Saga Hokkífélagsins Jakarnir Er ég horfi um öxl og skoða öll þessi 4 ár og það sem maður hefur afrekað að þá getur maður ekki annað en brosað :)

Þetta byrjaði allt á litlum hjólabrettapalli þar sem ég og nokkrir vinir mínir vorum vanir að hanga á daginn að skauta. Þetta var á sumartíma og ég var 15 ára á þessum tíma.
Svenni, vinur bróðurs míns kom oft að kíkja á okkur og sagði mér
að hann væri að fá skauta, glænýja Mission skauta úr Contact og ætlaði að skauta með okkur á pallinum. Auðvitað vissi ég ekkert
hvaða skautar Mission voru og þegar hann fékk þá að þá byrjaði ég að spurja hann útí þá. Já, já, voru þetta bara ekki hokkískautar
og ég var að pæla hvað hann væri að gera á svoleiðis skautum
á brettapalli… En nóg um það.

Hann fór að segja mér að áður en hann flutti til eyja að þá var hann að æfa íshokkí með Jónas Breka og félögum í Birninum og sagði
að þetta væri rosaleg íþrótt.
Hann spurði mig hvort ég vildi koma spila smá streethokkí og þið eigið örugglega erfitt með að trúa þessu en ég neitaði… í byrjun ;)
Vissi ekkert um hokkí og ég sá bara ekkert annað en pallinn. En það kom að því að maður lét vaða.
Systir mín átti kylfu og hjálm og reif ég það frá henni og byrjaði að skauta til Svenna og var hann búinn að fá tvo aðra til liðs við okkur og hittum við þá.

Jæja, þá var að finna staðsetningu til að spila. Stakk Svenni uppá að spila hjá 11/11 í Goðahrauni og var það bara tilvalið, reyndar vorum við fyrir aftan húsið.
Nældum við okkur í svona körfur frá versluninni til að nota sem mörk og byrjuðum við síðan bara að spila. Og bara vá hvað það var gaman. Þótt að maður kynni ekki neitt með kylfuna að þá skemmti sér maður bara mjög vel! Eftir sonna 3 daga spilun
vissi maður að þetta væri íþróttin sem maður var að leita að. Löngu hættur að æfa allar íþróttir og eina hreyfingin var úti að skauta. En þetta svæði var ekki gott til lengdar þannig að við ákváðum að færa okkur aðeins ofar og fórum að spila á
malbikuðum fótboltavelli hjá Hamarsskóla. Fékk ég 2 aðra gaura sem voru oft að skauta á pallinum með okkur og vorum við vanir að hittast á öllum góðum kvöldum og spila 3 vs 3 í svona 2 mánuði. Ekki leið á löngu að allir fréttu af þessu og áður en við vissum af voru komnir yfir 10 manns að spila með okkur þarna á þessum
litla velli. Tími til að finna stærra plan….

Og var það fundið! Það var stórt og gott plan hjá íþróttamiðstöðinni í eyjum og var forstöðumaðurinn svo góður að leyfa okkur að spila þar. En ég má ekki gleyma
mér í tímanum. Núna erum við komin 1 ári síðar og hópurinn farinn að fjölga í hverri viku. Í mjög góðum veðrum að þá komu krakkar úr öllum bænum með hjálma, skauta og kylfur og spurðu hvort þeir mættu spila með, auðvitað máttu þeir það.
En það var ekki gaman að spila án hlífa til lengdar þannig að fólk var farið að panta hlífar úr Contact í miklu magni. Voru starfsmenn Contacts mjög hissa á því hvað seldist mikið af hokkívörum til VESTMANNAEYJA og fóru að spyrjast fyrir. Og
viti menn, það var komin virk skautamenning. Það komu sá tímar er svæðið var troðið af fólki og beið það í væntingum eftir að spila, vantaði aldrei menn get ég sagt.

En förum aðeins áfram í tímann, og það bara í næsta sumar er Contact menn héldu smá streethokkímót hérna í eyjum og á ég greinina frá því móti og langar að deila henni með ykkur:

——————————————— ——————

Götuhokkí vinsæl íþrótt

Á laugardaginn var haldið götuhokkímót við íþróttamiðstöðina á vegum skautaverslunarinnar Contact í Reykjavík. 3 A-landsliðsmenn í íshokkí sem stunda götuhokkí sem sumaríþrótt komu úr Reykjavík til Eyja öttu kappi við heimamenn. 8 lið skráðu sig til keppni, 6 heimalið og tvö lið úr Reykjavík. Í flokki 13 ára og yngri sigruðu Djöflarnir, en það lið er skipað Birkir Hlynsson, Bjarki Sigurjónsson, Ingólfur Einisson og Valtýr Bjarnason.

Í flokki 13 ára og eldri sigruðu Contact B en það lið var skipað Reykvíkingum. Jónas Breki Magnússon, sem stóð að keppninni fyrir hönd Contact sagði að þessi ferð hafi verið ákveðin vegna gífurlegs áhuga sem þeir fundu hjá Eyjapeyjum um íþróttina. Þeir
voru duglegir að kaupa búnað og kom það á óvart hversu góðir strákarnir voru. Allt að 50-60 krakkar stunda íþróttina hér í Vestmannaeyjum og nú nýverið gaf Vestmannaeyjabær
mörk sem þarf til að geta stundað íþróttina, en enn sem komið er hefur ekki fundist fastur samataður fyrir þau.

———————————————– —————-

Þarna sjáið þið áhugann sem var þegar það eina sem við höfðum var malbikað plan og tvö mörk. En þetta voru góðir tímar sem ég mun aldrei gleyma.

Núna kemur að því leiðinlega er áhuginn fór að dofna vegna veðurs. Kom eitt sumar þar sem kom sjaldan gott veður til að spila og ef það kom gott að þá voru flestir uppteknir þannig að næst á dagskrá var að finna innanhússvæði. Fundum við eitt gott og það inní íþróttamiðstöðinni en ekki gátum við fengið það vegna þess að einungis félög innan ÍBV íþróttafélags eiga rétt á æfingaaðstöðu þarna inni. Þá var talað við íþróttaráðið og fann það handa okkur lítinn sal í Týssheimilinu sem við æfðum okkur í dágóðann tíma þangað til að við ákváðum að stofna félag. Hokkífélagið Jakarnir til að vera nákvæmari. Tók það eitthvað um 6 mánuði eða svo að koma þessu á en það var þess virði! Magnús Jónasson, sem var formaður ÍHÍ á þessum tíma, var búinn að hjálpa okkur mikið og kom hann t.d. á stofnfundinn og stjórnaði honum líka. Mjög góður maður þarna á ferð.

Félagið er með um 40 virka iðkendur og 3 þjálfara, einn yfirþjálfara og tvo aðstoðar. Iðkendum fer fjölgandi með hverjum mánuðinum og eftir dágóðann verða komnir yfir 100 iðkendur með þessu áframhaldi.

En til að gera langa sögu stutta að þá tók allt þetta svona 4 ár að gerast og er núna komið starfandi hokkífélag og það fjórða á Íslandi í Vestmannaeyjum. Áhuginn hérna í eyjum er gríðarlegur og á þetta félag vonandi langa framtíð fyrir höndum. Fyrsta afrek
okkar var að fá búninga sem voru pantaðir frá Finnlandi og ekki má gleyma vígsluleik Egilshallar í Grafarvogi milli okkar og Bjarnarins, en sá leikur endaði 10-4 fyrir
Birninum.

En núna æfum við stíft á línuskautum í íþróttamiðstöðinni og eru að vinna í því að fá svell hingað, bara vera þolinmóðir og halda áfram að stunda þessa frábæru íþrótt. Ekki má gleyma að án ykkar
stuðnings þarna í Reykjavík að þá hefði þetta ekki orðið að veruleika, þakka ykkur kærlega!

Svo hvet ég alla til að skreppa í smá heimsókn til okkar ;)

Kv, Sigurður Einisson - formaður Hokkífélagsins Jakarnir.
x ice.MutaNt