Einn af mínum kærari vinum nefnist Keli og hann er mikill brandarakall, hann Keli. Ég ætla hér að reyna að lýsa einu af uppistöndum hans, en þau stundaði hann grimmt að gjöra.

Stekkur upp á svið, hristir hendurnar og segir “Umm ,umm, hérna, umm, já.” Svitnar allgreinilega og roðnar aðeins “Umm, hérna hafiði heyrt brandarann um hvað Hafnfirðingar gera þegar verðið er hátt í matvælabúðunum?” fólk þegir flest, sumir flissa “Uh, umm, OK. Afhverju taka Hafnfirðingar stiga með sér út í búð?” lítur hálf vandræðalega yfir salinn og hlær næstum því “AF ÞVÍ AÐ VERÐIÐ ER SVO HÁTT!!!!!!!!!” nær hann að kreista út úr sér meðan hann öskrar af hlátri og missir nærri jafnvægið. Fólk sem sér til fer líka að hlæja og þá hlær hann enn meir. Eftir ca. hálfa til eina mínútu eftir allir aðrir í salnum eru hættir að hlæja, þá er hann farinn að geta andað svona nokkurn veginn eðlilega “Ummm, umm, hérna ég get sagt ykkur annan brandara ” einhver kallar til hans “Já, segð'okkur annan” Keli virðist reyna á sig, stynur smá og gengur fram og aftur sviðið “Umm, hérna hafiði heyrt brandarann um hvað Hafnfirðingar gera þegar verðið er hátt í matvælabúðunum?” einhver kallar til hans “Já, segð'okkur einhvern annan” og aumingja Keli virðist nú alveg vera að springa svo mikið roðnar hann “Ehh, umm, hérna ég skal sýna ykkur luftgítar” og svo fer hann að stökkva um sviðið með ægilegum grettum og dillar sér til og frá. Svo þegar það loks er búið þá byrjar hann aftur að verða vandræðalegur og lítur út fyrir að vera mjög hugsi. Fólk þagnar og enn hugsar Keli. Sumir byrja að hlæja á ný. Svo fer hann að tauta eitthvað með sjálfum sér og einhver kallar til hans “Hvað ertu að segja? Við heyrum ekki í þér.” Og hann Keli kallinn kallar á móti “Ja! kannski áttu bara ekkert að heyra í mér.” og fer svo að hlæja og veltast um á gólfinu og fólk hlær með honum. Svo segir hann “Nú, ég hef einn nýjan brandara hérna í farteskinu sem ég get leyft ykkur að heyra” ræskir sig og lítur spekingslega yfir hópinn “Frændi minn, hann byrjaði í nýrri vinnu fyrir tveimur vikum” keli er farinn að gretta sig pínulítið “Og ég spurði hann hvernig gengi í vinnunni” er byrjaður að hlæja “Og hann sagði bara vel, en” springur núna úr hlátri “En ég er bara ekki búinn að læra á ruslafötuna!!!” Og Keli slær sér á lær og skellihlær og salurinn skiptist þrennt, mestahlutann - fólk sem hlær eins og brjálæðingar, minnihlutann - fólk sem flissar aðeins og svo nokkrar hræður sem störðu út í loftið örugglega að reyna að skilja brandarann. Svo þegar hann náði andanum aftur og var búinn að strjúka tárin af gleraugunum sínum þá sagði hann “Ehh, ég var nú ekki alveg búinn að klára að búa þennan til. Þakka ykkur fyrir áheyrnina.” Og svo fór hann.

Svona tókst þessum horaða krakka að trylla fólk af hlátri kvöld eftir kvöld hálftíma til klukkutíma í senn. Hann er svo sannarlega mikill meistari.