Mig langar til að deila með ykkur aðferð sem ég er að nota þessa stundina til að ná tökum á sjálfum mér og efla sjálfsstjórn og þar með efla andlega og líkamlega vellíðan. Það má vel vera að þessi aðferð henti þér ekki en þar sem hún er að virka vel fyrir mig eru eflaust einhverjir þarna úti sem geta notað hana.

Hver kannast ekki við að setja sér ótal markmið til að ná tökum á sjálfum sér. T.d. með því að vilja léttast, hætta einhverjum ósið og taka upp betri siði. Það er ekki óalgengt að þegar tekið er á málunum gerist það með offorsi. Hætta að borða sælgæti, hætta að drekka gos, stunda ræktina 5 sinnum á viku, borða minna, borða hollar, fara fyrr að sofa og hvaðeina. Þetta stendur síðan yfir í einhvern tíma og áður en maður veit af er allt sprungið. Markmiðin eru gleymd og grafin líkt og vandræðalegur atburður sem best er að tala sem minnst um.

Rót vandans hjá slíkum einstakling er að erfitt er að hafa sjálfstjórn og halda settum markmiðum. Það er óhaggandi staðreynd að því oftar sem þér mistekst að halda gefin loforð, þeim mun erfiðara verður að reyna aftur. Þar á móti er sú staðreynd að því oftar sem þér tekst að halda gefin loforð því auðveldara verður að ná sterkum tökum á því. Aðferðin sem ég nota byggist á þessum röksemdarfærslum. Framkvæmdin er einföld og þarf ekki að kosta neitt. Það er undir þér komið hversu miklum fjármunum eða tíma þú vilt eyða en það fer eftir því hvaða markmið þú setur þér.

Það sem þú gerir er að hugsa vandlega um hvað þig langar að ná tökum á. Best er að setjast niður og skrifa niður nokkur atriði. Veldu svo eitthvað sem er einfaldast að ráða við og litlar líkur á því að þér mistakist. Dæmi um slíkt markmið er að borða ekki eftir kl. 22:00 á kvöldin. Ef þér tekst að halda markmiðið í eina viku færðu verðlaun en þau eru að þú mátt setja þér næsta markmið. Með því eru markmiðin höfð sem hvetjandi þáttur en ekki ánauð og sorg. Trúðu mér, eftir því sem þú nærð tökum á fleiri markmiðum, þá fara hlutirnir að gerast og langtímamarkmiðin verða ekki svo fjarlæg lengur. Ef þér tekst ekki að halda markmiðið þá annað hvort reynir þú í aðra viku eða slakar á markmiðinu, t.d. borða ekki eftir miðnætti. Passaðu þig á því að setja ekki markmið eins og „léttast um 20 kíló“. Þetta er langtíma markmið og ekki möguleiki að ná því á einni viku.

Eins og áður segir er gott að byrja á því að gera lista og forgangsraða atriðunum eftir því hvað þú telur mikilvægast að ná tökum á en hafa skal í huga að setja alls ekki of erfið markmið fyrst. Fyrir neðan tek ég dæmi um það hvernig minn listi leit út í byrjun. Þegar líða tekur fara fleiri atriði að bætast inn í. Til dæmis þegar ég hætti sælgætisáti hóf ég kökuát en kökur át ég ekki meðan ég hafði sælgætið. Því bætti ég við á listann „Hætta að borða kökur“.

Listinn minn:
31. des. Æfa minnst tvisvar í viku.
1. jan. Borða ekki eftir kl. 22:00.
8. jan. Drekka mest 1 bolla af kaffi á dag.
15. jan. Hætta að drekka kaffi.
22. jan. Hætta borða sælgæti og drekka gos.
29. jan. Hætta að borða kökur.
4. feb. Sneiða hjá allri óþarfa fitu eins og osti, rjóma, djúpsteiktu ofl.
11. feb. Æfa minnst tvisvar í viku og brenna einu sinni.
18. feb. Fara ekki seinna í bólið en um miðnætti nema eitthvað komi upp á.
25. feb. Mæta þar sem mér er ætlað að mæta og það tímanlega.

Sumum finnst þetta eflaust strangur listi og erfitt sé að halda slíkum markmiðum en staðreyndin er sú að með því að ná að halda einu markmiði verður auðveldara að halda næstu markmiðum. Í staðin fyrir að mörg markmið verði erfið viðureignar snýst dæmið við. Það verður auðveldara og auðveldara að halda settum markmiðum og þú nærð tökum á lífi þínu jafnt og þétt. Áður en þú veist af getur þú farið að setja þér erfið markmið og standa við þau áreynslulaust.

Svona í lokin vil ég benda á að það er harðbannað að setja sér markmið sem eru skaðleg og er það undir hverjum og einum að láta skynsemina ráða. Það er ekki vitlaust að ræða við einhvern nákominn um markmiðin og fá þeirra sjónarmið. Dæmi um óskynsamleg markmið eru, „Borða einu sinni á dag“, „Sofa mest þrjá tíma á sólarhring“, „Lyfta 5 sinnum á viku og brenna 7 sinnum“ og „Láta aðra í fjölskyldunni fylgja mínum markmiðum“.
Kveðja,