Verslunarmannahelgin gekk án áfalla á Akureyri enda gæsla mikil þar í bæ. Sjallamenn vildu ekki vera minni menn í gæslunni og fengu konu á miðjum aldri til þess að standa í dyrunum. Hún tók hlutverk sitt afar alvarlega og spurði stóra jafnt sem smáa um skilríki. Upp úr miðnætti kom síðan ungur maður inn í andyri og ætlaði að labba beint inn. “Hvert heldur þú að þú sért að fara góði minn,” kveður þá við í kellu. “Nú inn,” svarar stráksi og er greinilega hissa. “Ja þú verður fyrst að borga og síðan vil ég fá að sjá skilríki,” segir sú gamla. “Ég er nú eiginlega að fara að syngja hér í kvöld,” svarar drengurinn sem heitir Hreimur Örn Heimisson. “Og ert þú með skilríki til að sanna það,” þrumar sú gamla og nú voru dyraverðirnir í kringum hana orðnir heldur skrýtnir í framan. Söngvaranum unga tókst eftir mikið stapp að komast inn á staðinn þar sem hann hélt uppi miklu stuði fram eftir nóttu. Sú gamla hélt áfram að vera í dyrunum og spurði um skilríki af enn meiri hörku en áður…..