Hæ allir hugarar og þið hin!
Þið eruð líklega flest öll sammála mér um að góð heilsa er gulli betri, og hreyfing og hollt mataræði eru lykilatriði til að vera í góðu formi og halda heilsu.
En getur verið að það örli á öfgum í þessari heilsueflingu landans? (reyndar örugglega ekki bara hér á Íslandi, en ég tala bara um það í þessu samhengi)
Þegar ég segi “öfgar” er ég ekki að meina að fólk sé farið að hreyfa sig of mikið og hugsa of mikið um mataræðið, heldur er ég að tala um þessa áróðurstækni sem beitt er fyrir heilsueflingu, og almennum hugsunarhætti um “fitubollur”.
Nú vil ég taka það fram að ég æfi líkamsrækt 5 sinnum í viku, og er í góðu formi sjálf (ég nefni það til að fyrirbyggja að fólk fari að skjóta á mig að ég sé bara bitur af því að ég sé sjálf feit og með lélegt þol). En ég þekki mikið af fólki sem er yfir kjörþyngd og stundar enga hreyfingu, og þar á meðal eru tvær sem eru að vinna með mér núna í sumar. Mér finnst fólk líta á þær hornauga, og alltaf vera að koma með einhver “ráð” fyrir þær, en mér finnst þetta frekar flokkast undir afskiptasemi. Dæmi: segjum svo að manneskjan fái sér óhollan mat í hádeginu og drekki kók, þá kemur einhver vinnufélagi: “Ég myndi ekki borða þetta, veistu hvað er mikið af kaloríum í þessu, bla bla bla” -Ekki alveg það sem maður nennir að hlusta á þegar maður er að borða, síst af öllu frá einhverjum sem þekkir mann lítið sem ekkert! Svo er pískrað um þessar manneskjur um hvað þær séu latar og með lélega sjálfsstjórn fyrir að hreyfa sig ekki, og talað um að “svona fólk á bara að drífa sig á lappir og fara að hreyfa sig” -Eins og þetta sé jafn lítið mál fyrir alla!
Málið er bara það að það er ekkert alltaf einfalt mál fyrir alla að byrja að hreyfa sig og borða hollan mat, og ég spyr, Hvað er svona slæmt við að það séu ekki allir steyptir í sama mótið??
Má fólk ekki borða yfir sig og vera feitt í friði lengur?
Enginn skiptir sér af því ef að manneskja eyðileggur heilsuna sína með reykingum bakvið luktar dyr heima hjá sér (enda er það algjörlega þeirra mál!!), og af hverju skiptir fólk sér af feitu fólki sem skaðar enga nema sjálfa sig?

Svo finnst mér áróðurinn líka vera kominn dálítið á villigötur. Það er eins og það sé verið að segja: Borðaðu grænmeti og stundaðu líkamsrækt og þá verðuru fallegur og grannur.
Hvaða áhrif ætli þetta hafi á börn og unglinga með lélega sjálfsmynd? Því fyrr eða síðar fattar fólk að það eru ekki allir steyptir í sama mótið, og þó að heilsurækt sé hið besta mál geta ekki allir litið út eins og fyrirsætur og hollywood leikarar!

Svo eru alltaf að koma nýjar og nýjar kenningar um hvað eigi að borða og hvað ekki, hvernig og hvenær fólk á að hreyfa sig, svo að fólk gleymir alveg að hugsa um hvað og hvenær það vill hreyfa sig og borða, heldur fylgir bara straumnum og því sem er í gangi hverju sinni.

Líkamleg heilsa er mikilvæg, en ekki síður andleg heilsa, og það er kannski kominn tími á að leggja meiri rækt við hana. Heilaþvottur og áróður getur varla verið góður fyrir andlega geðheilsu, þannig að hvernig væri að fara að vera svolítið meðvitaðri og umburðarlyndi í garð annars fólks?

mbk
eaue