Saga ÍHÍ Merkisins Mér finnst alveg merkilegt hvað margir skoða þessa síðu. Það sagði einn gaur mér að það læsu nánast allir HugaHokkí og ég trúi því núna. Magnús Jónasson, formaður ÍHÍ var að skoða síðuna eftir að fic sendi inn myndina af ÍHÍ merkinu og sendi mér síðan póst með söguna um merkið. Ég spurði hvort ég mætti ekki setja það hingað inn og hann leyfði það.

Merkið er hannað af honum sjálfum en teiknað upp af NIKE, sem var þá opinber styrktaraðili á landsliðsbúningum.

Merki ÍHÍ er byggt á eldi, ís, fálka og himni:

Á Ólympíuleikunum í Antwerpen í Belgíu árið 1920 var í fyrsta skipti keppt í íshokkí á Ólympíuleikum. Fyrstu Ólympíumeistarar heimsins í íshokkí urðu Kanadamenn.
Fyrir hönd Kanada lék lið FÁLKANNA frá Winnipeg, en liðið var þá Kanadameistari í íshokkí.
Í liðinu voru allir leikmenn að einum undanskildum, voru synir íslenskra innflytjenda, og báru íslensk nöfn. Það má því segja að við Íslendingar eigum okkar þátt í því að Kanada vann það frækna afrek að verða fyrstu Ólympíumeistarar heimsins í íshokkí.

Til þess að minnast þessarar sögu og til þess að heiðra minningu leikmmanana og félagsins, ákvað stjórn ÍHÍ að nota íslenska fálkann sem grunn í merki okkar íshokkímanna á Íslandi.
Það var ekki tilviljun að félagið hét Falcon, eða Fálkinn. Nafn félagsins minnti á íslenska fálkann, eitt helsta tákn frelsisbaráttu íslensku þjóðarinnar á seinnihluta 19. aldar.
Þá látum við eldinn undir jöklinum minna á Kanadalaufið (The Maple Leaf), til þess að minna betur á þessi tengsl við Kanada og fyrstu Ólympíumeistarana.

Við vonum að sagan þyki áhugaverð og að Íslendingar haldi á lofti minningu þessara miklu afreksmanna sem áttu sér rætur í íslensku þjóðlífi á einum mestu harðindatímum þjóðarinnar, á síðustu áratugum 19.aldar.
x ice.MutaNt