Óskarsverðlaunaleikkonan Reese Witherspoon og eiginmaður hennar leikarinn Ryan Phillippe, hafa ákveðið að skilja.


Þau giftu sig árið 1999 eftir að hafa leikið saman í myndinni Cruel Intentions. Eiga þau tvö börn saman. „Þau munu áfram vera náin sinni fjölskyldu,“ sagði í yfirlýsingu upplýsingafulltrúa þeirra. „Okkur þykir leitt að tilkynna að Reese og Ryan hafi ákveðið að skilja. Biðjum við ykkur að virða einkalíf þeirra og öryggi barna þeirra.”Heimildir herma að Witherspoon hafi rætt við hinn þekkta lögfræðing Robert Kaufman sem hefur m.a. tekið upp á sína arma stjörnur á borð við Jennifer Aniston, Rosanne Barr og Lisu Marie Presley. Talið er að enginn einn atburður hafi leitt til skilnaðarins heldur röð smærri atvika.

Phillippe úti á lífinu

Witherspoon, sem er þrítug, fékk Óskarinn fyrr á árinu fyrir hlutverk sitt sem June Carter Cash í kvikmyndinni Walk The Line. Phillippe, sem er 32 ára, lék á svipuðum tíma ungan lögregluþjón í myndinni Crash, sem fékk Óskarinn sem besta myndin.
Nýjasta mynd Phillippes, Flags of Our Fathers, er nú sýnd í Bandaríkjunum en hún var að hluta til tekin upp hér á landi í fyrrasumar. Þá birtust fregnir af Phillippe og félögum hans úr tökuliðinu úti á lífinu í miðbæ Reykjavíkur. Átti íslenska kvenþjóðin erfitt með að halda sig frá Phillippe og vakti meðal annars athygli þegar hann sást á tali við sjálfa ungfrú heim, Unni Birnu Vilhjálmsdóttur.

Annar Hollywood-skilnaðurinn

Þau Witherspoon og Phillippe mættu saman á frumsýningu Flags of Our Fathers hinn 16. október síðastliðinn og virtist þá allt leika í lyndi. En skjótt skipast veður í lofti og eru þau svo sem ekki eina Hollywood-parið sem hefur ákveðið að skilja á þessu ári. Í janúar skildi tvöfaldi Óskarsverðlaunahafinn Hilary Swank við eiginmann sinn Chad Low.

Skilnaður eftir Óskar

Raunin er sú að á undanförnum tíu árum hafa sex af þeim níu leikkonum sem hafa fengið Óskarsverðlaun skilið við maka sína, sem þær höfðu áður þakkað svo innilega fyrir stuðninginn er þær tóku á móti verðlaununum.