Nú er sumarið að koma og það er tíminn sem maður á að njóta lífsins án áhyggja en því miður geta slysin gerst. Allt í einu getur kviknað í hjá þér, þú tapað aleigunni, eða jafnvel lífinu. Því er um að gera að vera reiðubúinn!
Það er ég, ég fór á heimasíðu míns tryggingarfélags og pantaði í netverslun þeirra eldvarnarteppi, tvö Purga T, annað fyrir sjónvarpið og hitt fyrir rafmagnstöfluna og þrjá reykskynjara. Sumum finnst þetta kannski verið að ofgera hlutunum í 40 fm íbúð en mér finnst bara betra að eyða nokkrum þúsundköllum í þetta núna og sleppa kannski við stórskemmdir eða jafnvel dauða ef eldur kemur upp.

Öryggisbúnaður

Reykskynjarar
Nauðsynlegt er að hvert heimili sé búið reykskynjara. Talað er um að hafa reykskynjara í stofu, gangi og hverju svefnherbergi. Þá er mismunandi hvort um er að ræða optískan eða jónískan reykskynjara en ég hef við leit mína að upplýsingum rekist á mjög misvísandi upplýsingar um hvað eiga að vera hvar en allir eru þó sammála um að hafa optískan í stofu og nálægt rafmagnstöflu.
Meðal lífstími reykskynjara eru 10 ár og ég hvet alla til að taka sinn niður og kíkja á dagsetninguna á honum, þetta litla tæki kostar undir 1000 kr. en hefur bjargað ófáum mannslífum.
Nauðsynlegt er að hugsa vel um reykskynjarann, skipta um rafhlöðu á hverju ári, gott að hafa vissa dagsetningu eins og t.d. 23. desember og mælt er að maður prófi hann einu sinni í mánuði. Einnig þarf maður að ryksuga hann tvisvar á ári með mjúkum stút því mikið ryk getur heftað virkni hans.
En hver er munurinn á optískum og jónískum reykskynjara?
Optískir skynjarar sjá með auga sýnilegan reyk og eru góðir þar sem glóðareldar geta komið upp, til dæmis í sófa. Þeir eru óháðir rakastigi, hitastigi og loftræstingu.
Jónískir skynjarar skynja með rafeindahólfi bæði ósýnilegar, lyktarlausar lofttegundir og sýnilegar, sem myndast við bruna á byrjunarstigi. Þeir eru háðir loftþrýstingi, rakastigi, hitastigi og loftræstingu.
Talað er um að hafa í bílageymslum, eldhúsum og þvottahúsum skuli setja hitaskynjara. Þeir skynja hitabreytingu frá 54°c til 56°c. Þeir eru óháðir loftþrýstingi og rakastigi.
Í stórum húsum er nauðsynlegt að hafa samtengda reykskynjara, því ef eldur kviknar í öðrum enda hússins en þú ert í er ekki víst að þú heyrir í honum. Ef einn samtengdur reykskynjari fer í gang, ræsir hann alla aðra samtengda reykskynjara í húsinu

Handslökkvitæki
Til eru margar gerðir slökkvitækja sem hafa má á heimilum. Mikilvægt er að allir á heimilinu viti hvar slökkvitæki eru geymd og hvernig á að beita þeim. Slökkvitæki ber að yfirfara árlega af viðurkenndum þjónustuaðilum.

Duftslökkvitæki eru ætluð á alla elda. Ekki er þó tryggt að duftið slökkvi eld þar sem myndast hefur glóð. Ráðlögð stærð á heimili er sex kg.

Kolsýruslökkvitæki eru aðallega ætluð á virk rafmagnstæki. Þau slökkva þó ekki glóðareld fremur en duftslökkvitækin. Þau eru til í mörgum gerðum og stærðum, allt frá tveimur kg.

Vatnsslökkvitæki eru aðallega ætluð á elda í föstum efnum, til dæmis timbri, vefnaði og pappír. Algengasta stærð tækjanna er tíu lítrar.

Léttvatnsslökkvitæki eru vatnsslökkvitæki sem froðuefni hefur verið bætt út í. Þau duga á sömu elda og vatnstækin en auk þess á olíu-, feitis- og rafmagnselda. Algengasta stærðin er sex og tíu lítrar.

Eldvarnateppi
Eldvarnateppi eru til í mörgum stærðum og þau má nota aftur og aftur. Teppið er lagt yfir hinn brennandi hlut og þétt að. Ef teppið fer ofan í feiti í potti getur logað í gegnum það. Þá er teppið tekið af og byrjað upp á nýtt.

Annað
Hægt er að kaupa eldvarnarstiga sem sniðugt er að geyma í hverju herbergi ef þú býrð í blokk, því þá er ekki lengur bara ein útgönguleið í boði.


Fyrstu viðbrögð við eldsvoða skipta sköpum!

- Tilkynna öllum í húsinu um hættuna.
- Aðstoða þá sem ekki geta bjargað sér sjálfir út úr húsinu.
- Tilkynna slökkviliði um eldinn – 112.
- Reyna að bjarga því sem mögulegt er eða slökkva eldinn ef áhætta er lítil, en fara út ella.

Flóttaáætlun

Þegar eldur kemur upp þar sem fólk sefur geta hiti og reykur valdið dauða nema þú hafir áætlun um hvernig bregðast á við, til dæmis um flótta úr svefnherbergi á örfáum sekúndum.

Áætlunin krefst:
1. Reykskynjara.
2. Flóttaáætlunar sem teiknuð er á blað.
3. Fjölskylduumræðna.
4. Æfinga.

Hafðu tvær flóttaleiðir:
1. Framdyr og bakdyr.
2. Svefnherbergisglugga.
Tryggðu að þessar flóttaleiðir séu ávallt greiðfærar.

Brunaæfing á heimilinu:
1. Allir eiga að vera í sínu herbergi með hurðir lokaðar.
2. Einn á heimilinu gefur brunamerki með því að kalla ELDUR! ELDUR!
3. Hver og einn athugi herbergisdyr sínar.
4. Látið sem dyrnar séu heitar. Notið þá hina flóttaleiðina.
5.Allir mæti á fyrirfram ákveðinn stað utandyra, einn látinn “kalla til” slökkviliðið.

Ræðið eftirfarandi við fjölskylduna:
1.Sofið með svefnherbergisdyrnar lokaðar. Það heldur aftur af hinum eitraða reyk.
2. Reykskynjarinn mun væla og vekja fjölskylduna.
3. Athugið dyrnar. Ef þær eru heitar notið þá hina flóttaleiðina. Séu þær kaldar, verið viðbúin að loka aftur ef reykur eða hiti sækir inn.
4. Skríðið í reykfylltu herbergi, verið fljót út.
5.Farið á fyrirfram valinn mótsstað svo þið getið athugað hvort öll fjölskyldan sé óhult.
6. Farið ekki aftur inn í eld eða reyk. Verið viss um að aðrir fari heldur ekki inn. Fjöldi fólks hefur látist við að reyna slíkt.
7. Kallið á slökkviliðið úr næsta síma.

Ég vona að sem flestir fari eftir þessu! Þetta getur bjargað lífi þínu!
Just ask yourself: WWCD!