BENNY HINN RÚNKAR SÉR.

Greinarkorn þetta er skrifað sem hugleiðingar en ekki áróður. Það er von undirritaðs að þeir sem viðkvæmir eru fyrir trúarrausi virði það og jafnvel sleppi því að lesa neðangreindan texta.
Forsenda og efnistök þessara hugmynda eru að mestu leiti sóttar í guð kristinna manna.


“Það sem hægt er að fullyrða án sannana
er einnig hægt að vísa á bug án sannana.”

- Christopher Hitchens

Ok, byrjum bara á byrjun.

Ég get sagt með ósvertri tungu að það ekkert sé í hinum efnislega heimi sem mögulega væri hægt að skilgreina sem guð. Eða yfirnáttúrulegt fyrirbæri ef því er að skipta. Þetta get ég fullyrt, rétt eins og hinn trúaði, sem situr gegnt mér, getur fullyrt um guðdómlega tilveru. Sönnunarbyrðin liggur því ekki á mér, sem gagnrýndi fullyrðinguna –um guð-, heldur hjá þeim sem henni heldur uppi án nokkurs stuðnings.
Ég neita ekki trú minni ásamt því að krossleggja síðan fingur yfir því að guð minn muni vonandi ekki refsa mér fyrir efasemdir mínar (ekki nema að Pascal hafi haft lög að mæla). Slíkt myndi ekki breyta neinu vegna þess að ég myndi hvort sem væri fá skammir í hattinn, fara til vítis -og allt það sjitt- frá hinum guðunum. Ef guð kristinna manna er hinn eini sanni guð -eins og þeir segjast allir vera- af hverju er hann ekki að breiða út boðskapinn og leiðrétta villutrú, sbr. t.d. Hindúisma, allt í samræmi við fyrsta boðorðið. Ef ég vel vitlausan guð og dýrka hann, fer til himna, fæ þetta frábæra eftirlíf af því að ég var hollur trú minni, þá hlýt ég að sama skapi að fara til helvítis allra hinna guðanna vegna vanrækslu minnar að dýrka þá.


“Við erum öll trúlaus á flest trúarbrögð heims,
sum okkar fara bara einu trúarbragði lengra.”

- Richard Dawkins


Skilningsleysi og vannþakklát börn

Það er mannlegt, og einungis mannlegt að leitast eftir guði. Vegna sjálfsmeðvitundar okkar (manna) og skynsemi, leitumst við eftir því að skapa einhverskonar ímynd á heiminn í von um svör við spurningum sem eru ofar okkar skilningi. Trúarbrögð búa til bráðabirgðalausn á vandamálum okkar. Ástæðan fyrir mismunandi trúarbrögðum og mismunandi útgáfum af þeim er einfaldlega sú, að við erum á víð og dreif um heiminn og trúin verður til í mismunandi menningarsvæðum. En ef satt reyndist að: einungis einn/ein/eitt hafi skapað þennan heim; gefið honum tilgang; stjórnað og stjórnar enn þá væru einungis ein gild trúarbrögð, einn tilgangur og ein lausn. Allir fylgdu þessari lausn og enginn þyrfti að efast í svo sem eina sekúndu. En margir guðir bjóða upp á mörg trúarbrögð og margar útgáfur, margar lausnir og fjölbreyttan tilgang. Einnig býður það upp á ósætti, stríð, mismunun, tortryggni, óréttlæti og stuðlar að minni samkennd meðal manna.
Við sköpuðum einhverskonar guð til að reyna að komast í skilning um óskiljanlega hluti á jörðinni. Við vildum vita af hverju það rigndi bara stundum, af hverju uppskeran brást á mikilvægum tímapunktum, af hverju fólk fékk bannvæna, bráðsmitandi sjúkdóma og líka til að reyna finna tilgang okkar, réttlæti og siðferði. Í staðinn fáum við óskiljanlegt samansafn rita sem má túlka eins og manni sýnist, bara af því að hún er viðmið. Ekki ætla ég að byggja líf mitt á grunsamlegri bók sem farið hefur í gegnum hreinsunarelda víðtækustu spillingar vestrænnar menningar. Bók sem hver og einn má túlka á sinn hátt og nota bara valda kafla úr til að laga að sínu lífi. En með tilkomu vísinda hefur þörf okkar gagnvart guði snarlega minnkað. Nú vitum við af hverju veðrið stjórnast, við vitum af hverju fólk veikist, við höfum komið með einu rökstuddu skýringuna á uppruna heimsins og getum útskýrt öll náttúruleg undur núna, sem áður var ekki hægt að skýra.
Að skilja við trú er ekkert annað en að draga klæði frá augunum til þess að getað áttað sig á því að nú er hægt að gagnrýna hluti sem hvorki sjást né heyrast.


“Sá sem trúaður er
er sá sem vill ekki vita sannleikann.”

- Nietzsche

Mannskepnan þurfti guð. Mannskepnan fann upp guð. Mannskepnan fann upp stafrófið og notfærði sér það til að skrifa niður þessar dásamlegu hugmyndir um guð og úr því urðu trúarrit okkar. Sem nota bene eru mjög mörg og mjög ólík og eiga það til að stangast á við eigin gildi (ef miðað er við Biblíuna, hina heilögu ritningu). Mörg trúarbrögð eiga það sameiginlegt að boða hugmyndina um framhaldslíf og afsönnun á dauðanum sem einhverskonar endalok. Þetta eru vanþakklátar hugmyndir, sérstaklega gagnvart okkar frábæra fyrirbæri, náttúrunni. Að biðja og vonast eftir meira en einu lífi er ekkert annað en vanþakklæti og hreinræktuð græðgi mannsins. Ekkert er fallegt við það að biðja um meira. Leit að tilgangi lífs í alheimnum með von um næsta líf er ekkert annað en frumstætt svar við dauðahræðslu okkar. Það er jú staðreynd að flestir eru smeikir við fullkomið tilgangsleysi og að dauði okkar sé endanleg niðurstaða. Þetta er ástæðan fyrir því að erfitt er að skýra þetta út fyrir fólki. Það er einfaldlega vegna þess að við getum ómögulega sætt okkur við niðurstöðuna. ,,Hún er bara fáránleg!"


Tilgangur og siðferði undir koddanum, ekki í bókinni

Tilgang lífs væri hægt að útskýra með endanleika þess og fellst því ekki í því markmiði að afneita dauðanum. Ef lífið væri eitthvað sem hægt væri að skilgreina sem endalaust og eilíft, hefði framhald og jafnvel fyrralíf, væri það gersamlega óþarfi að horfa á á “markmið” þess. Ef þetta líf sem við skynjum er ekkert annað en bara millibil á endalausri tímalínu er tilgangslaust að gera nokkuð við það. Tökum dæmi um fótboltaleik. Það er flautað til leiks og allt gengur eins og venjulega nema hvað að hann er aldrei flautaður af, gengur að eilífu…ekki mikill tilgangur með þeim leik? Allir hlutir ná endapunkti eða niðurstöðu og það gefur þeim tilgang og meiningu. Þeir hefjast, öðlast tilgang eða starfsemi(t.d tré) og síðan eftir að þeir hafa náð hámarksþroska er þeirra líftíma lokið og niðurstöðu er náð. Að sitja á rassgatinu og segja: “þetta verður bara betra í næsta lífi”, er leti og uppgjöf. Að hlaupa út um allar trissur með gullnu bókina undir hönd, búa til sjónvarpsþætti og skrifa bækur um það hvernig er hægt að snúa fólki til trúarbragðs og opinbera það hvað þér finnst trúin þín æðisleg, er fáfræði. Lífið er tímalína með upphafi og enda og allt þar á milli er tilgangur. Einnig, ef tilgangurinn kæmi frá guði myndi okkar leit að tilgang vera til einskis. Tilgangurinn væri annað hvort að þjóna guði og ekkert annað, með öðrum orðum: tilgangurinn er búinn til fyrir okkur. Eða við tryðum því að guð hefði tilgang fyrir okkur og ef við bara trúum nógu heitt þá fáum við hann upp í hendurnar. Þetta skil ég ekki vegna þess að þá missir spurningin “Hver er tilgangur lífs?” gildi sitt. Rétt eins og Jean-Paul Sartre sagði svo snilldarlega í fyrirlestri sínum L´Existentialisme est un Humanisme er hægt að taka dæmi um dauða hluti og tilgang þeirra. Hans dæmi var um bréfahnífinn. Hann er til fyrir tilstilli skapara sem bjó hann til og hafði ansi skýra hugmynd um tilgang hans, þess vegna er tilgangurinn “skráður í teikningar hnífsins”. Ef hnífurinn hefði sjálfsmeðvitund og þú bærir undir hann spurningu um hans tilgang, myndi hann svara: “ég sker pappír” Þar með er engin ástæða til að velta sér upp úr því. Við, aftur á móti, erum óskrifað blað. Við getum gert það sem við viljum gera úr okkur og það er ekkert yfirnáttúrulegt við það. Á því augnabliki sem guð skiptir sér að tilgang okkar í lífinu er tilgangurinn horfinn. “Tilveran er upphaflegri en eðlið.”

Að hann hafi skapað manninn, sem hann segir að sé fullkomin lífvera, en er síðan fjarri því að vera fullkomin, lofar honum gulli og grænum skógum en bara fyrir þá sem að hlýða honum í einu og öllu (hunsi allt annað) og leggja fyrir hina einhverskonar móralska gildru.

Furðulegt þykir mér líka að nokkur geti sagt með góðri samvisku að guð sé almáttugur, því, nei, það er hann ekki. Hann væri almáttugur ef hann gæti losað menn -hans mikilvægustu sköpun- við veikleika á borð við dramb, hroka, fíkn, öfund, græðgi, hatur og svo mætti lengi telja. Sumir segja mér að hann geri það allt svo við getum lært af því og getum í kjölfarið breytt rétt í lífi okkar. Það má vel vera, en að því leiti má draga þá ályktun að guð sé einfaldlega ófyrirgefanlegur asni. Að hann sé bara pervert sem hefur einhverskonar fróun af því að prófa forvitni okkar og tilhneigð til að falla í freistingar. T.d þessi langa-vitleysa sem ég kalla siðferði er ekki undir guði komin. Við ættum að velta fyrir okkur tveimur spurningum til að prófa þessa fullyrðingu. Fyrst spyr ég: Er gott siðferði í eðli sínu gott og þess vegna velur guð það? Eða: Er siðferði gott af því að guð velur það? Ef það fyrra er rétt er lítið gagn í að leiða hönd guðs í siðferðadeilum, hann kemur málinu ekkert við. Siðferði er til og það er gott og það verður til af mönnum, af því það er gott. Maður sem ákveður að stela ekki af því hann óttast refsingu guðs síns er ekki sannarlega siðgæddur maður. Maður sem ákveður að stela af því það kemur niður á samvisku hans og siðfræðum er sannarlega siðgæddur. Ef það seinna er rétt eigum við ekki von á góðu. Guð gæti valið hvað sem er og gert það gott. Hann gæti valið pyndingu sem gott siðferði og látið það eiga sig. Biblían hefur sem dæmi ýmislegt upp á að bjóða sem nú þykir ósiðlegt eða verra, ólöglegt. Mannfórnir, þrælahald, hommahatur(ath. lesbíur eru aldrei nefndar), grítingar og plágur(sem er reyndar óstaðfest vegna þess hversu margar þeirra stangast á við náttúrulögmál, þ.e “kraftaverk”). Allt þetta er í höndum hins “almáttuga” og “alvitra”.


Trú eða blint traust?

Að lokum er vert að benda lesandanum á hver tilgangurinn sé með því að halda í trúna við guð en ekki við jólasveininn. Hvar dregur maður mörkin á trú?

Tökum absúrd dæmi:
Trúaður maður tekur mig tali og spyr mig hvort ég trúi á guð. Ég svara honum neitandi og segi honum í rólegheitunum að ekkert bendi til þess að slíkt geti reynst rétt. Ég spyr á móti hvort hann trúi á jólasveininn. Hann segir nei hátt og snjallt og hlær að ódýrri spurningunni. En jú auðvitað gerði ég það þegar ég var 10 ára, bætir hann við og hlær aðeins meira.
Ég horfi á hann og segi: Ég trúði á guð þegar ég var 10 ára og meira að segja bæði guð og jólasveininn. Hann hættir að hlæja og segir mér svo að mamma hans og pabbi sögðu honum bara sannleikann; um að þau höfðu sko leikið jólasveininn.

Já, væri ekki frábært ef mamma og pabbi myndu bara segja þér sannleikann og útskýra fyrir þér hvernig þau bjuggu til heiminn á 7 dögum og eru hér til að dæma lifendur og dauða. Væri ekki frábært ef það væri einn alheims jólasveinn?
Það er óásættanlegt að þurfa að lúta einhverjum smeðjulegum jólasvein sem felur sig fyrir þeim sem virkilega leita að honum og vilja finna hann. “Það að vera ósýnilegt og að vera ekki til, lítur mjög svipað út.” Ekki satt?
Guð blessi trúleysið