Uppfært: Við erum búin að fylla öll pláss fyrir jólabarnið yfir öll jólin, svo ekki er lengur hægt að senda inn. Þið sem ekki náðuð inn í ár, gangi ykkur betur á næsta ári :}

Kæru jólaunnendur, nær og fjær, núna er aðventan bara rétt handan við hornið og ekki seinna vænna en að fara að koma jólaáhugamálinu á huga í gang. Ég vil byrja á að bjóða nýjan stjórnanda, hana sky, velkomna á áhugamálið, ekki veitir af, því á þessari aðventu (og jólunum auðvitað, ásamt áramótunum) ætlum við að gera jólaáhugamálið að stóru númeri á huga og ná toppflettingum, vera í fyrsta sæti yfir flettingar á huga!

En, það sem ég er að kynna núna er Jólabarn dagsins. Þeir sem ekki vita hvað það er, þá er það spurningalisti um jólin, sem notendur svara og birtast svör eins notanda á hverjum degi frá fyrsta sunnudegi í aðventu til þrettándans í kubbinum Jólabarnið á forsíðu áhugamálsins. Spurningalistinn í ár er aðeins uppfærður frá því sem hann hefur verið undanfarin ár, svo flestar spurningarnar eru nýjar, ferskar og skemmtilegar.

Svona gengur þetta fyrir sig:
Þú skoðar kubbinn Jólabarnið á forsíðu áhugamálsins, þar eru 15 spurningar
Þú afritar spurningarnar og sendir þær sem einkaskilaboð til mín (Vansa) ásamt þínum svörum við þeim.
Innan sólarhrings (og oftast mun styttri tíma) ertu komin/n á listann Verðandi jólabörn í þessum kubbi. Ef ekki, sendu mér skilaboð til að athuga hvort svörin þín hafa ekki skilað sér.
Svo er bara að bíða aðventunnar, þegar hvert jólabarnið á fætur öðru birtist daglega.

Ætla ekki allir að taka þátt? Aðeins 36 pláss eru í boði, 2. desember til 6. janúar. Fyrstur kemur fyrstur fær.