Verkur í hásin og meiðsli (Achilles tendinitis) Meiðsli í hásin (stærstu og öflugustu sin líkamans) eru algeng (um 11% af hlaupameiðslum) og eiga bæði við um keppnisfólk og venjulega skokkara. Viðkomandi er oft hinn hressasti og vel þjálfaður og á því erfitt með að átta sig á því að sé meiddur. Gengið hefur vel í síðustu keppnishlaupum og verið að setja aukinn kraft í æfingar með hraðaæfingum og brekkusprettum. Einmitt á einni slíkri æfingu kemur skyndilega verkur í hásin (staðsetning eins og sést á mynd). Stundum er eins og óþægindin læðist að manni með verk í byrjun æfingar sem síðan hverfur þegar á líður, en þá er oft tekið meira á og meiðslin versna. Verkurinn er yfirleitt verstur á morgnana og stundum er tilfinningin eins og nokkrir þræðir í sininni hafi gefið sig. Þessu er þó ekki í fyrstu tekið alvarlega þar sem einkennin hverfa eftir nokkrar mínútur. Eftir því sem meiðslin versna kemur að því að sársaukinn verður nánast stöðugur meðan hlaupið er og þá leita margir læknisaðstoðar. Því miður eru þeir til sem bíða allt of lengi (stundum í nokkur ár) með að leita sér faglegrar hjálpar með slæmum afleiðingum, sinin trosnar, þolir minna álag og getur að lokum slitnað.
Við skoðun er sinin bólgin og við þreifingu kemur fram sársauki og jafnvel marrar i sininni. Margir eru orðnir haltir og geta ekki staðið á tám án sársauka.
Nýleg hásinameiðsli er yfirleitt auðvelt að meðhöndla en það segir sig sjálft að erfitt er að meðhöndla hásin sem hefur verið bólgin lengi (stundum í nokkur ár) og orðin þykknuð og slitin (trosnuð).
Hvíld fyrir kálfvöðva og hásin er mikilvæg en reyna má aðrar íþróttagreinar með minna álagi eins og t.d. sund.
Þegar meiðslin eru gróin og verkur horfinn er mikilvægt að gera styrkjandi æfingar og teygjur til að fyrirbyggja endurtekin meiðsli.