Sanngirni vs. Hagkvæmni
Að lauslega athuguðu máli þykist ég þess vísari að fólk leggi fyrst og fremst tvö hugtök til grundvallar sinni pólitík. Annarsvegar sanngirni og hinsvegar hagkvæmni.
Þetta kann að vera augljóst og vel þekkt, en til vara nefni ég tvö dæmi. Sanngirni lægi t.d. til grundvallar kröfu um jafnrétti kynjanna á meðan hagkvæmni væri drifkraftur í baráttu fyrir einkavæðingu ríkisfyrirtækja.
Gera má ráð fyrir að allir sameinist um að vilja hámarka bæði sanngirni og hagkvæmni í þjóðfélaginu. Það er síðan þegar þessar tvær háleitu hugsanir fara ekki saman eða eru beinlínis í mótsögn hvor við aðra að sauðirnir skiljast frá höfrunum. Þ.e.a.s. þegar fólk neyðist til að gera upp á milli sanngirninnar eða hagvæmninnar þá kemur í ljós hvort réttlætti eða hagsmunir skipta það mestu máli. Þetta forðast stjórnmálamenn hinsvegar í lengstu lög að horfast í augu við enda vilja þeir helst að allt sé bæði hagkvæmt og sanngjarnt.
Þessi óskhyggja held ég að sé sameiginleg flestum stjórnmálafylkingum en í og með að stefna sú er kennd er við frjálshyggju er dregin svo skýrum dráttum (þó framkvæmdin sé e.t.v. öllu mildari) þá er einfaldast að taka hana sem dæmi.
Fyrsta boðorð frjálshyggjunnar gæti hljómað svona:
“ Einstaklingurinn skal vera frjáls til að gera sem honum sýnist”
Þetta hljómar (og er) mjög sanngjarnt en er svo hróplega óhagkvæmt að annað boðorðið (eignarétturinn) verður að fylgja:
“ Einstaklingurinn skal hafa rétt á því að eiga eignir sem aðrir mega ekki njóta”
Án eignaréttarins er mjög erfitt að skapa verðmæti því enginn sér hag sínum borgið með verðmætasköpun ef allir eiga jafnan rétt til verðmætanna sem skapast. Eignarétturinn ræður bót á þessu og skapar mun hagkvæmari þjóðfélög.
Hinsvegar er eignarétturinn mjög ósanngjarn og það sem verra er að hann takmarkar ákaflega það frelsi einstaklingsins sem sett var fram í fyrsta boðorðinu sem hornsteinn frjálshyggjunnar. Því um leið og einhver slær eign sinni á einhvern hlut þá hefur hann um leið skert frelsi allra annarra um að njóta þess hlutar. Sú frelsisskerðing fjöldans hlýtur að vega meira en sú frelsisskerðing einstaklingsins að fá ekki að eiga hlutinn einn.
Með eignaréttinum hafa frjálshyggjumenn þannig slegið sig í fótinn – nú hafa þeir sjálfir takmarkað svo frelsi einstaklingsins að fyrsta boðorðið um að “einstaklingurinn skal vera frjáls til að gera eins og honum sýnist” virðist dautt og ómerkt.
Sú frelsissvipting sem felst í eignaréttinum kristallast í því að fáar sanngjarnar leiðir til að stofna til eignarréttar finnast. Í nútímanum eru flestar eignir þegar “áttar” af einhverjum og þær ganga svo kaupum og sölum – en aðeins fyrir aðrar eignir. Hvernig stofnað var til eignarréttar í upphafi er ómögulegt að vita en í gegnum tíðina hafa ýmsar missanngjarnar aðferðir verið notaðar. Þannig að þeir sem koma nýir til sögunnar (t.d. fæðast) eftir að upphafseignaskiptinginn varð hafa því lítinn möguleika til að eignast eignir – því eldri kynslóðir eru búnar að “ná” þeim öllum. Gott dæmi um báða þessa annmarka er fiskveiðikvótakerfið sem skaut upp kollinum sem ný eign – sem enginn átti til að byrja með, svo allir en að lokum fáir útvaldir. Stofnun þess eignarréttar virðist í öllu falli ekki hafa verið sérlega sanngjörn.
Þriðja grunnhugmynd frjálshyggjunnar um að hver sé sinnar gæfu smiður og allir hafi jöfn tækifæri stenst augljóslega ekki alltaf. Auðvitað hefur erfingi t.d. Bill Gates meiri tækifæri á að njóta eigna heldur en erfingi minn. Þetta mætti laga með því að “banna” erfðir á eignum og allir byrjuðu jafnir þegar þeir fæddust og allir hefðu þannig jafnt frelsi til að verða ríkir/fátækir. En ætla má að hvati til eignamyndunnar og þar með hagkvæmni myndi minnka ef fólk vissi að börnin sín fengju ekki að njóta góðs af. Aftur eru sanngirni og hagkvæmni í mótsögn.
Annað raunverulegra dæmi eru öll landgæðin í vesturheimi sem núverandi íbúar vesturlanda gera með réttu eða röngu tilkall til og hindrum þannig fólksflutning frá torbyggilegum svæðum þriðja heimsins inn á þau lönd sem “við” erum búin að “ná”. Málflutningur þess eðlis að flóttafólk eigi rétt á að setjast að á vesturlöndum (að banna fólki að setjast að hvar sem það vill hlýtur að teljast með stærri frelsisskerðingum) er sniðugt að skoða í þessu samhengi. Viðurkenni maður slíkan rétt þá felur það sjálfkrafa í sér skerðingu á eignarrétti íslensku þjóðarinnar á Íslandi og fæst því seint viðurkenndur. Og væri þessi krafa flóttafólks tekin gild, þá væri mín krafa um að byggja hús á Arnarhóli jafn gild (þ.e.a.s. mitt frelsi til að byggja þar væri of dýrmætt til að því mætti fórna).
Mín niðurstaða er þannig sú að þegar eignarétturinn og frelsishugtakið eru í mótsögn þá taki menn eignaréttinn yfirleitt framyfir (af hagkvæmnis ástæðum). Því ætti að víxla boðorðum frjálshyggjunnar þannig að númer eitt kæmi varðveisla eignaréttarins og númer tvö kæmi svo frelsið – en það hljómar bara einhvern veginn ekki nógu vel.
Auðvitað sé ég sjálfur nauðsyn þess að varðveita eignaréttinn og að allt tal um algert frelsi er útópía og algerlega óraunhæft. Markmiðið með greininni er frekar að áminna menn um að slá sig ekki til riddara með klisjum sem þeir geta ekki staðið við.
Notkun setninga eins og að “allir menn eiga að vera jafnir” eða “allir menn eiga að vera frjálsir til að gera að sem þeir vilja” í pólítískri orðræðu finnst mér þannig ómerkilegt svindl og prettir, því hvorugtveggja leiðir til svo mikillar óhagkvæmni að aldrei verður hægt að framkvæma slíkar tilraunir.
Á sama hátt verða þeir sem rökræða um þjóðfélagsmál að horfast í augu við að hagkvæmni og sanngirni fara alls ekki alltaf saman - og menn ættu að taka skýrt fram hvort þessara hugtaka stýri þeirra viðhorfum til deiluefnisins. Þannig finnst mér t.d. ósanngjarnt af umhverfisverndarsinnum að beita hagkvæmnisrökum gegn Kárahnjúkavirkjun, því þeir eru fyrst og fremst gegn virkuninni af sanngirnis(umhverfis) ástæðum. Þeir myndu þannig ekki viðurkenna hagkvæmnisrök með virkjuninni ef slík rök væru lögð fram. Sama dæmið með Greenpeace sem fyrst virtust vera gegn hvalveiðum vegna þess að hvalir voru í útrýmingarhættu (einskonar hagkvæmnisrök), en þegar þau rök voru rekin ofan í félagið - þá kom hin raunverulega tilfinningalega (sanngirnis) ástæða í ljós (sem vel má eiga rétt á sér).
meira en nóg að sinni.