svo reyndi ég að gefa disknum annað tækifæri og með hverri sekúndu fílaði ég hann meira og meira og núna er þetta önnur uppáhalds íslensku hljómsveitanna minna, ásamt Sigur Rós.

Svo fyrir einhverju síðan þegar ég var að fara í skólann heyrði ég útvarpsauglýsingu sem var eitthvað á þessa leið: “Ampop, Dikta og Hermigervill spila í Menntaskólanum á Egilsstöðum og Miri hitar upp.” Ekki amalegt það. Fjórar áhugaverðar hljómsveitir. Ampop – ein af mínum uppáhalds, Dikta – hafði aldrei heyrt neitt með þeim en heyrði þó frá öðrum að hún væri geggjuð, Hermigervill – sem ég hafði reyndar aldrei heyrt um og síðast en ekki síst var það post-rokkhljómsveitin Miri sem er skipuð strákum frá Seyðisfirði, Egilsstöðum og Fellabæ sem að sá um upphitun – þvílíkir snillingar! Ég fór glaður í skólann og sagði öllum frá þessum spennandi tónleikum.

Á tónleikunum var þétt setið og Miri byrjuðu með látum, spiluðu þröngskífuna Fallegt Þorp í heild sinni þar sem að mér finnst lagið “Hafðu gætur á mér” vera skemmtilegast. Svo kom Hermigervill fram á sviðið í rauðum latexbúning og hans atriði var með því skemmtilegasta sem ég hef heyrt og séð. Ég var þarna hálf dansandi, hausinn alveg á fullu og ég veit ekki hvað og hvað. Mikil stemmning. Dikta komu fram á sviðið á eftir honum og þeir voru mjög góðir og skiluðu sínu vel. Þá kom það sem allir höfðu beðið eftir, Ampop. Þetta var ógeðslega flott hjá þeim, Jón Geir magnaður, Biggi var einnig góður, þó tóku örugglega allir eftir því að hann horfði aldrei fram, alltaf niður vinstra megin við sig. Spírulegur gaur. Og Kjartan var ekkert síðri en þeir tveir. Ég tók eftir því að allir voru stappandi vinstri fætinum í takt í öllum lögum og þeir voru ekki einir um það.

Aðeins um hljómsveitina Ampop. Þeir hafa gefið út þrjár breiðskífur. “Nature is not a Virgin”, “Made for Market” og þá sem að þessi dómur fjallar um, “My Delusions”. Meðlimirnir eru þrír. Jón Geir sem spilar á trommur, Kjartan sem spilar á píanó/hljómborð og Biggi sem að syngur og spilar á gítar. Textarnir á plötunni fjallar mikið um þunglyndi, mistök, fyrirgefningu og stjórnun. Fyrri tvær plötur Ampop voru hreinræktaðar rafpoppplötur og gengu ekki vel í landann, þrátt fyrir að fá umfjöllun hjá indímiðlum erlendis. Á My Delusions hefur hljómsveitin svo sannarlega breytt um stefnu og gert sig töluvert hlustendavænni og spilar nú lágstemmda popptónlist þó að raftónlistin kraumi undir án þess þó að verða einhverntímann aðalatriðið í lagasmíðunum.

My Delusions er fjörutíu og ein mínúta að lengd og eru ellefu lög á disknum. Helstu einkenni hans eru góðar bakraddir sem að Jón Geir og Kjartan sjá um, auk þess sem að píanóið er eiginlega allt í öllu og er grunnurinn á flestum lögunum sem eru síðan krydduð með skemmtilegum gítarleik, rafrænum hljóðum af ýmsum toga og síðast en ekki síst, frábærum trommuleik. Trommuleikurinn er tær snilld og ég sem trommari dái Jón Geir. Hann spilar ótrúlega skemmtilegar músíkalskar trommur sem einfaldlega breytir lögunum, gerir þau miklu rokkaðari og betri. Frábær trommari, Biggi syngur vel og skýrt – þó með miklum íslenskum hreim sem er bara fallegt og hann er ekki síðri á gítarnum, hæfileikaríkur tónlistarmaður.

En núna aðeins að lögunum. Þessi plata byrjar á kraftmiklu lagi sem heitir Eternal Bliss. Nær athygli manns strax í byrjun og segir manni að nú sé skemmtileg plata í vændum. Þeir syngja allir í þessu og er lagið frekar hratt.

Eftir þetta dýrindislag kemur að “laginu”. Lag ársins. Allir kannast við My Delusions. Spilað reglulega á íslenskum útvarpstöðum og einnig í sjónvarpsuglýsingum. Ég gleymi örugglega seint þegar ég sá það á ‘Rás 2 Rokkar Hringinn’ tónleikunum. Þeir tóku þetta lag á svona helmingi hraðara tempói, miklu háværara og var það ekki síðra en plötu útgáfan. Píanóið er mjög létt og glaðlegt allan tímann og söngurinn kraftmikill og skýr þar sem að íslenski hreimurinn hjá Bigga heyrist vel. Það eru þó mun fleiri hljóðfæri í þessu lagi og þau njóta sín mjög vel, sérstaklega strengjahljóðfærin. Frábært lag.

Svo koma lögin Clown, Don't Let Me Down og Youth. Kraftmikill söngur í Clown á móti rólegum píanó leik með skemmtilegum gítar. Þetta lag er eiginlega andstæðan við Don't Let Me Down. Það er hratt og byrjar á smá rafkafla með trommum. Gítarinn kemur inn með söngnum, sem er lár þessu lagi en þó er þetta mjög skemmtilegt lag og miðkaflinn er kraftmikill og góður. Youth svipar mjög til Clown. Píanóið er mjög rólegt og gítarinn þægilegur. Biggi syngur rólega og ljúft þangað til í miðkaflanum,þá breytist lagið og verður öllu hressara.

Ordinary World er uppáhalds lagið mitt með þeim. Það inniheldur dáleiðandi laglínu sem að helst út allt lagið. Jón Örn Arnarson spilar á trommur í ásamt Jóni Geir.

Svo að lokum koma Weather Report, rólegt lag en þó koma stuttir kraftmiklir kaflar. Precious byrjar rólega með píanó og svo kemur öflugur, kraftmikill kafli sem er samt spilaður á hægu tempói. Þar næst kemur Secrets, versta lagið á disknum og styst, skilur ekki mikið eftir sig. Næst kemur Distance sem er geggjað lag. Blandaðu Weather report, Precious og Clown saman og þá færðu þetta lag. Lokalagið er 3 Hours of daylight. Ég fékk leið á því fljótt vegna mistaka minna þegar ég var að byrja að hlusta á diskinn. Ætlaði að hafa Repeat á disknum en þá hafði ég bara á þessu eina lagi og það spilaðist í þrjá klukkutíma eða svo án þess að ég skipti um lag og þannig fær maður leið á lögum. Söngurinn byrjar rólegur og verður kraftmeiri og kraftmeiri og í lokinn er þess þvílíki kraftur í laginu. Flott lag til að enda góðan disk.

Þessi plata er ein besta íslenska plata síðasta árs og ein sú besta sem ég hef heyrt á ævinni, ef þú átt ekki þessa plötu - skundaðu útí búð strax.

- Sigurður Tómasson