Þegar líður að jólum er þeirri spurningu stundum varpað fram hvort nú muni ekki vera brandajól eða öllu heldur stóru brandajól. Þessi spurning var síðast til umræðu í fjölmiðlum árið 1992 þegar jóladag bar upp á föstudag. Jólahelgin lengdist þá um einn dag við það að þriðji í jólum var sunnudagur. En voru þetta stóru brandajól? Í Almanaki Þjóðvinafélagsins árið 1969 var eftirfarandi skýring gefin:

brandajól, jól sem falla þannig við sunnudaga, að margir helgidagar verða í röð. Venjulega haft um það, þegar jóladag ber upp á mánudag. Stundum hefur verið gerður greinarmunur á stóru brandajólum og litlu“ brandajólum, en notkun heitanna virðist hafa verið á reiki. Nafnskýring óviss, ef til vill tengt eldibröndum á einhvern hátt. Sunnar í löndum kemur svipað orð fyrir í sambandi við páskaföstuna (Dominica Brandorum: 1. sunnudagur í föstu).



Ætlunin er að bæta nokkru við þessa skýringu með því að rekja helstu heimildir. Sú elsta mun vera minnisblað sem Árni Magnússon ritar, líklega í byrjun 18. aldar (AM 732 a XII 4to). Þar segir að brandajól kalli gamlir menn á Íslandi þegar jóladag ber upp á mánudag, áttadag (nýársdag) á mánudag og þrettándann á laugardag. Árni bætir reyndar við, að sumir telji þá aðeins brandajól, að þetta gerist á hlaupári, en erfitt er að skilja ástæðuna fyrir slíkri reglu. Á þessum tíma og fram til 1770 var þríheilagt á stórhátíðum, svo að þriðji í jólum var helgidagur. Þegar jóladag bar upp á mánudag, urðu því fjórir helgidagar í röð (fjórheilagt).

Önnur heimild, nokkru yngri, er orðabók Jóns Ólafssonar frá Grunnavík (AM 433 fol.), sem rituð er á latínu. Þar segir að brandajól heiti það þegar fjórir helgidagar fari saman. Séu það brandajól meiri, ef sunnudagurinn fari á undan fyrsta jóladegi, en brandajól minni, ef sunnudagurinn fari á eftir þriðja degi jóla. Þetta mun ritað um miðja 18. öld.

Næst er brandajóla getið í íslensk-latnesk-danskri orðabók sem séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal samdi á árunum 1770-1785. Þar segir að brandajól séu þegar dagurinn fyrir fyrsta jóladag eða dagurinn eftir þriðja í jólum sé sunnudagur. Er það sama skýring og hjá Grunnavíkur-Jóni, nema hvað Björn minnist hvorki á stóru né litlu brandajól. Tæpri öld síðar vitnar Eiríkur Jónsson í þessa heimild í orðabók sinni (Oldnordisk Ordbog, 1863), en bætir því við, að frekar séu það brandajól ef jóladagur sé föstudagur eða mánudagur. Eiríkur tekur þarna tillit til þess að þriðji í jólum er ekki lengur helgidagur og breytir skilgreiningunni samkvæmt því.

Árið 1878 ritar Jón Sigurðsson grein um almanak, árstíðir og merkidaga í Almanak Þjóðvinafélagsins. Jón minnist á brandajól og segir, eins og Árni Magnússon, að menn hafi kallað það brandajól þegar jóladag bar upp á mánudag. Jón nefnir, að sérstök helgi hafi áður fyrr verið á áttadegi jóla og þrettándanum, og hafi þessar helgar báðar lengst um einn dag á brandajólum. Það, að allar helgarnar þrjár lengist á brandajólum, kemur líka óbeint fram á minnisblaði Árna Magnússonar.

Snemma á þessari öld ritar séra Jónas Jónasson frá Hrafnagili (d. 1916) um orðið brandajól (Íslenskir þjóðhættir, útg. 1934, bls. 207). Jónas segir, að fyrir 1770 hafi það heitið brandajól þegar fjórheilagt varð, hvort sem það bar þannig til að jóladagur féll á mánudag eða fimmtudag. Heimildar getur Jónas ekki, en Sigfús Blöndal gefur sömu skýringu í Íslensk-danskri orðabók (1924) og vitnar í orðabók Björns í Sauðlauksdal.

Jónas frá Hrafnagili segir enn fremur, að eftir að jólahelgin var stytt, árið 1770, hafi menn kallað það brandajól þegar þríheilagt varð, þ.e. þegar jóladag bar upp á mánudag eða föstudag, en hina fornu fjórhelgi hafi menn kallað brandajól hin stóru. En Jónas segir líka, að menn hafi stundum kallað það stóru brandajól þegar jóladag bar upp á þriðjudag, svo að þarna eru komnar tvær skýringar á nafngiftinni stóru brandajól og hvorug þeirra fellur saman við hina eldri skýringu Jóns frá Grunnavík. Nýjustu skýringuna er að finna hjá Sigfúsi Blöndal sem segir að nú heiti það stóru brandajól þegar jóladag beri upp á föstudag og helgidagar verði fjórir í röð. Sigfús telur aðfangadaginn greinilega með helgidögum þótt hin kirkjulega helgi hefjist ekki fyrr en á miðjum aftni (kl. 18) þann dag. ”Litlu brandajól“ kallar Sigfús það þegar jóladagur er á mánudegi, því að þá verði helgidagar einum færri. Segja má að það skjóti skökku við, þegar þau einu jól sem Árni Magnússon kallar brandajól, og Jón frá Grunnavík kallar brandajól meiri, eru orðin að litlu brandajólum!

Af framansögðu er ljóst að á liðinni tíð hafa menn lagt mismunandi skilning í orðið brandajól, einkum þó hvað séu stóru og litlu brandajól. Þær heimildir sem vitnað hefur verið í, benda eindregið til að orðið brandajól hafi upphaflega merkt einungis það þegar jóladag bar upp á mánudag. Síðan hafa einhverjir farið að kalla það brandajól líka, þegar sunnudagur fylgdi á eftir jólahelginni. Þau jól hafa þó verið nefnd brandajól minni eða litlu brandajól, því að þau urðu ekki til að lengja helgar um nýár eða þrettánda. Eftir að hætt var að halda þrettándann heilagan (1770) hafa menn horft meira til þess hvaða dagamynstur gæfi lengsta jólahelgi eða flesta frídaga. Það hefur leitt til frekari ruglings, hin upphaflega merking stóru brandajóla hefur gleymst, og loks hafa menn gert litlu brandajólin að þeim stóru.

Ef menn vilja koma reglu á þetta mál, mælir margt með því að fylgt verði elstu heimildum og heitið brandajól einungis haft um það þegar jóladag ber upp á mánudag. En ef menn kjósa að hafa tvenns konar brandajól, mættu þetta heita stóru brandajól, en litlu brandajól yrðu þá þau jól þegar jóladag ber upp á föstudag. Ekki virðist ráðlegt að tengja skilgreininguna við annað en kirkjulega helgidaga því að aðrir frídagar eru sífelldum breytingum háðir og auk þess mismunandi eftir starfsstéttum. Samkvæmt þessu hefði í mesta lagi átt að telja jólin 1992 til litlu brandajóla, en næstu (stóru) brandajól verða þá árið 1995.

Um forliðinn branda- í orðinu brandajól er það að segja, að ýmsir hafa túlkað hann svo, að þar sé átt við eldibranda. Þetta er þó engan veginn víst, og gæti allt eins verið alþýðuskýring. Árni Magnússon hefur það eftir gömlum mönnum, að nafnið sé af því dregið, að þá sé hætt við húsbruna, en ”adrer hallda þad so kallad af miklum liosa brenslum Nafngiftin hefur því valdið mönnum heilabrotum í þrjú hundruð ár að minnsta kosti, og verður svo vafalaust enn um hríð.n


(Úr Almanaki Háskólans 1994)




Bréf um jóladagana frá ca 1800 - ( Sagnanet.is)



Að gefa í skóinn

Eftir miðja 20. öld breiddist sá siður hratt út í Reykjavík og síðar öðrum kaupstöðum að börn settu skó sinn út í glugga á hverju kvöldi nokkru fyrir jól í von um að jólasveinn léti í hann eitthvert góðgæti sem fyndist morguninn eftir. Sú von gerði þau oft þægari að sofna.
Siðurinn varð hinsvegar mjög hamslaus á Íslandi fyrst eftir 1950. Sumir byrjuðu strax í upphafi jólaföstu eða 1. desember, og stundum komu stórar fjárfúlgur í skóinn. Olli slíkt bæði metingi og sárindum þegar börn báru sig saman í skóla, og leiðindum fyrir alla uppalendur. Ekki var gert neitt skipulagt átak til að hamla gegn þessum ófögnuði. Fóstrur og ömmur leituðu þó ráða hjá þjóðháttadeild Þjóðminjasafnsins, og af hennar hálfu var fjallað um málið í Ríkisútvarpinu. Árangurinn varð sá að upp úr 1970 tókst smám saman að innræta þá eðilegu meginreglu að ekkert kæmi í skóinn fyrr en fyrsti jólasveinninn kemur til byggða 13 eða 9 nóttum fyrir jól, og ekki væri annað en smáræði í skónum.




Kerti

Eigi síðar en snemma á 19. öld var orðinn almennur siður að gefa hverju barni kerti á jólunum og jafnvel öllu heimilisfólkinu. Nokkrir heimildarmenn minntust þess einnig að kertastubbum úr kirkju væri útbýtt meðal barna eftir jólamessu. Kertasteypa var eitt þeirra verka sem ljúka þurfti fyrir jólin.

Kerti voru til forna búin til úr býflugnavaxi. Það varð að flytja inn frá útlöndum og var mjög dýrt, ein mörk af vaxi kostaði sama og þrjár lambagærur. Tólgarkerti komu svo til sögunnar ca á 15. Þau var auðvelt að búa til á sveitabæjunum og voru á hátíðum eins og jólum. Á fyrri hluta 19. aldar er svo farið að nota efnið stearin í kerti.

Tólgarkerti voru búin til þannig að tólgin var brædd og hellt í djúpan trédall. Oft var það strokkurinn á heimilinu sem var notaður og voru kertin þá kölluð strokkkerti. Í strokkinn var fyrst sett volgt vatn og svo bráðin tólg ofan á Kveikir á kertum voru kallaðir rök. Þeir voru búnir til úr innfluttu ljósagarni en það var úr fléttaðri bómull. Á Íslandi voru rökin oft búin til úr gömlum léreftsflíkum sem voru rifnar í ræmur ,fléttuð eða tvinnuð úr hrosshári eða þá að kveikir voru snúnir úr ull eða fífu. Rökin voru fest á lítið prik sem var kallað kertará. Síðan var þeim dýft ofan í tólgina og tólgarlagið látið storkna. Þegar það hafði storknað var þeim dýft aftur í tólgina og þannig haldið áfram þangað til kertin voru orðin mátulega digur.

Kerti voru einnig steypt í kertaformi sem var hólkur úr málmi. Kerti sem voru steypt í formi þóttu fínni og höfðu sléttara yfirborð en strokkkertin. Fyrir jólin voru auk einfaldra kerta steypt kóngakerti. Þau greinast í þrennt og eru tákn vitringanna þriggja frá austurlöndum. Kóngakerti voru búin til með því að binda þrjú rök neðan í spýtu og hnýta endarökin á mitt miðjurakið.

Efni um kerti af síðu Salvarar Gissurardóttur. Meira



Jólatrésskemmtanir

Jólatrésskemmtanir fyrir börn urðu eftir þetta algengur siður á vegum ýmissa fleiri samtaka og jafnvel einstaklinga í Reykjavík og fleiri kaupstöðum. Svo háan sess fer jólatréð að skipa að síra Valdimar Briem líkir því við Jesúm Krist í sálmi, en það hafði Jón Thoroddsen reyndar þegar gert í afmælisvísum árið 1859.Elstu íslensku jólatréskvæði sem enn hafa fundist eru eftir Guðmund Guðmundsson skólaskáld og steingrím Thorsteinsson. Kvæði Guðmundar heitir Við jólatréð“ og var sungið undir laginu Gamla Nóa” á barnasamkomu Iðnaðarmannafélagsins í reykjavík 7. janúar 1898. Ekki verður þess vart að það hafi borist víðar, nema hvað það birtist í Æskunni fyrir jólin 1921:

Ljósin skína,ljósin skína
ljómar grantréð hátt!
Ilm við finnum anga
epli á greinum hanga.
Syngjum, dönsum, syngjum,dönsum
syngjum fram á nátt.
Tengdum höndum, tengdum höndum
tréð við göngum kring.
Nú er gleði og gaman
gott að vera saman.
Kringum ljósin, kringum ljósin
kát við sláum hring





Jólagjafir


Jólagjafir í nútímaskilningi eru ekki nema rúmlega hundrað ára gamall siður meðal almennings á Íslandi þótt gjafir á jólum þekktust frá fornu fari hjá kóngafólki og öðrum höfðingjum erlendis og hérlendis eins og þegar má sjá í Egils sögu og fleiri fornritum.

Eigi síðar en snemma á 19. öld var orðinn almennur siður að gefa hverju barni kerti á jólunum og jafnvel öllu heimilisfólkinu. Önnur tegund jólagjafa var á þá lund að hinir betur stæðu sendu snauðum nágrönnum einvherja matarögn fyrir jólin. Þessi siður mun eiga sér ævafornar rætur sem kirkjan hélt áfram að rækta. Eftir miðja 19. öld fer að örla á jólagjöfum í nútímastíl enda varð þá meira um sölubúðir en áður eftir að fullt verlsunarfrelsi komst á árið 1855.

Langt fram á 20. öld var algengt að kaupmenn auglýstu sérstaka jólabasara og buðu afslátt á ýmsum vörum. Þetta fellur niður á stríðsárunum seinni en um leið fjölgar jólagjöfum um allan helming. Þessa breytingu virðist mega rekja til hinnar margrómuðu lífskjarabyltingar verkalýðsins á þessum árum. Eitt af fyrstu viðbrögðum verkafólks þegar lífskjör bötnuðu var að sjá til þess að börn þeirra fengju jóalagjafir ekki síður en hinna sem betur máttu. Þá reyndist ekki lengur sama þörf fyrir basara með niðursettu verði.

Íslendingar hafa jafnan afhent jólagjafir sínar á aðfangadagskvöld rétt eins og menn fengu áður jólaskó og kerti á því sama kvöldi.




Jólamatur

Jólakort

Jólasveinar

Jólakötturinn

Jólatextar

Jólakærleikur

Jóladagatal

Jólakveðjur

Jólaguðspjallið

Grýla og Leppalúði
Ein svöl