Fregnir herma að söngvarinn Robert Plant hafi samþykkt að fara með hljómsveit sinni, Led Zeppelin, í tónleikaferðalag um heiminn.

Hinir meðlimir sveitarinnar, gítarleikarinn Jimmy Page, bassaleikarinn John Paul Jones og trommuleikarinn Jason Bonham voru farnir að búa sig undir að fara á tónleikaferðalag án Plants, en hann mun hafa skipt um skoðun þegar þeir félagar fóru að leita að öðrum söngvara í hans stað.

„Þeir voru kannski ekki búnir að gefa upp alla von með Robert, en þeir voru hins vegar ákveðnir í að fara í tónleikaferðalag og voru alvarlega farnir að leita að öðrum söngvara,“ sagði heimildarmaður. „Þegar Robert áttaði sig á því að þeim var alvara með að gera þetta án hans, ákvað hann að hugsa málið betur.“

Hinir meðlimirnir munu vera himinlifandi með þessa ákvörðun söngvarans, og er nú stefnt að því að halda í tónleikaferðalag næsta sumar.

Led Zeppelin kom saman að nýju á tónleikum í Lundúnum í desember, og slógu þeir í gegn. Hávær orðrómur hefur verið uppi um hugsanlega tónleikaferð í kjölfarið.

Sveitin var upphaflega stofnuð árið 1968 og er af mörgum talin besta rokksveit sögunnar.


Tekið af mbl.is

Bætt við 28. september 2008 - 12:10
http://www.mbl.is/mm/folk/frettir/2008/09/28/zeppelin_a_tur_i_sumar/
Byrði betri