Siberian Husky Siberian Husky var fyrst ræktaður í norð-austur Síberíu af þjóðflokki sem kallaðist Chukchi.
Það var ekki fyrr en í lok 18. aldar sem hann fékk það tegundarheiti sem hann gengur undir í dag.

Siberian Husky hundar komust á spjöld sögunnar þegar þeir fluttu lyf gegn barnaveikisfaraldri til bæjarbúa í afskekktum bæ í Alaska árið 1925. Fræg barnamynd var gerð eftir þeirri för og nefnist hún „Baltó”. Einnig stendur stytta af Husky hundi í Central Park í New York til heiðurs hundunum sem fluttu lyfin.



Almennt um Siberian Husky
Siberian Husky er af meðalstærð, loðinn og með sperrt eyru. Eitt af því sem einkennir Siberian Husky hunda eru augun en allir litir í augum eru leyfilegir og getur annað augað verið brúnt og hitt blátt sem er nokkuð algengt. Rakkar geta verið frá 54-60 cm á herðarkamb og 20–28 kg að þyngd. Tíkurnar geta verið frá 51-56 cm á herðarkamb og 16–23 kg að þyngd.

Þessir hundar eru mjög harðgerðir vinnuhundar, hafa mikið þol, eru fimir, sprækir og óþeytandi. Þeir eru mjög mannelskir, hafa gott lunderni og mikla greind.
Þeir eru miklir vinnuhundar og ef þeim leiðist geta þeir orðið óútreiknanlegir í hegðun. Þess vegna er mikilvægt að þeir fái athygli, hreyfingu og hafi nóg fyrir stafni. Mikilvægt er að þeir taki þátt í starfi og leik annarra fjölskyldumeðlima því þeir kunna því illa að vera skildir útundan.
Siberian Husky eru afar slakir varðhundar líklega vegna þess að þeir tortryggja ekki ókunnuga. Þeir eiga það til að kjassa innbrotsþjófa í stað þess að reka þá á brott.
Þeir geta verið mjög sjálfstæðir og oft nokkuð þrjóskir. Þeir gelta sjaldan miðað við margar norrænar spits-tegundir en eiga það til að ýlfra eins og úlfar.